23.11.2017 | 15:13
Innrás og útrás gæsanna
Milli borgarsvæða Írlands og heimskautasvæða Norður Kanada: Rannsóknir á lífi margæsa
Freydís Vigfúsdóttir flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Erindið verður flutt mánudaginn 27. nóvember kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Ágrip af erindi:
Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsóknir á margæsum en margæsir sem eru fargestir á Íslandi og vetra sig á Írlandi, verpa á Heimskautasvæðum Norður Kanada og eru varpsvæði þeirra ein þau norðlægustu sem þekkjast meðal fuglategunda. Ísland gegnir mikilvægu hlutverki sem viðkomustaður en gæsirnar þurfa að safna nægum forða hérlendis bæði til eggjamyndunar sem og til að knýja hið 3000 km langa farflug, þvert yfir Grænlandsjökul, á varpstöðvarnar á 80´N á Ellesmere-eyju og svæðunum í kring. Talningar benda til þess að þessi tiltekni stofn (aðeins rúmlega 30.000 fuglar) hafi allur viðdvöl hér á landi og um fjórðungur þess fari um Suð-Vestur horn Íslands.
Markmið verkefnisins er m.a. að kanna streitu í villtum dýrastofnum og takmarkandi þætti á farleið, en hér er þekktum einstaklingsmerktum fuglum fylgt á eftir alla farleiðina. Sagt verður frá aðferðum mælinga og niðurstöðum rannsóknanna sem mest hafa farið fram í Dublin á Írlandi og á Álftanesi á Íslandi. Einnig verður sagt frá leiðangri rannsóknarhópsins á heimskautasvæðin árið 2014 þar sem mælingar á varpstöð fóru fram og myndir af gróður- og dýralífi þessa einstaka og fáfarna svæðis verða sýndar.
Freydís Vigfúsdóttir er sérfræðingur við Háskóla Íslands. Freydís lauk BSc og MSc prófi í líffræði við Háskóla Íslands og PhD prófi frá University of East Anglia í Englandi. Freydís stundar rannsóknir í vistfræði sem lúta að álagi, atferli og hormónabúskap hánorrænna farfugla og sjávarlíffræði sem leitast við að skilja eðli og ástæður breytinga á fæðukeðjum hafsins.
Sjá nánar á vef HÍN http://www.hin.is/
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.