Leita í fréttum mbl.is

Fljúgandi píanó veiran

Fólk virðist nú ekki vera jafn hrætt við H1N1 útgáfuna af inflúensu A veirunni. Í síðasta mánuði lá við múgæsingu, en síðan hefur komið í ljós að veiran er ekki jafn bráðdrepandi og inflúensan kennd við 1918.

Það þýðir samt ekki að H1N1 sé meinlaus. Það er alltaf erfitt að meta sýkimátt og alvarleika sýkinga hjá nýuppgötvuðum veirum vegna þess að takmörkuð gögn eru fyrir hendi. WHO hefur brugðist við faraldrinum af mikilli festu og nú í vikunni kom út fyrsta vísindagreinin sem gerir grein fyrir faraldsfræði veirunnar. Dánartíðnin er metin upp á 0.4%, sem þýðir að af hverjum 1000 sýktum deyja að meðaltali fjórir (skekkja frá 3 upp í 15).

Það kann að virka lítið en er áþekkt faraldrinum 1957, sem áætlað er að hafi banað 2 milljónum manna.

Það að H1N1 hafi ekki orðið sú mannskaðasótt sem óttast var, þýðir ekki að hættan hafi ekki verið raunveruleg. Svo við endurnýtum ágæta samlíkingu.

Ef þú ert óskaddaður eftir að píanó lendir við hliðina á þér á gangstétt eftir fall af 10 hæð, þýðir það ekki að fljúgandi píanó séu meinlaus, bara að þú hafir sloppið vel.

Vonandi berum við gæfu til verjast H1N1 og öðrum áþekkum vágestum af yfirvegun og þekkingu. Það hljómar gamaldags og hallærislegt, en menntun og lærdómur er lykillinn að framtíðinni. Það á ekki að þurfa Sputnik eða farsóttir til að sannfæra fólk um gildi menntunar.

Ítarefni 

Grein Fraser og félaga í Science, Pandemic Potential of a Strain of Influenza A (H1N1) : Early Findings. Maí 2009.

Samantekt Joe Cohen Early lessons from Mexico´s swine flu outbreak Science Maí 2009.

Upplýsingasíða landlæknisembættisins um H1N1.


mbl.is Engin tilfelli flensu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

menntun segirðu... að mestu leyti stéttskiptingartæki, leið fyrir elítuna að sannfæra sjálfa sig og undirmálsskítafólkið að hún eigi rétt á mestu lífsgæðunum. Staðreyndin er hinsvegar sú að það skiptir engu máli hvort ég og þú og hundrað milljón eða milljarðar fólks jafnvel drepumst í þessari flensu eða þeirri næstu... allt sama mannlega drulluómerkingsmykjan, hvað sem líður innrömmuðum skjalapappír á veggjum hennar.

viðhlæjandi (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 09:17

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll viðhlæjandi

Menntun er ekki gallalaus, en ímyndaðu þér hvar við værum ef enginn Copernicus, Harvey, Boveri, Edison og Pasteur hefðu komið til sögunnar?

Þú gefur til kynna að um leið og fólk menntast verði það snobbarar, en ég er nokkuð viss um að það þurfi ekki menntun til. Kveikjan að athugasemdum mínum er áberandi snobb fyrir heimsku og skeytingarleysi.

Einhverjir fá mikið út úr því að setja upp stúdentshúfu eða fá skjal frá læknaskólanum, en aðrir njóta þess að kúga nemendur sem fá háar einkunnir í 12 ára bekk. Of margir klárir krakkar láta heimskusnobbarana bæla sig!

Auðvitað skiptir það ekki miklu, í alheimslegu samhengi, hvort við föllum fyrir H1N1 eða úr hjartaáfalla hlæjandi. En hver fyrir sig verður að finna leið til að lifa lífinu, hvort sem það er með sæmd og virðingu fyrir öðrum, eða með hroka og hleypidómum (auðvitað eru fleiri kostir, en þú skilur hvað ég á við!).

Arnar Pálsson, 14.5.2009 kl. 10:19

3 identicon

Þú snertir á ýmsu í svari þínu. Ég er missammála jafnýmsu. Fyrst eitt vafasamt; að telja Edison til hóps fræðimanna eða menntamanna. Hann gekk aldrei í neinn háskóla heldur var sjálflærður og uppfinningamaður og bissnesskarl allra helst.

Hitt er svo annað mál hvar við værum ef þessara ágætu superbrights og þeirra jafningja hefði ekki notið við. Ég lít svo á að þekkingar- og iðnbylting þeirra sé ekki endilega breyting til hins betra. Ef við værum á steinaldarstigi eins og hinir stóru mannaparnir í fjölskyldunni, værum við þá óhamingjusamari yfir ævina? Þér finnst sjálfsagt að við "vitum betur" en svo, en er siðmenning okkar heilbrigðari eða réttlátari en þeirra?

Með fyrri orðum mínum átti ég ekki við að fólk gerðist snobbarar við að útskrifast úr háskóla. Ég á frekar við það að fyrir fólki með gráður er snobbað í okkar samfélagi, út fyrir öll velsæmismörk eins og sjá má í misskiptingu tekna. Ég gæti spurt aftur á móti hvað yrði um óskólagengna snillinga eins og Sókrates og daVinci? Myndu slíkir uppreisnarmenn virka innan rammans og fá stöður við hæfi?

Að því sögðu skil ég vel afstöðu þína til "meðalmennskubælingarinnar" á yngri stigum, pressan að skera sig ekki úr hópnum þrátt fyrir að standa eins og risi upp úr andlega kettlingaskaranum er sárgrætileg.

Svo komið sé að kjarna málsins hinsvegar, þá virðist mér þú standa fyrir það viðhorf að menntun sé manngildi og markmið í sjálfu sér, framþróun o.sv.frv. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að í nútímalegum skilningi gegna menntastofnanir afskaplega litlum öðrum tilgangi en efnahagslegum stöðutáknaleik auk vöruþróunar, þar sem nemendur leysa þrautir til að öðlast verðlaunin að lokum; gott djobb með góðum tekjumöguleikum, eins og sæljón sem stökkva upp í gegnum gjarðir til að fá fiskinn frá þeim sem ræður. Hvað varðar framþróun þekkingarinnar skiptist hún gróflega í tvennt; hagnýtar rannsóknir sem í sjálfu sér eru ekkert virðingarverðari heldur en hver annar stofnkostnaður við að reisa verksmiðju t.d. Hinsvegar eru það svonefndar grunnrannsóknir, hrein vísindi eða hvað sem má kalla það. Ég sé þær bara sem skrautfjaðrir styrkveitendanna og kostunaraðila, kaupin gerast þau sömu á eyrinni núna þegar Bandaríkjastjórn undirbýr sig til að senda upp James Webb sjónaukann og á 16. öld þegar Kristján IV byggði Stjörnuborg fyrir Tycho Brahe.

Lengra meginmál verður því miður að bíða, rafhlaða kjölturakkans er hlægilega hvikul og hverful. Áður en við eltum frekari ólar við þetta vandrataða umræðuefni vil ég vara þig við; ég er þunglyndur lúser með þrálátar sjálfsvígshugsanir, það er að sjálfsögðu útskýring þess af hverju mér væri persónulega sama þótt við dæjum öll á morgun. 

viðhlæjandi (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 18:49

4 identicon

leiðrétting: ég sé núna að ég rangfeðraði Stjörnuborg, það var Friðrik annar sem sponsaði hana fyrir Brahe, ekki Kristján kvart sem er sonur hans. Kristján byggði hinsvegar meðal annars aðra öllu þekktari stjörnuskoðunarstöð, Sívalaturninn skemmtilega í köben.

viðhlæjandi (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 19:04

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk kæri viðhlæjandi fyrir vandaða og skemmtilega hugvekju.

Í heildina höfum við verið að draga upp skarpar andstæður, en ég held að við séum í grunnin sammál um flest lykilatriðin.

Rétt hjá þér, Edison fékk ekki formlega menntun, en las samt lykiltexta fræðimanna síns samtíma. Það eitt og sér tryggði ekki að hann gerði góða hluti á sinni starfsævi, en aðgangur að grunntextum getur ekki hafa skaðað. 

Menntun er nefnilega engin töfralausn, og menntun getur ekki gert gull úr galli, en hún getur hvatað framþróun og nýsköpun. Það er opin spurning hversu miklu við eigum að fjárfesta í menntun og rannsóknum. Það á að vera spurning sem allir ættu að hafa skoðun á. Vísindamenn eru vissulega þrýstihópur. Þeir vilja efla sitt fag og stuðla að framförum í því. En við sem þjóð verðum að meta hvað við viljum eyða í þessa málaflokka. Það að útskrifa 2000 fræðinga einhverri einni fræðigrein á ári er ekki endilega æskilegt, sérstaklega ef við vanrækjum önnur svið eða tökum peninga úr löggæslu, hjúkrun eða tryggingakerfinu.

Vísindi eru stunduð af fólki, og fólk hefur sinn hégóma, egó, fordóma, ótta og ástríður. Þetta litar allt starf fólks, sama hvort það mjólkar kýr, grefur skurði, líknar sjúkum eða rannsakar lífheiminn. Það að fólk fái gleði úr því að birta grein í Nature eða kætist yfir styrk frá EU er ekki rök fyrir því að leggja niður vísindasjóð eða rannsóknarstofnanir. En við ættum vitanlega að gera okkur grein fyrir okkar fordómum, veikleikum og mögulegum hagsmunaárekstrum.

Mér finnst menntasnobb líka hræðilegt, en Ísland er samt betra en mörg önnur lönd. Mér finnst menntasnobb kannski bara vera annað form afrekadýrkunar. Kannski er þetta líka bara gleði fyrir árangri. Þegar ég tala við fjölskyldu mína virðast þau ekki hafa neinn sérstakan áhuga á rannsóknunum mínum, þau vilja bara vita að allt gangi vel (ég gæti allt eins verið að selja bíla eða klífa fjöll). Ef ég hefði klifrað Everest og K2 þá held ég að fjölskyldan hljóti að verða glöð fyrir mína hönd, kannski stolt og jafnvel virkað útá við eins og snobb. Þetta eru hugleiðingar minar um það efni, hálf brotakenndar þó.

Ég er reyndar ósammála einni athugasemd þinni.

Ég lít svo á að þekkingar- og iðnbylting þeirra sé ekki endilega breyting til hins betra. Ef við værum á steinaldarstigi eins og hinir stóru mannaparnir í fjölskyldunni, værum við þá óhamingjusamari yfir ævina?

Það er mjög erfitt að leggja mælistiku á hamingju, en ég held að við séum betur komin nú en fyrir iðnbyltinguna og upplýsinguna. Lífslíkur eru hærri, dánartíðni ungbarna lægri, næringarástand betra og kúgun almennt minni. Menntun felur ekki bara í sér að læra efnaformúlur eða um eiginleika gena,  hún felst líka í skilningi á réttindum, frelsi, gagnrýni og sjálfstæði. Vandamál dagsins í dag er samt það að of stór hluti mannkyns lifir enn lífinu eins og það var fyrir iðnbyltingu. 

Arnar Pálsson, 15.5.2009 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband