Leita í fréttum mbl.is

Api með þrjá foreldra

Við erfum litninga bæði frá móður og föður. Að auki fáum við í umfrymi eggsins prótín, mRNA og það sem mestu máli skiptir hvatbera, orkustöðvar frumunnar. Hvatberarnir eru sérstakir að því leyti að þeir eru með sinn eigin litning, sem í okkur innheldur nokkra tugi gena. Með því að skoða byggingu þessara gena og bera saman við gen annara lífvera er augljóst að uppruni hvatbera er í samruna alfa-protobakteríu og við forföður allra heilkjörnunga (þ.e. dýra, plantna og sveppa). 

Gallar í starfsemi hvatbera geta verið mjög hættulegir, m.a. vegna þess að þá fá frumurnar ekki nægilega orku. Samkvæmt frétt the Guardian, þá hafa gallar í erfðamengi hvatbera verið bendlaðir við sykursýki, vöðvarýrnun og heyrnartap.

Hópur vísindamanna í Oregon undir stjórn Shoukhrat Mitalipov hefur nú náð að skipta um hvatbera í eggjum rhesus apa. Það þýðir, eins og fyrirsögnin ber með sér, að einn api geti átt þrjú foreldri. Ef móðirin ber gallaða hvatbera, er hægt að hreinsa þá út og setja inn heilbrigða hvatbera úr gjafa. Rannsóknin birtist á vefsíðu Nature nú í vikunni.

Vitanlega mun þetta endurvekja umræðu um hvað sé réttlætanlegt í erfðaskimunum og hvort verjanlegt sé að klóna fólk. Við munum líklega ræða þetta í mannerfðafræðinámskeiðinu sem kennt er í haust.

Ég vil minnast á tvennt í lokin, eitt mikilvægt og annað síður.

Þrátt fyrir að hvatberar beri 37 gen finnast 3000-4000 mismunandi prótín innan þeirra. Það gefur auga leið að genin sem skrá fyrir flestum þessara prótína eru í kjarna, á venjulegum litningum sem við fáum frá pabba og mömmu. Það þýðir að margir erfðagallar sem hafa áhrif á hvatbera liggja í raun í kjarnagenum (nokkuð sem nemarnir í mannerfðafræði í fyrra áttu í miklu basli með!). Aðferðin sem Mitalipov og félagar þróuðu mun ekki gagnast í þessum tilfellum.

Það er vitanlega hjóm eitt að minnast á þetta, en ég get sagt með stolti að hópurinn minn tók þátt í rannsókn með Mitalipov og félögum á stofnfrumum úr rhesusöpum. Rannsóknin hefur ekki enn komið út, en ég mun örugglega lýsa henni fjálglega og með gífuryrðum þegar það verður.

Ítarefni:

The monkeys with three parents that could stop mothers passing on incurable diseases

Masahito Tachibana og fleiri Mitochondrial gene replacement in primate offspring and embryonic stem cells Nature 26 August 2009 | doi:10.1038/nature08368


Haustdagar Darwins 2009

Charles Darwin og þróun hafa nokkrum sinnum verið til umræðu á síðu þessari. Fyrir utan brennandi áhuga minn á þróun og öðrum lögmálum og undrum lífræðinnar hefur ástæðan einnig verið sú að í ár eru 200 ár liðin frá fæðingu Darwins. Að auki verða nú í nóvember 150 ár liðin frá því að bók hans Um uppruna tegundanna...kom út.

DarwinVeggspjaldAð því tilefni höfum við ásamt góðu fólki staðið fyrir margskonar viðburðum (sjá darwin.hi.is).

Nú í haust verður haldin fyrirlestraröð sem spannar allt frá þróun kynæxlunar, til uppruna lífs, öldrunar og leyndardóma jarðsögunnar. Í sumar fengum við forsmekk með erindi Monty Slatkin um Neanderthalsmanninn. 

Fyrsti fyrirlestur haustsins verður erindi Peter og Rosemary Grant um finkur Darwins (13:00 laugardaginn 29 ágúst). Aðrir fyrirlestrar í röðinni verða auglýstir hér, en full dagskrá er eftirfarandi.

6 júlí - Montgomery Slatkin - Neanderthalsmaðurinn: erfðamengi og stofnerfðafræði

29 ágúst - Peter og Rosemary Grant - Finkur Darwins og þróun

3 október - Guðmundur Eggertsson - Uppruni lífsins*

24 október -  Ólafur Ingólfsson og Ingibjörg Svala Jónsdóttir - Steingervingar og þróun lífs

31 október - Joe Cain - Kenning Darwins*

7 nóvember - Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður Snorrason - Þróun atferlis

14 nóvember - Einar Árnason - Náttúrlegt val vegna fiskveiða*

21 nóvember - Hafdís Hanna Ægisdóttir - Lífríki og þróun á eyjum

28 nóvember - Linda Partridge - Þróun og öldrun*

5 desember - Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson - Tegundamyndun

12 desember - Snæbjörn Pálsson - Þróun kynæxlunar

*Ekki eru komnir endanlegir titlar á alla fyrirlestrana, en við tilgreinum megin rannsóknarviðfangsefni viðkomandi vísindamanna.

Fyrirlestraröðin er styrkt af mörgum aðillum sem við erum ævinlega þakklát.

Menntamálaráðaneytið

Rektor Háskóla Íslands

Líffræðistofnun HÍ

Líf og umhverfisvísindadeild HÍ

Rannsókna og fræðasetur HÍ á vestfjörðum

Líffræðifélag Íslands

Vísindafélag íslendinga

Gróco ehf

Landbúnaðarháskóli Íslands

Hólaskóli


Tilurð tegunda

Næstkomandi laugardag munu Peter og Rosemary Grant halda erindi um finkurnar á Galapagos (13:00 laugardaginn 29 ágúst, í hátíðarsal HÍ - aðalbyggingu). Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwin (sjá darwin.hi.is ). Þar...

Aðalfundur Líffræðifélags Íslands

Aðalfundur Líffræðifélags Íslands fyrir árið 2009 verður haldinn í Öskju þann 27. ágúst næstkomandi og hefst kl. 20.00. Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf.Starfsemi Líffræðifélagsins hefur verið með daufara móti undanfarin ár en nú liggur fyrir að...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband