Leita í fréttum mbl.is

Af kikvendum og bernskubrekum fuglafræðings

Arnþór Garðarson hlaut heiðurverðlaun Líffræðifélags Íslands fyrir ómetanlegt framlag til rannsókna í líffræði, á líffræðiráðstefnunni sem haldin var í október síðastliðnum. Við sama tilefni fékk Óttar Rolfsson verðlaun fyrir fjörlegt start á líffræðilegum ferli.

Arnþór flutti stutt ávarp á ráðstefnunni um vísindaferil sinn, og annað lengra um fuglana. Í stutta ávarpinu fjallaði hann um stöðu líffræðí og vísinda í nútíma samfélagi, og mikilvægi þekkingar á náttúrunni fyrir verndun jafnt og nýtingu.

Hann kryddaði frásögnina með skondnum sögum, meðal annars sínum fyrstu skrefum sem vísindamanns.

Hann var þriggja ára og bjó í Skerjafirði þegar seinna stríð hófst. Síðan atvikaðist það þannig að skip strandaði við Skerjafjörðinn, og Arnþór fékk að fara niður í fjöru til að kíkja. Hann ætlaði að prófa tilgátu.

Skipið sem strandaði var nefnilega sykurskipið, og tilgáta Arnþórs var sú að sjórinn væri orðinn sætur. Í ljós koma að sjórinn var ennþá saltur, þannig að fyrsta tilgáta Arnþórs féll.

En hann var ekki að baki dottinn, enda kominn með bragð fyrir vísindum ef ekki söltum sjó. Nokkru síðar flutti hann út á nes. Þar voru breskir hermenn með aðsetur. Arnþór áttaði sig á því að þeir töluðu ekki sama mál og íslendingar. Kýr töluðu heldur ekki sama mál og íslendingar. Önnur tilgátan varð sú að bretar og kýr tala sama mál. Athuganir sýndu það var rangt. Féll sú tilgáta líka.

Arnþór hélt samt áfram á svipaðri braut, því vísindaleg hugsun hans fann sér farveg í áhuga á fuglum. Hann birti sína fyrstu grein í Náttúrufræðingnum 17 ára gamall. Hún var um fugla á Seltjarnarnesi, rituð í félagi við Agnar Ingólfsson og myndskreytt af Arnþóri sjálfum (dæmi hér fyrir neðan).ArnThorAedarfugl1955

Fyrirlestrar Arnþórs eru passleg blanda af staðreyndum og glettni. Hann fjallar sposkur um kikvendi af ýmsum gerðum, háttum þeirra og sérviskum. En þegar fuglar eru annars vegar, er eins og kvikni á túrbódrifinu. Áhugi hans er heillandi og smitandi í senn.

Arnþór hefur einnig verið ötull baráttumaður fyrir verndun vistkerfa og náttúru hérlendis. Hann var til dæmis forvígismaður að friðun Þjórsárvera, og hefur verið leiðarljós fyrir íslenska náttúruvernd um áratugabil.

Fjallað var um störf Arnþórs á vef HÍ í tilefni af verðlaunaafhendingunni.

Arnþór Garðarsson, dýrafræðingur og prófessor emeritus í dýrafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ,  hlaut verðlaun fyrir farsælan feril og ómetanlegt framlag til rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands og frumkvöðlastarf í verndun íslensks votlendis. Arnþór hóf sinn vísindaferil  snemma en hann birti sína fyrstu grein um fugla í Náttúrufræðingnum árið 1955, þá 17 ára gamall.

Hann lauk BS-prófi í dýrafræði frá Háskólanum í Bristol á Englandi og doktorsgráðu frá Háskólanum í Berkeley í Kaliforníu 1971.  Arnþór hóf kennslu við gömlu líffræðiskor Háskóla Íslands 1969, ári eftir að byrjað var að bjóða upp á námið, og varð prófessor árið 1974. Kennslugreinar hans voru dýrafræði hryggdýra og hryggleysingja og svo sérsvið hans, fuglafræði. Meðal afreka Arnþórs á vísindasviðinu eru rannsóknir á vistfræði Þjórsárvera sem hófust fyrir nærri 50 árum. Þetta voru fyrstu umhverfisrannsóknir sem unnar voru vegna hugsanlegra stórframkvæmda hér á landi. Friðlýsing Þjórsárvera og skráning þeirra á Ramsar-sáttmálann um verndun votlendis með alþjóðlegt mikilvægi er fyrst og fremst Arnþóri að þakka. 

 

Ítarefni:

Heiðursverðlaun líffræðifélagsins 2017.

Agnar Ingólfsson og Arnþór Garðarsson 1955 Fuglalíf á Seltjarnarnesi Náttúrufræðingurinn 25. árgangur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband