Leita í fréttum mbl.is

Íslenskir stjórnmálamenn skilja ekki mikilvægi vísinda

Fyrir rúmri viku stóð fyrir dyrum þriðja umræða fjárlaga ríkisins. Í þeirri útgáfu fjárlagafrumvarpsins var gert ráð fyrir 146.6 milljón króna niðurskurði á framlagi til Rannsóknasjóði Vísinda og tækniráðs. Af því tilefni var efnt til undirskriftarlista og mótmæla. Við og nokkrir félagar í vísindasamfélaginu rituðu opið bréf sem sent var á þorra þingheims. Ákall til þingmanna: Kröftug fjárfesting í vísindarannsóknum er forsenda framþróunar.

Hluti bréfsins birtist hér að neðan.

Sú fregn hefur borist að til standi að lækka framlag í Rannsóknasjóð um 146.6 milljónir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2017-2019 segir „Leiðarljós í stefnu Vísinda- og tækniráðs er að fjárfesting í rannsóknum og þróun nái 3% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024.“ Til þess þarf fjörutíu prósent aukningu miðað við árið 2017, eða tæpa fjóra milljarða króna á ári. Framlag ríkisins til samkeppnissjóða ætti þessu samkvæmt að margfaldast. Því er með öllu óskiljanlegt að nú sé lagt til að minnka framlag til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs, sem er hornsteinn grunnrannsókna á Íslandi.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 segir við lið 7.1: „Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2019 er áætluð 8.350,2 m.kr. og hækkar um 650,2 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreyting um en þær nema 51,2 m.kr. “ Helsta breyting á fjárheimildum málaflokksins er hækkun á framlagi til rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun, um 807 m.kr. milli ára. Við fögnum aukinni fjárfestingu í sameiginlegum áætlunum ESB, sem íslenskir vísindamenn sækja einnig í en aukningin undir þessum lið skýrist líklega af samningsbundnu framlagi beintengdu vergri þjóðarframleiðslu. Við höfum hins vegar verulegar áhyggjur af almennum mótvægisaðgerðum til að draga úr útgjaldavexti upp á 181,6 millj. kr. Spurst hefur út að niðurskurðurinn muni allur bitna á Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs, sem styrkir grunnrannsóknir á öllum fræðasviðum allt frá sjúkdómum, eldgosum og annarri náttúruvá, Íslandssögu að gervigreind og máltækni. Við teljum rangt að almenn aðhaldskrafa bitni eingöngu á innlendum grunnrannsóknum. Sérstaklega í ljósi þess að aukning í sameiginlegar áætlanir ESB spanna mun fleiri flokka en grunnrannsóknir. Rannsóknasjóður styrkir innlendar grunnrannsóknir, bæða á viðfangsefnum með alþjóðlega og íslenska skírskotun.

Reyndar var þessi niðurskurður á Rannsóknasjóði tekinn til baka, samkvæmt yfirlýsingu formanns fjármálanefndar við upphaf þriðju umræðu fjárlaga. Þetta var gert með aukningu á fjárlögum til Rannsóknasjóðs og með tilfærslum innan liða í fjárlaga frumvarpinu (sem þýðir að peningar voru teknir af öðrum liðum einnig mikilvægum í staðinn!)

Veruleiki íslenskra vísinda er að á hverju ári þarf að minna stjórnvöld á mikilvægi vísinda. Og að framlög til háskóla eru ekki nægileg til að styrkja rannsóknir. Óháðir sjóðir eru nauðsynlegir. Í bréfinu til þingmanna stóð.

Framlag til háskóla eflir ekki grunnrannsóknir á sama hátt og samkeppnissjóðir Rannsóknaumhverfið á Íslandi er þess eðlis að styrkir úr Rannsóknasjóði er eina haldreipi flestra vísindamanna til að stunda rannsóknir. Því var haldið fram að lækkun til sjóða Vísinda- og tækniráðs væri réttlætanleg vegna fyrirhugaðrar 4% aukningar (skv. krónutölu) á fjárframlögum til háskóla landsins. Þetta er mikill misskilningur.

Í fyrsta lagi stendur 4% hækkun einungis undir launaskriði starfsfólks háskólanna.*

Í öðru lagi er launakostnaður um 80% af kostnaði háskólanna, og lítið fé aukreitis fyrir rannsóknarsjóði þeirra. Til dæmis borgar meðalstyrkur frá Rannsóknasjóði HÍ laun grunnnema í 3 mánuði. Á meðan dugir styrkur úr Rannsóknasjóði Vísinda- og Tækniráðs t.a.m. fyrir launum tveggja doktorsnema í þrjú ár.

Í þriðja lagi, leggja háskólar lítið annað meðlag með rannsóknum og því er ekki hægt að rökstyðja lækkuð framlög í samkeppnissjóði með því að framlög til háskólanna hafi hækkað.

Í fjórða lagi, hefur hluta af auknu fé til háskólanna verið beint í stoðþjónustu, eins og t.d. Einkaleyfastofu, en ef styrkir til grunnrannsókna eru skornir skapast færri nýjungar til að sækja um einkaleyfi á.

* Reyndar kom í ljós á máli Rektors HÍ á fundi í vikunni að 4% hækkun á framlagi til HÍ dugar ekki fyrir launaskriði. Það þyrfti 6% hækkun bara til að standa undir launaskuldbindingum sem ríkið skrifaði undir í kjarasamningum við háskólakennara og prófessora. Háskólar eru settir í þá ómögulegu stöðu að útgjöldin aukast hraðar en tekjurnar, og því fækkar nýráðningum. Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir deildir sem þarfnast endurnýjunar, sem er ein ástæðan þess að námsbraut í líffræði hefur ekki fengið að ráða nýja kennara í stað þeirra 6 sem eru að hafa hætt eða munu láta af störfum á næstu árum.

Spegillin fjallaði um ástand íslensks vísindasamfélags í vikunni.

Íslenskt vísindasamfélag er verulega vanfjármagnað og þeim vísindamönnum sem fá rannsóknarstyrki hefur hlutfallslega fækkað. Tvöfalda þyrfti ef ekki margfalda sjóðina, segir Erna Magnúsdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands og forseti Vísindafélags Íslendinga. Styrkirnir eru svo lágir að íslenskir vísindamenn erlendis flytja ekki heim eftir nám.
 

Atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi

Lagt var til, við umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi, að draga úr fjárveitingum til rannsóknarsjóðs Vísinda- og tækniráðs um tæpar 147 milljónir sem eru um 17%. Vísindamenn brugðust hart við og hófu undirskriftasöfnun og skrifuðu tæplega 1000 vísindamenn undir áskorun til alþingismanna. Við upphaf þriðju umræðu á Alþingi var svo hætt við niðurskurðinn. 
Það vakti athygli að í áskoruninni var meðal annars bent á það að þegar væri mikill atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi. Spegillinn hélt því á fund við Ernu til að ræða við hana um stöðu vísindarannsókna á Íslandi og atgervisflóttann.

Undirfjármögnun háskólanna og undirfjármögnun rannsóknasjóðanna eru ólíkar birtingarmyndir sama vandamáls. Íslenskir stjórnmálamenn skilja ekki mikilvægi vísinda. Eða allavega ekki nægilega margir þeirra til að umbætur nái í gegn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband