Leita í fréttum mbl.is

Henríetta Lacks, konan sem lifði að eilífu, í frumurækt.

Viltu lifa að eilífu? Flestir segja já og hugsa sig svo um. Spyrja yfirleitt í kjölfarið, hvers konar líf væri það?

Henríetta Lacks var ekki spurð, og líf hennar eftir dauðan var alls ekki það sem búast mætti við. Það var ekki Henríetta sjálf sem lifði, hún dó úr krabbameini. Það sem lifði voru frumur sem læknirinn Howard W. Jones tók úr æxlinu í leghálsi hennar. Hann lýsti því sem mjög sérstöku æxli, mjúku og hlaupkenndu, hann kallaði það red jello upp á ensku. Frumurnar úr æxlinu voru fyrstu mannafrumurnar sem uxu í rækt, og eru þekktar sem HeLa frumur.

Henríetta leitaði á John Hopkins sjúkrahúsinu í Baltimore í janúar 1951 því þetta var eini spítali borgarinnar sem meðhöndlaði blökkufólk. Þar unnu Jones, George Gey og Mary Kubicek. Á þessum tíma hafði tekist að rækta frumur úr öðrum hryggdýrum, m.a. músum, á tilraunastofu en mannafrumur lifðu yfirleitt frekar stutt við þessar aðstæður. George og Mary höfðu um árabil stundað slíkar tilraunir án árangurs, þangað til frumur Henriettu komu inn á þeirra borð. Stórkostleg bók Rebeccu Sklott rekur æfi Henríettu Lacks, frumnanna og fjölskyldu hennar.

Fimm barna móðirin Henríetta Lacks og frumulínan HeLa

henrietta_lacks_180215Henríetta Lacks átti fimm börn með David eiginmanni sínum, sú yngsta Deborah var bara eins árs þegar móðir hennar lést. David gaf leyfi fyrir krufningu og að lífsýni væru tekin fyrir rannsóknir. Sýnið sem HeLa frumurnar komu úr var reyndar tekið við sjúkdómsgreiningu, að Henríettu forspurðri. Fjölskyldan heyrði ekki um frumurnar frá læknunum eftir andlát hennar.

HeLa frumur uxu eins og arfi, fjölguðu sér mjög hratt, gátu lifað í lausn (þurftu ekki undirlag). Þær urðu ótrúlega mikilvægar og notadrjúgar, því þær gerðu fólki kleift að rannsaka eiginleika mannsins - í tilraunaglasi. Líffræðingar þekkja þessar frumur, margir hverjir úr sínum eigin rannsóknum. Ég veit ekki hvort ég hef handleikið þær sjálfur, en möguleiki er að Halldór Þormar hafi notað þær í sínu frábæra veirufræðinámskeiði undir lok síðustu aldar.

Eitt þekktasta dæmi um mikilvægi HeLa fruma er veirufræði. Á fimmta áratugnum herjaði lömunarveiki á þjóðir heims. Jónas Salk hafði fundið leið til að búa til bóluefni, en takmarkandi var getan til að framleiða nægilega mikið af veirum. Í ljós kom að sýkja mætti HeLa frumur með veirum, m.a. pólíóveirunni, og einangra mikið magn þeirra í kjölfarið. Þarna leystist vandamál Salk. Búin var til HeLa verksmiðja sem dældi úr veirum sem notaðar voru í bóluefni gegn lömunarveiki.

Lacks fjölskyldan fréttir af framhaldslífi Henríettu

Eiginmaður og börn Henríettu fréttu ekki af framhaldslífi frumnanna fyrr en 2 áratugum eftir dauða hennar. George Gey og félagar ákváðu að vernda fjölskyldu Henriettu með því að segja að HeLa frumurnar hefðu komið úr konu Helen L. (ég lærði að hún hafi heitið Helen Lane). George spurði fjölskylduna ekki álits, né upplýsti hana um að frumur Henríettu væru notaðar í rannsóknum um allan heim.

Þegar George Gey lést var rituð grein um störf hans og HeLa frumurnar. Þá afhjúpaðist nafn Henríettu fyrir heiminum, þ.e.a.s. aðallega vísindaheiminum. Í bók Skloot er rakið hvernig ættingi hennar komst að því að frumur úr henni væru í notkun á tilraunastofum um víða veröld. Þið getið rétt ímyndað ykkur uppnámið. Mamma er ekki dáin, en hún lifir bara sem frumur í skál. Frumurnar úr mömmu voru sendar út í geim, hafa verið sýktar með veirum, var sprautað í fanga til að athuga hvort krabbamein væru smitandi o.s.frv. Og HeLa frumurnar voru seldar, á 25 dali flaskan, því þó George hafi dreift frumunum af óeigingirni stofnuðu aðrir aðillar fyrirtæki til að rækta og dreifa þeim.

Nokkrir blaðamenn sýndu sögunni athygli og ræddu við fjölskylduna á áttunda áratugnum. En fjölskyldan var verulega tortryggin, sem var skiljanlegt þegar aðskilnaðarstefnan var nýliðin undir lok, og lexían frá Tuskegee tilrauninni brann á fólki. Læknar höfðu látið blökkumenn lifa í áratugi með sárasótt (e. syphilis), sem auðvelt er að lækna með sýklalyfjum, til að kanna framþróun sjúkdómsins. Læknirinn Roland Pattillio sýndi fjölskyldunni þá sæmd að ræða við þau og upplýsa. Hann hélt líka málþing til heiðurs Henríettu og frumunum hennar á níunda áratugnum. Fjölskyldan var særð, en líka að vissu leyti stolt að frumur ættmóðurinnar hafi orðið að svo miklu gagni.

Dramatísk saga af Henríettu og fjölskyldun hennar

Dramað í bók Skloot um Henríettu og frumurnar hennar er þríþætt. Fyrst vitanlega saga Henríettu og frumnanna og í annan stað vanvirðingin sem blökkufólk var beitt af lækna- og vísindasamfélaginu.

Í þriðja lagi er saga fólksins, Rebeccu sem þarf að ávinna sér traust fjölskyldunar en sérstaklega yngstu dótturinnar sem þekkti aldrei móður sína. Deborah var víst mjög tortryggin og alvörugefin og tók mjög nærri sér þá staðreynd að frumur móðurinnar væru lifandi. Þegar blaðakonan Rebecca bauð Deboru inn á tilraunastofu, þá talaði hún við frumurnar eins og hún sæti við sjúkrabeð móður sinnar... Í bókinni er lýst hvernig Deborah trúði því að móðir sín lifði enn í frumunum eða a.m.k. sem andi sem hjálpaði Rebeccu og henni að segja söguna.

Bók Rebeccu Skloot opnar á nærgætinn hátt viðkvæman snertiflöt vísinda og samfélags, og minnir okkur vísindamennina á mikilvægi þess að ræða við fólk. Ekki síst þegar unnið er með sýni úr því sjaĺfu, eða ættingjum þeirra. Saga Henríettu er ekki einstök.

Þúsundir annara frumulína t.d. úr æxlum eða fósturstofnfrumum eru notaðar á tilraunastofum um víða veröld. Það þýðir að þúsund aðrar fjölskyldur gætu verið í sama myrkri og fjölskylda Henríettu, og því þúsund áþekkar sógur ósagðar. Satt best að segja veit ég ekki hvert vinnulag frumulíffræðinga er nú til dags. Hvort þeir upplýsi fólk um þann möguleika að frumur úr lífsýnum kunni að vera ræktaðar og nýttar til rannsókna, jafnvel seldar af einhverju fyrirtæki. Maður vonar það vitanlega en reynsla sýnir að fólk á til ónærgætni.

Kvikmynd byggð á bók Rebeccu Skloot verður sýnd á stöð 2 í kvöld.

Kveikjan að pistilnum var samtal okkar Önnu Gyðu Sigurgísladóttur lestarstjóra á Rás 1, sem spilast í dag einnig.

Ég vil líka þakka Jóhannesi Guðbrandssyni margfaldlega fyrir að kynna mig fyrir sögu Henríettu og lána mér bók Rebeccu.

Byggt að hluta á eldri pistlum, m.a. fyrir vísindavef HÍ.

Arnar Pálsson 13. mars 2015 Hver var Henríetta Lacks og hvað eru HeLa-frumur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband