Leita í fréttum mbl.is

Bjargfuglum fækkar

Arnþór Garðarsson fjallaði um rannsóknir sínar á líffræðiráðstefnunni. Rúv gerði rannsóknum hans skil.

Mikil fækkun hefur orðið hjá sumum tegundum bjargfugla við Ísland. Ástand stofna eins og lunda og stuttnefju er miklu verra við suðurströndina en fyrir norðan.

Um fjórðungur allra sjófugla í Norðuratlantshafi er við Ísland. Viðgangur tegundanna er mjög misjafn.  Súlustofninn  hefur til dæmis vaxið stöðugt í eina og hálfa öld í Atlantshafi. Fýl fjölgaði jafnt og þétt frá því um 1700 þar til fjölgunin hætti snögglega um 1990, segir Arnþór Garðarsson, prófessor í Líffræði við Háskóla Íslands. Frétt Rúv 6. nóv. 2009.

Fréttin var byggð á viðtali við spegillinn, kynningin var á þessa leið:

Látrabjarg, Hornbjarg og Hælavíkurbjarg eru með stærstu fuglabjörgum í heimi. Um fjórðungur allra sjófugla í Norðuratlantshafi eru á Íslandi. Súlum fjölgar en stuttnefjum fækkar. Því er vandsvarað af hverju en til þess að geta svarað því verður að mæla og fylgjast með bjargfuglum við Ísland. En hvernig bera menn sig að við að kasta tölu á stofna sem skipta hundruðum þúsunda. Við ræðum við Arnþór Garðarsson, prófessor um sjófugl í Speglinum

Arnþór Garðarsson í viðtali við Spegilinn

Ágrip erindis Arnþórs (Íslenskir bjargfuglastofnar – ástand og horfur) og meðhöfunda Guðmundar A. Guðmundssonar við Náttúrufræðistofnun Íslands og Kristjáns Lilliendahl við Hafrannsóknastofnun.

Mjög margir sjófuglar gera út frá Íslandi en upplýsingar um flesta stofnana og afkomu þeirra eru af skornum skammti. Nýlega lauk könnun á öllum fuglabjörgum landsins en hún fór fram á árunum 2006-2008. Markmiðið var að endurtaka hliðstæða könnun sem gerð var 1983- 1986 og fá jafnframt nýtt heildarmat á bjargfuglastofnum sem nýttist sem grunnpunktur stórefldrar vöktunar. Hér er fjallað um fimm tegundir: fýl Fulmarus glacialis, ritu Rissa tridactyla, langvíu Uria aalge, stuttnefju U. lomvia og álku Alca torda.
Aðferðir til þess að telja í fuglabjörgum byggjast á myndatöku úr lofti og talningum af myndunum en fjöldinn í stærstu byggðunum er metinn með því að telja úrtak á sniðum. Þá verður að aðgreina svartfuglstegundirnar þrjár með athugunum á jörðu niðri. Aðferðir eru enn í þróun en einkum hefur reynst erfitt að áætla hlutfall svartfuglstegundanna í stórum björgum (Látrabjargi og Hornströndum). Enn fremur er óljóst hvort breyting á fjölda talinna fugla táknar raunverulega breytingu á fjölda lifenda eða breytingu á þátttöku í varpi eða dreifingu. Til að skera úr um þessi atriði þarf frekari rannsóknir.
Niðurstöðurnar, eins og þær liggja fyrir, sýna fækkun í öllum þeim stofnum sem skoðaðir voru á þessu 20-ára tímabili. Fækkunin er langmest, um 44%, hjá stuttnefju, um 30% hjá fýl og langvíu og 16-18% hjá álku og ritu. Fækkun stuttnefju virðist vera langtímabreyting sem hófst fyrir 1980 en fækkun fýls hefur hugsanlega byrjað kringum 1990. Breytingar á fjölda fylgjast ekki að milli landshluta (hafsvæða). Þannig hefur fjöldi fýls og langvíu staðið í stað um miðbik Norðurlands (Drangey og Grímsey). Ritu fækkaði stórlega á Norðausturlandi, stóð í stað á Hornströndum og fjölgaði mikið í Krýsuvíkurbergi og Vestmannaeyjum. Álka sýndi einnig mikinn breytileika eftir stöðum, fækkaði t.d. mjög á Hornströndum en fjölgaði í Grímsey. Í lok þessarar könnunar stöndum við uppi með allflókna mynd. Hver tegund svarar breytilegum lífskilyrðum á sinn hátt þannig að greina þarf lífskilyrðin bæði svæðisbundið á varptíma og að vetrinum.
Til að auka skilning á ólíkum viðbrögðum sjófuglategunda við breytingum á umhverfinu þarf umfangsmiklar og ítarlegar rannsóknir á fæðu, dreifingu og lýðfræði. Mun meiri upplausn í tíma er æskileg, en á varptíma næst hún með því að vakta fjölda varpfugla á völdum svæðum árlega. Undirbúningur að slíkri vöktun er á lokastigi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband