Leita í fréttum mbl.is

Elena Ceausescu og vísindamenn sem moka á færibandið

Hvað getur hver vísindamaður rannsakað mikið og birt margar greinar?

Vísindagreinar eru mikil verk, yfirleitt nokkur þúsund orð skrifað á hátæknilegu tungumáli, sem svipar til limra eða símskeyta. Með myndum, gröfum, töflum og líkönum. Hver vísindagrein er mjög mikil vinna. En hversu margar slíkar getur einn vísindamaður ritað, t.d. á ári? Eftir fagsviðum, þá eru sumir ánægðir með að ná einni grein á ári, en aðrir e.t.v. fimm. Mikið er að ná fleiri en 10 greinum á ári, sem væri næstum því að skrifa eina grein á mánuði (með fríum auðvitað).

Elena Ceausescu er þekktust sem eiginkona Nicolai Ceausescu einræðisherra í Rúmeníu fram til ársins 1989. Eftir 24 ára harðstjórn var hann hrakinn frá völdum og þau hjónin tekin af lífi.

Elena var kosin í konunglega enska efnafræðifélagið árið 1978, vegna þess að eftir hana lágu ógrynni rannsókna í efnafræðitímaritum. Hún birti greinar um hin ólíkustu fagsvið efnafræði, mjög regulega og í virtum tímaritum einnig. Það var bara einn hængur á, hún hvorki skildi né gat nokkurn skapaðan hlut í efnafræði. En vegna þess að eiginmaður hennar var einræðisherra, og öryggislögreglan öflug, þá var henni boðið að vera meðhöfundur á nær öllum greinum sem Rúmenskir efnafræðingar birtu um margra ára skeið. Ef efnafræðingarnir færðust undan því að bjóða Elenu að vera meðhöfundur, þá hættu þeir fljótlega efnafræði. Hún öðlaðist meira að segja doktorsgráðu í efnafræði frá Rúmenskum háskóla. Viljugir efnafræðingar skrifuðu ritgerð fyrir hana, en því miður voru regularnar og lögin þannig að doktorar þurftu að verja ritgerðir sínar á opinberum vettvangi. Blessunarlega var hægt að breyta lögunum, þannig að hún fékk doktorsgráðuna sem hún þráði.

En hveru algengt er það að einhver vísindamenn riti meira en 12 greinar á ári, eða kannski 72 greinar á ári?

Það hljómar eins og ómögulegt. En John Ioannidis, Richard Klavans og Kevin W. Boyack drógu þessa aðilla fram í kastljósið í nýlegri grein.

Í ljós komu 7,888 aðillar sem birta 72 eða fleiri greinar á ári. Sem er ein grein á 5 daga fresti. Ekki kemur á óvart að margir þessara aðilla eru eðlisfræðingar, sem taka þátt í stórum alþjóðlegum verkefnum (með 1000 einstaklingum), þar sem hver grein getur verið með 1000 eða 2000 höfunda. Hver og einn hjálpaði til, en það voru bara nokkrir sem skrifuðu greinina. Það er reyndar spurning, hvernig getur maður sett nafn sitt á grein, ef maður fær ekki tækifæri til að skrifa hana eða gera athugasemdir við efnistökin?

Stór hópi höfunda var frá Kóreu og Kína. Hluti þess má etv útskýra með því að margir frá þessum löndum deila eins nöfnum, og því möguleiki að einhverjir "einstaklingar" séu samsafn greina frá nokkrum aðillum. En, John og félagar benda á að gögnin frá því eftir 2016 (þegar skráning vísindamanna batnaði með Orcid kerfinu t.d.) sýna ennþá mikla skekkju fyrir kínverska vísindamenn. Þar er grunur um spillingu á borð við það sem Elena Ceausecscu er einkennandi fyrir. Þar sem yfirmaður verður sjálfkrafa höfundur á öllum sem kemur frá rannsóknarstofunni, háskólanum eða fylkinu.

Þeir skoðuðu nánar hóp um 265 vísindamanna sem birtu fleiri en 72 greinar á ári. Um helmingur þeirra starfar í lækni- og líffræði. Margir tilheyra stórum hópum, eru með langtíma skimanir eða stýra stórum gagnagrunnum sem notaðir eru í margskonar stúdíur. Aðrir virðast verða mjög iðnir, við það eitt að verða yfirmenn á stórum einingum. Sem svipar til Ceausescu stílsins. Einnig er heilmikið um að menn birti margar greinar í sama tímaritinu, og það hljómar eins og fjöldaframleiðsla. Hætt er við að þær rannsóknir séu ekkert sérstaklega innihaldsríkar, ef nær samskonar greinar um minni háttar tilbrigði er dælt út án mikils vísindalegs nýmælis.

Forvitnilegast hlutinn er síðan þegar þeir hafa samband við þessa vísindamenn með ritræpu spyrja hvernig þeir fari að þessu (lesið um það í greininni, sjá tengil neðst), og hvernig þeir skilgreina framlag höfunda.

Algengastu viðmið um framlag höfunda voru skilgreind fyrir læknavísindi árið 1988, og eru kennd við Vancover. Lykilatriðin fjögur, sem eiga öll að vera uppfyllt til að viðkomandi geti talist höfundur, eru:

1. Viðkomandi verður að hafa tekið þátt í að skipuleggja, framkvæma rannsóknina eða vinna úr niðurstöðum.

2. Hjálpa til við að skrifa eða leiðrétta greinina.

3. Samþykkja lokaútgáfu af handritinum.

4. Taka ábyrgð á efni greinarinnar.

Í ljós kom að fæstir þeirra 81 (af 265) uppfylltu þessi skilyrði. Sumir jafnvel ekki eitt skilyrði, fyrir stóran hluta þeirra greina sem þeir voru samt höfundar ár. Útúrsnúningar þeirra voru margir og vandræðalegir, en ljóst er að margir vísindamenn setja nöfn sín á greinar sem lýsa rannsóknum sem þeir lögðu nær ekkert í, og þar með greinar þeir hafa varla lesið.

Gögn Ioannidis og félagar sýna hvernig þessum ofvirku vísindamönnum hefur fjölgað síðustu tvo áratugi. Þessir, ofurvirku eða ritræpu visíndamönnum fjölgaði stöðugt til 2014. Þeir ræða ekki orsakirnar, en mig grunar að hin ofursnjöllu hvatakerfi eigi þar hlut að máli. Það eru kerfi, eins og hið alræmda punktakerfi HÍ, sem borga kennurum og vísindamönnum beinharða peninga fyrir að birta vísindagreinar. Sem kemur ofan á grunnlaun þeirra. Löngu áður en bankamenn á íslandi fóru að borga sér bónusa, höfðu prófessorar, ríkið og Háskóli Íslands þróað bónuskerfi fyrir vísindamenn.

Ítarefni:

John P. A. Ioannidis, Richard Klavans og Kevin W. Boyack. Comment: Thousands of scientists publish a paper every five days Nature 12. sept 2018. 

Roger Hanson - Elena Ceausescu - Romanian dictator's  wife and fake scientist, 13. júlí 2017, Stuff.

Arnar Pálsson - Framleiðsla og framreiðsla vísinda

The San Francisco Declaration on Research Assessment (DORA)

Arnar Pálsson | 4. mars 2013  Ný opin tímarit á sviði líffræði

Ályktun Félags prófessora um punktakerfi HÍ - 2011.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein og íhugunarefni fyrir "akademíuna".

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 14.9.2018 kl. 13:59

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk kærlega fyrir Sigurður

Arnar Pálsson, 18.9.2018 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband