Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Erfðamengi hveitis raðgreint

Í nýjasta tölublaði Nature er greint frá frumraðgreiningu á erfðamengi hveitis (Triticum aestivum).

Hveiti er sérstakt að mörgu leyti. Brauðhveiti sem við þekkjum best er álitið 6 litna. Sem þýðir að 6 eintök eru af hverjum litningi.  Ástæðan er sú að hveiti varð til við samruna erfðamengja þriggja tegunda. Oftast er þetta táknað sem AA, BB og DD erfðamengi. Fyrir um 400.000 árum runnu saman tvær tegundir og til varð fjórlitna tegund með AABB erfðamengi (Triticum dicoccoides). Við upphaf landbúnaðarbyltingarinnar gaf hún og Aegilops tauschii (DD) af sér tegundina sem við bökum flest brauðin okkar úr.

Spyrja má hvort að 6 litna hveiti sé bein afleiðing landbúnaðar? Það er altént alþekkt að allmargar almennilegar nytjaplöntur eru fjöllitna, vegna mikils þrýstings ræktenda sem velja stærri og pattarlegri afurðir.

Hveiti er mjög genaríkt. Heildarstærð erfðamengisins er 17.000.000.000 basar, sem er 6 sinnum stærra en erfðamengi mannsins. Einnig er hveiti með mun fleiri gen en menn, um 90.000 á meðan maðurinn er með ~24.000. Hveiti er ekki eina lífveran sem trompar menn í genafjölda, maís er með um 30000 gen t.d.

Reyndar eru mörg gen í hveitinu mjög svipuð. Það er með 6 mismunandi útgáfur af flestum genum*. Raðgreiningin afhjúpaði reyndar forvitnileg frávik frá þessari reglu. Töluverður fjöldi gena hefur tapast, líklega vegna þess að lífveran þarf einungis virkt gen, ekki endilega sex eintök af virku geni. Með öðrum orðum, hreinsandi náttúrulegt val megnar ekki að viðhalda öllum eintökunum ef þau sinna öll hlutverki sínu á svipaðan hátt.

Samanburðurinn á AA, BB og DD erfðamengjunum  sýnir reyndar að sumar genafjölskyldur hafa stækkað í kjölfar "fæðingar" hveitisins. Það eru aðallega gen sem tengjast vörnum gegn sýkingum, sem sýna slíkt mynstur.

Einnig má spyrja hvaða genahópar breytast ekki, þ.e. öllum 6 eintökum er viðhaldið. Í þann flokk falla m.a. umritunarþættir sem eru stjórnprótín frumunnar. Þeir bindast í nágrenni gena og ákvarða hvort, hvenær og hversu mikið sé framleitt af til tekinni genaafurð.

Hagnýtingargildi erfðamengisins er einnig umtalsvert. 130.000 breytilegir staðir, eins basa breytingar, í erfðaefninu voru afhjúpaðir. Einhverjir þessara basa tengjast vexti, sjúkdómsþoli, næringargildi og öðrum mikilvægum eiginleikum. Með slíka þekkingu að vopni er hægt að rækta betra hveiti, sem gefur meira af sér og þolir þurrk, seltu eða pestir.

Ræktun hveitis hófst fyrir fleiri þúsund árum, og nú erum við komin með enn betri tækni til að hagnýta þessa mikilvægu nytjaplöntu.

Íitarefni:

Analysis of the bread wheat genome using whole-genome shotgun sequencing Open Rachel Brenchley o.fl. Nature 491, 705–710 (29 November 2012) doi:10.1038/nature11650

New Slice of Wheat Genome Could Help Feed Growing Global Population By Katherine Harmon  Scientific American Blogs. 28. nóv. 2012.

Wheat genome's key parts unlocked in new study By Mark Kinver BBC 28. nóv. 2012.

*3 erfðamengi, hvert um sig tvílitna - samtals 6 útgáfur.


Rafdráttur til gæðagreininga á kjarnsýrum

Hans G. Þormar doktorsnemi við læknadeild HÍ og forstjóri Lífeindar/Biocule mun fjalla um Rafdrátt til gæðagreininga á kjarnsýrum (Electrophoresis to assess quality of nucleic acid samples).

Erindið verður föstudaginn 30. nóvember 2012 frá 12:30 til 13:10, í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ.

Enskt ágrip erindisins:

Current methods in genetics use complex samples of nucleic acids e.g. genomic or transcriptomic samples. Such samples are put through a number of processes and purifications. The molecules in the samples are almost always of different length and strandness, e.g. single-stranded DNA (ssDNA), double-stranded DNA (dsDNA), single-stranded RNA (ssRNA), double-stranded RNA (dsRNA) or RNA•DNA hybrids. The nucleic acid molecules can be damaged by sample treatment. There has been no good way to characterize the composition of such samples, nor the effects of that for downstream processes. We have developed a Two-Dimensional techniques to analyse such complex samples based on differences in length, conformation and strandness.

Lífeind er sprotafyrirtæki sem spratt úr rannsóknarvinnu Jóns J. Jónssonar og nemenda hans við Læknadeild og Landspítala. Fjallað er um Lífeind á vef HÍ.

Fyrirtækið hefur það markmið að þróa og markaðssetja nýjar aðferðir til að einangra beint, úr flóknum erfðaefnissýnum, DNA-sameindir með óeðlilega byggingu. Aðferðirnar má m.a. nota til að einangra DNA-sameindir sem innihalda erfðabreytileika, stökkbreytingar og skemmdir.

Unnið er að markaðssetningu aðferða Lífeindar á alþjóðlegum vettvangi. Fyrirtækið hefur aðsetur innan Lífefna- og sameindalíffræðistofu í Læknagarði, sérhæfðu rannsóknar- og kennsluhúsnæði Læknadeildar Háskóla Íslands.

Erindið verður flutt á ensku. Dagskrá erinda líffræðistofu haustið 2012 má sjá á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.


Merking erfðabreyttra matvæla felld í Kaliforníu

Samhliða kosningum um forseta bandaríkjanna og fulltrúa fylkja í öldungadeild og fulltrúadeildina var kosið um margvísleg önnur málefni í fjölmörgum fylkjum.

Í Kaliforníu var kosið um hvort það ætti að vera  "skylda að merkja erfðabreyttar matvörur". John Weaton sem barðist fyrir því að málið færi í almenna atkvæðagreiðslu kallaði það "The California Right to Know Genetically Engineered Food Act."

Samkvæmt Ballotapedia var tillagan, númer 37, felld:

No5,990,28052.3%
Yes 5,456,051 47.7%

Razib Khan og lesandi hans tóku saman gögn úr kosningunum eftir sýslum í Kaliforníu. Þá kemur í ljós mjög sterkt jákvætt samband  milli fylgis Obama og stuðnings við tillöguna. Myndin er af síðu Razib - gene expression.cNfRw

Það sýnir svart á hvítu að vinstrimenn eru tortryggnari á erfðabreytingar.

Hins vegar eru amerískir hægrimenn tortryggnir á loftslagsvísindi.

Hvorir tveggja efast um tiltekin vísindi sem snerta það svið mannlífsins sem þeim er kært (frelsið til að keyra trukka og frelsið til að upplifa - þar með borða - náttúruna).

Traust vísindaleg gögn ganga gegn afstöðu beggja hópa. Loftslagsvísindamenn eru sammála um að maðurinn hafi breytt loftslagi með því að seyta út koltvíldi og öðrum lofttegundum. Á sama hátt álykta matvælafræðingar og heilbrigðisvísindamenn að erfðabreyttar plöntur og afurðir úr þeim séu jafngildar venjulegum nytjaplöntum og afurðum.

Færa má rök fyrir því að hin íslenska reglugerð um að skylt sé að merkja matvæli sem innihalda hráefni úr erfðabreyttum plöntum sé ósanngjörn. Hún lækkar allavega ekki verðið til almenns neytanda.

Gáfulegra væri að hafa kerfi hliðstætt því sem gyðingar hafa. Kosher merking er á fæðu sem uppfyllir trúarlega staðla, og stranghlýðnir gyðingar velja þá fæðu. Á sama hátt gætu strangtrúaðir hreinmatistar komið sér upp merkingum á því sem ekki er erfðabreytt, og borgað sjálfir fyrir kostnaðinn í stað þess að velta honum á neytendur annara matvæla.


Lífslíkur, litningaendar og heimildavinna

Hvað útskýrir lífslikur?

Svarið er, heilmargt.

Einn þáttur sem sýnir fylgni við lífslíkur er lengd litningaenda (e. telomere).

Litningaendar eru forvitnilegt fyrirbæri og þeir styttast þegar erfðaefnið er eftirmyndað við skiptingar fruma. Þetta er auðvitað vandamál því frumur lífvera eru alltaf að eftirmynda sig. Frumur líkamans skipta sér oft og mörgum sinnum, samanber endurnýjun húðarinnar. En ef litningaendarnir styttast of mikið geta mikilvæg gen skaddast eða hreinlega horfið.

Elisabeth Blackburn uppgötvaði telomerasa sem viðheldur litningaendum. Telomerasi er flóki RNA og prótíns og sem er nauðsynlegur til að viðhalda erfðamengi kynfruma, en það er sjaldan til staðar í venjulegum frumum líkamans. Skortur á virkni flókans er talin vera ein ástæða þess að frumur eldast og deyja. (umritað úr (Þýðingarþjónusta mbl.is).

Nýleg rannsókn bendir til þess að hægt sé að spá fyrir um aldur einstaklinga með blóðsýni og mælingu á lengd litningaendanna. Rannsóknin sem um ræðir (og kynnt er í mbl.is Hægt að meta lífslíkur með blóðprufu), var reyndar framkvæmd á spörfuglum en ekki mönnum. Það er í sjálfu sér ekkert stórvægilegt atriði, því líffræði fugla og spendýra er áþekk að mörgu leyti. Þróunarlegur skyldleiki lykilferla er iðullega hagnýttur í líffræðilegum rannsóknum, telómerasinn sjálfur var t.d. fyrst uppgötvaður í frumdýri.

Telomere length and dynamics predict mortality in a wild longitudinal study Emma L. B. Barrett, Terry A. Burke, Martijn Hammers, Jan Komdeur, David S. Richardson Molecular Ecology DOI: 10.1111/mec.12110

Einhvernveginn tekst fréttamanni mbl.is hvorki að miðla þeirri staðreynd að rannsóknin var ekki gerð í mönnum, né því hverskonar fyrirbæri eru um að ræða. Sagt er í fréttinni:

Prófunin mælir meðallengd eininga í líkamanum sem nefnast „telomeres“ en vitað er að þær styttast í hvert sinn sem fruma skiptir sér á líftíma lífveru. Lengd þessara eininga gerir vísindamönnum kleift að meta með nákvæmari hætti en áður raunverulegan líffræðilegan aldur en fyrri aðferðir.

Einhverjum kann að finnast þetta hártoganir hjá fræðimanni, að ekki skuli hafa verið nákvæmlega með farið. Málið er að litningaendar eru ekki bara áhugasvið fárra sérfræðinga. Nóbelsverðlaunin 2009 voru veitt fyrir rannsóknir á þeim (CCCCAA og Það hófst allt með...), og þeir eru mikilvægur þáttur í rannsóknum á öldrun og krabbameinum.

Það er ekki eins og Morgunblaðið eða mbl.is hafi ekki fjallað um þetta efni áður. Einföld heimildaleit á mbl.is eða google (með mbl.is morgunblaðið og telomere eða litningaendar) afhjúpaði nokkrar ágætar greinar á mbl.is um þetta efni. Það hefði verið hægðarleikur fyrir fréttamanninn að útskýra fyrirbærið betur, tengja við skyldar fréttir eða skaffa víðara samhengi. Því miður virðist enginn tími eða vilji fyrir slíkri heimildavinnu. En hví skyldi það vera, það er ekki eins og líf og dauða sé að tefla...

Viðbót: Viðtal var við Sigríði K. Böðvarsdóttur um litningaenda í morgunútvarpinu 27. nóv. 2012.

Greinar í mbl.is sem fjalla um litningaenda

Sigríður K. Böðvarsdóttir Langlífi og litningaendar - Mbl.is

2005 Reykingar og offita flýta öldrun erfðaefnis í fólki

2008 Hollir lífshættir hægja á öldrun

2008 Merkileg uppgötvun í krabbameinsrannsóknum

2009  Segja unglega_einstaklinga lifa lengur

2009 Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á litningum

2010 Snúa við öldrun í músum

Að auki má finna skelfilega skrumskælingu á fræðunum í Smartlandi (sem er alveg sérkapituli og Morgunblaðinu til skammar).

Guðrún Bergmann í Smartlandi Nokkrar mýtur um öldrun

Rannsóknir bæði í Bandaríkjunum og Evrópu hafa leitt í ljós að nánast hvaða hreyfing sem er, á hvaða aldri sem er, hjálpar til að vernda „telomeres“ – litlu hetturnar á endum krómósómana á endum hverrar frumu líkamans.

Hér standa litningarnir út úr endanum á hverri frumu líkamans. Það eru tíðindi fyrir heilkjörnunga, sem eru vanir því að geyma litninganna inni í kjarnanum. En heilkjörnunum er hollast að beygja sig undir lýsingar heilsuspekinganna, þeir eru jú að selja töfralausnirnar.


mbl.is Hægt að meta lífslíkur með blóðprufu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurvegari bandarísku forsetakosninganna...Nate Silver

Barack Obama og Mitt Romney voru frambjóðendur stóru flokkana tveggja til forseta Bandaríkjanna. Aðrir frambjóðendur voru Gary Johnson, Virgil Goode, Jill Stein og Rocky Anderson, oft lýst sem frambjóðendur þriðja flokksins, þótt þau hafi öll ólíkt pólitískt bakland.

Nate Silver var ekki í framboði til forseta. Hann er tölfræðingur sem heldur úti bloggsíðunni Fivethirtyeight þar sem hann spáði fyrir um úrslit kosninga. Silver stóð sig afbragðsvel í aðdraganda kosninganna 2008, spáði rétt fyrir um úrslit í öllum fylkjum nema einu og öllum 35 öldungardeildarsætunum sem kosið var um.

Í ár gerði hann enn betur og spáði rétt fyrir um úrslit í forsetakosningum í öllum 50 fylkjum Bandaríkjanna, sem og um öll öldungadeildarsætin. (Numbers nerd Nate Silver's forecasts prove all right on election night - the Guardian 7. nóv 2012) MSNBC TV lýsti hann sigurvegara bandarísku forsetakosninganna.

Hvernig í ósköpunum getur hann gert þetta þegar kannanir daginn fyrir kosningar sýndu að munurinn á Obama og Romney var það lítill í lykilfylkjum, að ekki var hægt að segja til um útkomuna?

Silver beitti tölfræði sem séra Thomas Bayes lagði grunninn að, sem fjallar um skilyrtar líkur (conditional probability). Það er ef A hefur gerst, hverjar eru líkurnar á að B gerist?

Silver notar ekki bara eina könnun, heldur allar kannanir t.d. á fylgi forsetaframbjóðenda í hverju fylki. Segjum að í könnun sé ekki marktækur munur á frambjóðendum (t.d. 51.2% Obama 48.7% Romney, skekkja upp á 3%). En ef næsta könnun metur fylgi Obama 50.9% - Romney 49.2%, og sú næsta Obama 51.0% og Romney 48.9%, þá birtist mynstur. Obama hefur yfirhöndina. Í hverri einni könnun er munurinn ekki marktækur, en þegar eldri kannanir eru notaðar til grundvallar minnkar óvissan í heildarmatinu.

Þetta er í sjálfu sér engin geimvísindi, en Silver hefur beitt þessari reglu af miklu innsæi. Galdurinn við góð spálíkön er að gefa gögnum rétta vigt, t.d. hvaða kannanir eru áreiðanlegar (gefur Gallup betra mat en Luggap) og hvaða tilhneygingar má lesa úr gögnum yfir ákveðið tímabil.

Stjórnmálaskýrendur bergmála oftar en ekki staðhæfingum flokksvéla og einhverra innvígðra spunameistara. Silver vinnur algerlega fyrir utan þá hringiðu, á gögnum úr könnunum og kosningaþátttöku fyrri ára. Kosningarvél Romney var ekki sátt þegar Silver lýsti því yfir rétt fyrir kosningar að 90% líkur væru a því að Obama myndi vinna. Maskínan reyndi að gera hann tortryggilegann og kalla hann tölvunörd og homma (hann er hvorutveggja). Það skiptir engu máli, því hann spáði rétt fyrir um niðurstöðuna.

Silver er fyrirtaks talsmaður vísindalegrar aðferðar og gagna. Hann segir til dæmis, að við getum byggt á "gögnum, sem sannarlega eru aldrei fullkomin, eða bulli." ('It's numbers with their imperfections versus bullshit.') Það sem hann kallar bull eru stjórnmálaskýrendur sem tala við einn kennara og þrjár búðardömur og tjá sig svo fjálglega um tilfinningar kjósenda í Hlúnkadúnkasýslu.

Gögnin bera í sér sannleikann, er einmitt lexían sem við lásum fyrir nemendur okkar í lífmælingum, þar sem við kennum þeim aðferð vísinda og tölfræði. Í veröld óvissu er þörf fyrir skýrar aðferðir til að greina raunveruleika frá suði, sérstaklega þar sem spunameistarar flokka, fyrirtækja og hagsmunaaðilla dæla út kjaftæði sem hindrar oss sýn (sbr. Olíurisarnir og atlagan að loftslagsvísindum).

Ítarefni:

 Nate Silver: it's the numbers, stupid Carole Cadwalladr The Observer, Saturday 17 November

The Signal and the Noise by Nate Silver  review Ruth Scurr the guardian Fri 09 November 2012


Vísindadagur Mannerfðafræðifélags Íslands

Vísindadagur Mannerfðafræðifélags Íslands (mannis.is) verður haldinn næsta fimmtudag 22. nóv. í samvinnu við Lífvísindasetur HÍ. Dagskráin hefst kl. 16:15 í Hringsal Barnaspítala Hringsins

Dagskrá

* Setning
* Kynning á starfsemi Mannerfðafræðifélags Íslands
* Eiríkur Briem: Raðgreining á microRNA
* Arnar Pálsson: Stofnerfðafræði
* Jón Jóhannes Jónsson: Framhaldsmenntun í erfðaheilbrigðisþjónustu í Evrópu
* Sigríður Klara Böðvarsdóttir: Erfðafræði krabbameina
* Vigdís Stefánsdóttir: Erfðaráðgjöf á Landspítala
* Vilmundur Guðnason: Rannsóknir Hjartaverndar

Fundarstjóri verður Guðný Eiríksdóttir


Líkön af efnaskiptum ákveðinna frumugerða

Maike Kathrin Aurich doktorsnemi við Kerfislíffræðisetur Háskóla Íslands mun fjalla um rannsóknir sínar á frumusérhæfðum efnaskiptalíkönum, föstudaginn 23. nóv 2012 (kl 12:30 í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ).

Maike vinnur að því að búa til efnaskiptalíkön fyrir mannafrumur, sem eru ólíkar að byggingu og genatjáningu. Skilningur á frumusérhæfðum efnaskiptum, gæti hjálpað við rannsóknir á og meðhöndlun sjúkdóma. Aðferð hennar er að samþætta margvísleg erfðamengjagögn fyrir ólíkar frumulínur. Hún vinnur með tvær T-frumulínur, og gögn um genatjáningu (umritunarmengi - transcriptome) og heildar efnaskipti (metabolome) í báðum frumugerðunum.

Líkön eru byggð af efnaskiptum frumnanna, út frá genatjáningu og mældum hvarf og myndefnum. Slík líkön geta gefið mynd af efnaskiptahæfileikum ólíkra frumugerða, og hvernig þeir hæfileikar breytast þegar umhverfi frumunnar eða jafnvel erfðasamsetning breytist.

Erindið verður flutt á ensku og kallast Generation of cell line specific metabolic models based on transcriptomic, exo- and endo-metabolomic data.

Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.

http://www.hi.is/vidburdir/generation_of_cell_line_specific_metabolic_models_based_on_transcriptomic_exo_and_endo_metabolomic_data

Bestu örveruvinir mannsins

Það er frábært að eiga góðan vin.  Enn betra er að eiga marga vini. Við eigum mun fleiri vini en við áttum okkur á.

Örverufræðingar vita manna best að enginn er eyland.

Mannslíkaminn er þakinn örverum, húð jafnt sem meltingarvegur. Áætlað er að hver 80 kg. maður beri með sér um 3 kg. af bakteríum, og ef við teljum fjölda fruma þá eru uþb 10 örverur á hverja eina mannafrumu*.

Fæstar þessara baktería eru okkur hættulegar, þær eru hluti af eðlilegri flóru og nýtast okkur óbeint, t.d. við að halda niðri öðrum sýkjandi örverum. Sumar þeirra, alþekktir sýklar eða venjulega meinlausar bakteríur sem stökkva til þegar tækifæri gefst, geta nefnilega brotist inn í okkar allra heilagasta (líkamsholið og blóðrás) og þá er hætta á ferðum. Úr Líkaminn sem vígvöllur þar sem fyrst var rætt um hættuna af afræningjum, t.d. ljónum:

En sýklar eru ein alvarlegasta ógn sem steðjar að líkama okkar. Við, hin dýrin og plöntur erum nefnilega ansi girnilegir fæðusekkir, sem bakteríur, sveppir og frumdýr vilja gera sér að góðu. Varnir líkamans gegn sýklum eru margskonar, húðin er t.d. þéttofin skrápur sem er endurnýjaður jafnóðum. Ef bakteríur eða sveppir ná að koma sér fyrir í húðinni, þá mun hin hraða endurnýjun húðarinnar ýta þeim frá okkur, uns þeir losna af með húðflögunum. En um leið og sár myndast þá stökkva sýklarnir á tækifærið. En líkaminn ræsir líka sitt eigið varnarlið. Ónæmiskerfin, hið náttúrulega og frumubundna, fara í gang þegar húðin rofnar.  

En örverurnar eru einnig náttúrulegar og nauðsynlegar fyrir líf okkar og velferð  t.d. bakteríur í brjóstamjólk:

Bakteríur í iðrum eru okkur nauðsynlegar. Meltingarvegurinn þroskaðist ekki eðlilega í rottum sem ólust upp í bakeríufríu umhverfi. Einnig verða stórkostlegar breytingar á bakteríuflóru barna frá fæðingu til 3-4 ára aldurs.  Sýnt var fram á þetta með rannsókn á örverumengi um 300 manna, sem byggði á raðgreiningu á DNA einangruðu úr saursýnum og öðrum vefjum (Structure, function and diversity of the healthy human microbiome - Nature 2012). E.t.v. er bakteríulegt uppeldi jafnmikilvægt og félagslegt uppeldi.

Sjá einnig Bakteríurnar og görnin, Mikilvægi þróunkenningarinnar fyrir læknisfræði, Líkaminn sem vígvöllur og Hrein fegurð tilviljunar.

*(mismunurinn á þessum tveimur hlutföllum liggur í stærð mannafrum og smæð örvera)


mbl.is Fullt af bakteríum í naflanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustráðstefna Vistfræðifélags Íslands 2012

Haustráðstefna Vistfræðifélags Íslands 2012 verður haldin 17. nóvember 2012, stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands.

Markmið ráðstefnunnar er að efla tengsl milli þeirra sem sinna vistfræðirannsóknum. Til að ná þessu markmiði verður tryggt að góður tími verði fyrir veggspjaldakynningu og óformlegar umræður.

Dagskrá haustráðstefnu Vistfræðifélags Íslands 2012 09:00 – 16:30. 

9:15 Atferlis vistfræði, og stofnbreytileiki

10:30 Útbreiðsla tegunda  og stofnstærðarbreytingar

13:30 Samfélög – bygging og starfsemi

15:00 Verndunarvistfræði og endurheimt

Einnig verða kynnt nokkur veggspjöld

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

Dagskrá / Programme

Skráning / Registration


Svona vinna vísindin

Hans G. Þormar ritar frábæra grein í Fréttablaðinu undir titlinum, svona vinna vísindin.

Þar rekur hann sögu tveggja rannsókna sem báðar settu fram byltingarkenndar niðurstöður. Ein fjallar um þann möguleika að XMRV veira ylli blöðruhálskirtilskrabba og síþreytu. Hin fjallaði um bakteríur í Californíu, sem vísindamenn tengdir NASA voru að rannsaka. Þeir birtu niðurstöður, og héldu fréttamannafund sem náði mikilli athygli, þar sem því var haldið fram að á jörðinni fyndust bakteríur sem gætu notað Arsenic í erfðaefni sínu. Við fjölluðum um þá rannsókn hér (Gammapróteobaktería og sameiginlegur forföður)*. Hans segir:

NASA hélt blaðamannafund í beinni útsendingu, vegna mikilvægi þessarar uppgötvunar fyrir möguleikanum á lífi á öðrum hnöttum. Sumir vísindamenn efuðust frá fyrsta degi um þessar niðurstöður og nú hafa verið gerðar fjölmargar athugasemdir og birtar niðurstöður í mótsögn við þessa grein til dæmis.

Hans rekur sögu beggja rannsókna, sem eiga það sameiginlegt að rannsóknir annara vísindamanna hafa dregið niðurstöður þeirra og ályktanir í efa. Þaðan kemur titil greinarinnar, svona vinna vísindin. Þau vinna þannig að vísindamenn líta gagnrýnum augum á niðurstöður, sínar og annara. Til að eitthvað teljist "sannað"** þurfa margar óháðar rannsóknir að gefa sömu niðurstöðu. Eins og t.d. í tilfelli tóbaksreykinga og lungnakrabba, eða CO-2 og loftslagsbreytinga. Hans orðar þetta enn betur:

Þess vegna er mikilvægt að vísindamenn, fjölmiðlafólk og leikmenn efist alltaf um niðurstöður, hvort sem það er í ritrýndum vísindatímaritum, á blaðamannafundum eða í fréttatilkynningum. Sérstaklega þegar niðurstöður ganga gegn núverandi þekkingu eða valda straumhvörfum. Einungis ítrekaðar tilraunir óháðra rannsóknarhópa geta komið okkur nær "réttri" niðurstöðu. Ef niðurstöðurnar eru rangar mun vísindasamfélagið ýta þeim út af borðinu hægt, en örugglega.

Eins og einhver orðaði það: "Ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá er það oftast of gott til að vera satt" og það gildir um vísindi líka.

* Umfjöllun okkar var frekar jákvæð, en í athugasemdum má finna ríkari umræðu um eðli vísinda og hvort að stórar stofnanir eins og NASA, decode, HÍ eigi að leggja mikla áherslu á niðurstöður einstakra rannsókna?

** Í vísindum er ekkert endanlega sannað, það er bara að hinn möguleikinn er afsannaður. Í tilfelli tóbaks, þá er það afsannað að tóbak hafi engin áhrif á tíðni lungnakrabbameins.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband