12.11.2009 | 16:53
Ótrúleg en samt náttúruleg greind
Um helgina síðustu fluttu Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður Snorrason ljómandi skemmtilegan fyrirlestur um þróun atferlis. Fyrirlesturinn var skurðpunktur líffræðiráðstefnunar 2009 og Darwin daganna 2009.
Hrefna og Sigurður gáfu fádæma gott yfirlit um atferlisfræðina og hvernig ákveðin hegðun getur hafa orðið til vegna náttúrulegs vals. Þau tóku fjölda dæma, um skrautleg karldýr, fórnfýsi ættingja og greind dýra. Það er ekki eins og bara menn geti hugsað rökrétt og leyst þrautir, dýr, jafnvel fuglar geta það líka.
Því miður gafst þeim ekki tími til að sýna myndbönd af hegðun dýranna, en hér að neðan eru tenglar á nokkur slík.
Ættingi fasana (Tragopan satyra - einnig á mynd til hliðar) er með fádæma skraut og mjög aðlaðandi hegðun.
Hrafn leysir vandamál sem hann hefur aldrei kynnst áður, kráka beygir vír og hinn heimsfrægi páfagaukur Alex, þjálfaður af Irene Pepperberg á MIT.
Næsti fyrirlestur í röðinni verður nú á laugardaginn (14 nóv. kl 13:00 í Öskju). Þá mun Einar Árnason fjalla um val vegna fiskveiða.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2009 | 10:08
Málgleði tengd tjáningu gena
Meðal fólks finnast margskonar mál og talgallar. Ákveðin hópur málgalla er tilkomin vegna stökkbreytinga í FOXP2 geninu. FOXP2 er virkjað í heila og myndar prótín sem stjórnar tjáningu annara gena. Það er kallað genatjáning þegar RNA afrit er myndað eftir geni, og síðan prótín eftir RNA mótinu. Umritunarþættir (transcription factor) eins og FOXP2 stjórna því hvar og hvenær gen eru tjáð.
Þegar þróun FOXP2 er skoðuð kemur í ljós að prótínið er ótrúlega vel varðveitt, milli apa og músa munar aðeins einni amínósýru. Maðurinn er hér undanskilinn.
Það munar nefnilega tveimur amínósýrum á FOXP2 prótínin manna og simpansa. Báðar breytingarnar hafa orðið á ættlegg okkar, það er í forfeðrum okkar sem komnir eru af sameiginlegum forföður okkar og simpansa.
Eðlilega var sett fram sú tilgáta að þessar breytingar í FOXP2 í manninum tengdust okkar einstöku talhæfileikum og tjáningu. Mjög virkar rannsóknir hafa farið fram á geninu síðustu ár til að meta þessa tilgátu.
Í Nature vikunnar kom út grein sem kannar áhrif FOXP2 í mönnum, og benda niðurstöðurnar eindregið til þess að þessar tvær breytingar hafi afdrifarík áhrif fyrir tjáningu margra gena í heila mannsins. Þannig að litlar breytingar í lykilgenum geta leitt til afdrifaríkra breytinga á eiginleikum lífvera. Myndin er úr greininni, af vef Nature.
Þess má einnig geta að hetjan okkar Zophonías O. Jónsson (Dr. Z í daglegu tali) er meðhöfundur á greininni. Hann var í rannsóknaleyfi í UCLA fyrir nokkrum árum og tók þátt í rannsóknavinnunni. Húrra fyrir honum.
Ítarefni:
Genevieve Konopka o.fl. Human-specific transcriptional regulation of CNS development genes by FOXP2 Nature 462, 213-217 (12 November 2009) | doi:10.1038/nature08549
Adam neanderthal og Eva sapiens
Ed Young Revisiting FOXP2 and the origins of language
Nicholas Wade í New York Times Speech Gene Shows Its Bossy Nature
John Hawks Chimpanzee and human FOXP2 compared
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2009 | 09:35
Mistök háskólaráðs
11.11.2009 | 12:32
Darwinsk fiskveiðistjórnun
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó