14.12.2018 | 20:35
Íslenskir stjórnmálamenn skilja ekki mikilvægi vísinda
Fyrir rúmri viku stóð fyrir dyrum þriðja umræða fjárlaga ríkisins. Í þeirri útgáfu fjárlagafrumvarpsins var gert ráð fyrir 146.6 milljón króna niðurskurði á framlagi til Rannsóknasjóði Vísinda og tækniráðs. Af því tilefni var efnt til undirskriftarlista og mótmæla. Við og nokkrir félagar í vísindasamfélaginu rituðu opið bréf sem sent var á þorra þingheims. Ákall til þingmanna: Kröftug fjárfesting í vísindarannsóknum er forsenda framþróunar.
Hluti bréfsins birtist hér að neðan.
Sú fregn hefur borist að til standi að lækka framlag í Rannsóknasjóð um 146.6 milljónir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2017-2019 segir Leiðarljós í stefnu Vísinda- og tækniráðs er að fjárfesting í rannsóknum og þróun nái 3% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024. Til þess þarf fjörutíu prósent aukningu miðað við árið 2017, eða tæpa fjóra milljarða króna á ári. Framlag ríkisins til samkeppnissjóða ætti þessu samkvæmt að margfaldast. Því er með öllu óskiljanlegt að nú sé lagt til að minnka framlag til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs, sem er hornsteinn grunnrannsókna á Íslandi.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 segir við lið 7.1: Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2019 er áætluð 8.350,2 m.kr. og hækkar um 650,2 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreyting um en þær nema 51,2 m.kr. Helsta breyting á fjárheimildum málaflokksins er hækkun á framlagi til rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun, um 807 m.kr. milli ára. Við fögnum aukinni fjárfestingu í sameiginlegum áætlunum ESB, sem íslenskir vísindamenn sækja einnig í en aukningin undir þessum lið skýrist líklega af samningsbundnu framlagi beintengdu vergri þjóðarframleiðslu. Við höfum hins vegar verulegar áhyggjur af almennum mótvægisaðgerðum til að draga úr útgjaldavexti upp á 181,6 millj. kr. Spurst hefur út að niðurskurðurinn muni allur bitna á Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs, sem styrkir grunnrannsóknir á öllum fræðasviðum allt frá sjúkdómum, eldgosum og annarri náttúruvá, Íslandssögu að gervigreind og máltækni. Við teljum rangt að almenn aðhaldskrafa bitni eingöngu á innlendum grunnrannsóknum. Sérstaklega í ljósi þess að aukning í sameiginlegar áætlanir ESB spanna mun fleiri flokka en grunnrannsóknir. Rannsóknasjóður styrkir innlendar grunnrannsóknir, bæða á viðfangsefnum með alþjóðlega og íslenska skírskotun.
Reyndar var þessi niðurskurður á Rannsóknasjóði tekinn til baka, samkvæmt yfirlýsingu formanns fjármálanefndar við upphaf þriðju umræðu fjárlaga. Þetta var gert með aukningu á fjárlögum til Rannsóknasjóðs og með tilfærslum innan liða í fjárlaga frumvarpinu (sem þýðir að peningar voru teknir af öðrum liðum einnig mikilvægum í staðinn!)
Veruleiki íslenskra vísinda er að á hverju ári þarf að minna stjórnvöld á mikilvægi vísinda. Og að framlög til háskóla eru ekki nægileg til að styrkja rannsóknir. Óháðir sjóðir eru nauðsynlegir. Í bréfinu til þingmanna stóð.
Framlag til háskóla eflir ekki grunnrannsóknir á sama hátt og samkeppnissjóðir Rannsóknaumhverfið á Íslandi er þess eðlis að styrkir úr Rannsóknasjóði er eina haldreipi flestra vísindamanna til að stunda rannsóknir. Því var haldið fram að lækkun til sjóða Vísinda- og tækniráðs væri réttlætanleg vegna fyrirhugaðrar 4% aukningar (skv. krónutölu) á fjárframlögum til háskóla landsins. Þetta er mikill misskilningur.
Í fyrsta lagi stendur 4% hækkun einungis undir launaskriði starfsfólks háskólanna.*
Í öðru lagi er launakostnaður um 80% af kostnaði háskólanna, og lítið fé aukreitis fyrir rannsóknarsjóði þeirra. Til dæmis borgar meðalstyrkur frá Rannsóknasjóði HÍ laun grunnnema í 3 mánuði. Á meðan dugir styrkur úr Rannsóknasjóði Vísinda- og Tækniráðs t.a.m. fyrir launum tveggja doktorsnema í þrjú ár.
Í þriðja lagi, leggja háskólar lítið annað meðlag með rannsóknum og því er ekki hægt að rökstyðja lækkuð framlög í samkeppnissjóði með því að framlög til háskólanna hafi hækkað.
Í fjórða lagi, hefur hluta af auknu fé til háskólanna verið beint í stoðþjónustu, eins og t.d. Einkaleyfastofu, en ef styrkir til grunnrannsókna eru skornir skapast færri nýjungar til að sækja um einkaleyfi á.
* Reyndar kom í ljós á máli Rektors HÍ á fundi í vikunni að 4% hækkun á framlagi til HÍ dugar ekki fyrir launaskriði. Það þyrfti 6% hækkun bara til að standa undir launaskuldbindingum sem ríkið skrifaði undir í kjarasamningum við háskólakennara og prófessora. Háskólar eru settir í þá ómögulegu stöðu að útgjöldin aukast hraðar en tekjurnar, og því fækkar nýráðningum. Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir deildir sem þarfnast endurnýjunar, sem er ein ástæðan þess að námsbraut í líffræði hefur ekki fengið að ráða nýja kennara í stað þeirra 6 sem eru að hafa hætt eða munu láta af störfum á næstu árum.
Spegillin fjallaði um ástand íslensks vísindasamfélags í vikunni.
Atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi
Lagt var til, við umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi, að draga úr fjárveitingum til rannsóknarsjóðs Vísinda- og tækniráðs um tæpar 147 milljónir sem eru um 17%. Vísindamenn brugðust hart við og hófu undirskriftasöfnun og skrifuðu tæplega 1000 vísindamenn undir áskorun til alþingismanna. Við upphaf þriðju umræðu á Alþingi var svo hætt við niðurskurðinn.
Það vakti athygli að í áskoruninni var meðal annars bent á það að þegar væri mikill atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi. Spegillinn hélt því á fund við Ernu til að ræða við hana um stöðu vísindarannsókna á Íslandi og atgervisflóttann.
Undirfjármögnun háskólanna og undirfjármögnun rannsóknasjóðanna eru ólíkar birtingarmyndir sama vandamáls. Íslenskir stjórnmálamenn skilja ekki mikilvægi vísinda. Eða allavega ekki nægilega margir þeirra til að umbætur nái í gegn.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:44 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.