Leita í fréttum mbl.is

Mannauður úr engu?

Gullgerðarmenn fortíðar héldu að þeir gætu búið til gull úr blýi, eða einhverju algerlega verðlausu. Þeir héldu að hægt væri að umbreyta efnum í gull með tilraunum og blöndunum.

Gullgerð virkar ekki. En það er hægt að gera gull af mönnum með því að skaffa þeim rétt umhverfi. Mannfólk mótast af umhverfi sínu, og leiðin til að búa til mannauð er að skaffa ungu fólki frjótt og hvetjandi umhverfi.

Það er að segja góð heimili og gott menntakerfi. Saman getum við byggt upp góðar menntastofnanir og skóla, sem hjálpa börnum að þroskast og gerir fólk sjálfstætt, skapandi og hugsandi.

Skólakerfið allt hefur verið í fjársvelti í marga áratugi, sem sést best á ástandi skólabygginga en einnig í sambærilega alvarlegum brestum í starfi, skorti á bókum og kennsluefni og lélegri aðstöðu ólíkra skóla og skólastiga. Í formlegu skólakerfi landsins eru háskólar athvarf fyrir þá sem vilja mennta sig og þroskast með því að læra. Í Háskóla Íslands hefur langvarandi fjárskortur komið niður á húsnæði og útbúnaði, vinnuaðstöðu starfsfólks og gæðum náms.

Mannauður verður ekki til úr engu. Mannauður þarfnast góðrar umgjarðar, menntastefnu, kennara, starfsfólks, bygginga og tækja. Og það getur alþingi skaffað með áherslu á málaflokkinn og fjármagni til háskólanna.

Torfi Túliníus fjallar um mannauð í grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir:

Í heimi tuttugustu og fyrstu aldar, með öllum sínum tækifærum og áskorunum, skiptir mannauður ekki síður máli en í veröld fornskáldsins. Tækifærin eru mikilfengleg með tækninýjungum, hnattvæðingu og síauknum skilningi á náttúrunni og okkur sjálfum. Áskoranirnar eru gríðarlegar með fólksfjölgun, náttúruvá af margvíslegu tagi, að ónefndri vaxandi misskiptingu auðs með fylgifiskum hennar: óréttlæti og ófriði. Til að nýta tækifærin og takast á við áskoranirnar er þörf fyrir fólk sem hefur verið þjálfað í skipulagðri þekkingarleit og í hugsun sem er í senn gagnrýnin og skapandi.

Það er með öflugu menntakerfi sem þjóðfélög skapa mannauð af þessu tagi, frá leikskóla upp í háskóla. Leik- og grunnskólar búa börnum umhverfi þar sem þau öðlast grunnfærni og eiga að eflast af sjálfstrausti og vinnugleði. Framhaldsskólarnir byggja á þessu starfi, hlúa að almennri menntun ungmenna um leið og þeim er leiðbeint á fyrstu stigum sérhæfingar. Svo tekur æðri menntunin við ýmist sem starfs-, tækni- eða háskólanám þar sem fyrrnefnd þjálfun fer fram. Alls staðar í samfélaginu er mannauður mikilvægur en háskólar hafa sérstöðu því þar er hugað að tækifærum og áskorunum nútíðar og framtíðar með rannsóknum og nýsköpun. Í frumvarpi því til fjárlaga sem liggur fyrir þinginu eru framlög til háskólastigsins enn töluvert lægri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ljóst er að mannauður okkar Íslendinga muni rýrna nema stjórnvöld hætti að svelta háskólastigið.

Alþingi verður að taka fjárlagafrumvarpið til umfjöllunar en hefur nú óbundnar hendur í ljósi þess að stjórn Bjarna Benediktssonar er fallin. Rík ástæða er til þess að hvetja hið ágæta mannval sem situr á þingi til að taka höndum saman og hækka framlög til háskóla í fjárlögum næsta árs og efla með því móti mannauð okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Og það er hægt að breyta vatni í vín. Það gerðu þeir með góðum árangri í Fljótunum í gamla daga.

Jósef Smári Ásmundsson, 18.9.2017 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband