Leita í fréttum mbl.is

Að tigna forheimskuna

Mannskepnan er gædd þeim dásamlega eiginlega að geta hlegið, skemmt sér og sínum, og notið augnabliksins með flissi og fíflalátum. Hún býr einnig yfir þeim hæfileika að geta skipulagt líf sitt, t.d. fyrirhugaða veiðileiðangra eða flutninga vegna yfirvofandi vetrarkulda. Það er augljóst að greind og skipulagshæfileikar hafa gert mannkyninu kleift að lifa við harðar umhverfisaðstæður og yfirstíga margar þrautir. Nú til dags, höfum við nýtt gáfur okkar og þekkingu til að búa mannkyninu (eða allavega hluta þess) mjög notalegt líf, þar sem fæða er næg, skjól gott og æxlunarmöguleikar þó nokkrir. Við slíkar kringumstæður er augljóst að dægurmál, spaug og annað geta fengið meira rými. Nú er spurt hvort að dægurmálin, hin léttu og laufléttu, séu að yfirgnæfa þá þætti sem skópu velmegun okkar?

Rétt er að árétta áður en lengra verður haldið að vissulega hafa samfélagslegir eiginleikar manna hagnýtt gildi þar sem maðurinn er félagsvera. Leikir og gamanmál styrkja tengsl innan hópsins/þorpsins og geta þar með aukið samheldni og samstöðu. 

Nútildags er leikur og gaman orðið að ástríðu mjög margra, og þá oft á kostnað þekkingar og reynslu. Þetta lýsir sér sem andstaða við fræði og fræðimenn, "anti-intellectualism" er enska heitið sem mætti e.t.v. þýða sem andvitsmunalegt (tillögur óskast). Ein skilgreining á orðinu er að, of mikil þekking getur verið hættuleg (“too much learning can be a dangerous thing”).

Þetta er alls ekki sér íslenskt fyrirbæri, og hefur oft skotið upp kollinum í mannskynsögunni (t.d. barðist Kaþólska kirkjan gegn vísindum á fyrri öldum, eins og Stalínistarnir í Sovétríkjunum og George W. Bush á sínu kjörtímabili). Susan Jacoby hefur ritað bók um þessi efni, i lauslegri þýðingu, öld Amerísku rökleysunnar (“The Age of American Unreason”).

Eins og rakið er í nýlegri grein í New York Times, þá er andvitsmunaleg viðhorf mjög algeng í vestrænum samfélögum (það er reyndar huggun harmi gegn að þessi grein var mest lesna greinin eina nýliðna helgi, en ekki einhver "frétt" um Porche sem vafðist um tré). Það sem Jacoby bendir á í bók sinni er önnur, ef ekki hættulegri skoðun sé í uppsveiflu. Þetta er rökleysuhyggja (mín þýðing á orðinu "anti-rationalism"), sem staðhæfir að það sé ekki til neinn sannleikur eða staðreyndir, bara skoðanir (á ensku “the idea that there is no such things as evidence or fact, just opinion”).

Við vitum að veröldin er stappfull af lögmálum og staðreyndum, jörðin snýst um sólina, HIV veiran ræðst á ónæmiskerfi mannsins, bólusetningar verja okkur gegn sýkingum, sem vísindin hafa afhjúpað og auðveldað okkur að skilja. Á sama hátt hafa vísindin afsannað margar tilgátur og hugmyndir, eins og að veira valdi Riðu (sýkjandi efnið er prótín - príon), að bóluefni valdi einhverfu, að heit glös dugi eða smáskammta"meðferð" dugi til að lækna sjúkdóma. Vissulega eru til fyrirbæri innan mannlegrar tilvistar, t.d. fatnaður og tónlist, sem ekki er  hægt að leggja hlutlægt mat á  (og þess vegna má rífast um það út í hið óendanlega). En við verðum að gera greinarmun þar á og varast það að fara út í rökleysu í umræðu okkar um mikilvæg atriði er varða heilsufar, umhverfi og samfélag okkar.

Jacoby leggur áherslu á að rökleysishyggja og andvítsmunahyggja sé nú að blandast í Bandaríkjunum, sem boði ekki gott upp á greind og gáfur komandi kynslóða. Auðvitað er þetta vandamál til staðar hérlendis, þar sem sumir halda að fjöldi orða og greina bæti á upp skort á röksemdum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband