1.9.2009 | 14:22
Heimsókn Grant hjónanna
Síðastliðinn föstudag komu Peter og Rosemary Grant í heimsókn til Íslands. Þau héldu tvö erindi laugardaginn 29 ágúst, annað um tegundamyndun og hitt um þróun finkanna á Galapagos. Bæði erindin voru framúrskarandi góð. Seinna erindið markaði formlegt upphaf fyrirlestraraðar í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin, sem gert hefur verið skil hér áður. Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ setti fyrirlestraröðina með sérlega skemmtilegum inngangi.
Peter Grant, Rosemary Grant, Kristín Ingólfsdóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir, mynd A. Palsson.
Peter Grant hafði komið til Íslands sem unglingur meðal annars til að leita jurta. Síðar ákváðu þau hjónin að staldra hér við (fyrir um 35 árum) og rannsaka máfa sem rændu mat af lundum. Í Vík fundu þau annan ræningja, skjótari og liprari í lofti, kjóann. Einar Árnason sem vann með Grant hjónunum að rannsóknum á kjóa og sniglum í Vík í Mýrdal kynnti fyrirlesarana.
Grant hjónin lögðu áherslu á að þróun getur verið mjög ör. Einnig skipta einstakir atburðir oft miklu máli, hvort sem um er að ræða hamfarir eða happakast. Miklir þurrkar hafa áhrif á framboð fræja á eyjunum, og á hinn bogin getur aukin rigning í kjölfar El Nino valdið rótækum breytingum á gróðri og þar með fræsamsetningu. Finkustofnarnir eru nauðbeygðir til að svara þessum breytingum, líklega vegna þess að fæðuframboð skiptir mestu um afdrif einstaklinganna (það eru helst uglur sem stunda afrán á finkunnum, en ekki er vitað um sýkingar aðrar eða meindýr). Goggastærðin hefur breyst heilmikið á þeim rúmu 30 árum sem þau hafa vaktað finkurnar. Því fer fjarri að breytingarnar hafi verið stefnubundnar, sum árin eru stórir goggar heppilegir en í öðru árferði reynast litlir goggar betur. Sem undirstrikar eina af lykilályktunum þróunafræðinnar, þróun hefur enga stefnu.
Þau fræddu okkur einnig um vistfræði og atferli finkanna, hvenær ungfuglarnir læra söng foreldranna (sem ákvarðar síðan hvers konar maka þeir kjósa sér) og hvaða breytingar í tjáningu þroskunargena tengjast formi goggsins. Rannsóknir þeirra eru það margþættar og auðugar að ekki er mögulegt að gera þeim tilhlýðileg skil í pistli sem þessum.
Grant hjónin hafa verið á þeytingi betri part ársins, á ráðstefnum og fundum, með fyrirlestra og fræðslufundi. Næsta stopp þeirra er Oslóarháskóli, þar sem þau halda í fyrramálið erindi undir merki Kristine Bonnevie sem var fyrsti kvenprófessorinn í Noregi. Rannsóknasetur í þróunarfræði og vistfræði við Oslóarháskóla stendur ásamt öðrum fyrir mjög flottri röð atburða í tilefni afmælis Darwins.
Næsta erindi í fyrirlestraröðinni hérlendis verður 3 október, og mun Guðmundur Eggertson þar leita að uppruna lífs.
Vísindi og fræði | Breytt 2.9.2009 kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.8.2009 | 10:53
Maðurinn er meira en skinn
Húðin er bara einn af fjölda eiginleika sem prýða mannverur. Litur hennar er töluvert breytilegur, t.d. finnst ljós húð aðarlega á hærri breiddargráðum og dökk húð nær miðbaug (slatti af undantekningum eru þó frá reglunni, m.a. frumbyggjar Ástralíu og Tasmaníu. Færð hafa verið ágætis rök fyrir því að ljósari húð sé tilkomin vegna náttúrulegs vals vegna D-vítamínsskorts. D-vítamín má fá úr fæðu og einnig myndast virka form vítamínsins í húðinni fyrir tilstuðlan geisla sólar. Afríkubúar sem flytjast til norður evrópu verða að gæta sín sérstaklega í fæðuvali og vera sem mestu utandyra til að hremma geisla sólar.
Hugmyndin sem Moan, Setlow og félagar setja fram er að evrópubúar hafi hætt að borða fisk fyrir 5500 árum og þá hafi orðið öflugur þrýstingur gegn dökkri húð. Rökstuðningur þeirra er grandvar og umræðan í greininni varkár, en því miður hefur tilgáta þeirra tekið breytingum í meðförum fjölmiðlafólks.
Í grein þeirra segir:
About five thousand years ago the wave of agriculture came to the Baltics, to Scandinavia and to England. In England changes of the isotope ratio of 12C13C have been found in bones from between 5500 and 5200 years before now. This shows that the food changed rapidly away from fish as an important food source.
...It is possible that agriculture played a role in the evolution of light skin in modern humans, but the main objection to this hypothesis is its recency: A few thousands of years may not be enough for such genetic changes.
Í frétt the Sunday Times:
White Europeans could have evolved as recently as 5,500 years ago, according to research which suggests that the early humans who populated Britain and Scandinavia had dark skins for millenniums.
It was only when early humans gave up hunter-gathering and switched to farming about 5,500 years ago that white skin began to be favoured, say the researchers. [feitletrun okkar]
Sem varð að
Ný rannsókn leiðir í ljós að hvítir Evrópubúar hafi ekki orðið til fyrr en fyrir um 5.500 árum. ....
Fyrst þegar fornmaðurinn hóf landbúnað fyrir um 5.500 árum síðan hafi húð hans tekið að breytast. [feitletrun okkar]
Þannig að tilgáta um uppruna hvítrar húðar í norður Evrópu og sérstaklega bretlandseyjum, varð að staðreynd um tilurð "hvíta mannsins". Hvíslkeðju fréttamennska getur gert stórkostlega hluti (einnig sú árátta að leita ekki frumheimilda og tékka á staðhæfingum!).
Mér finnst eira af fornri og skelfilegri sýn á mannfólkið sem tíðkaðist á síðustu og þarsíðustu öld. Í suðurríkjum Bandaríkjanna voru lög sem tilgreindu að einn dropi af svörtu blóði væri nægur til að skilgreina viðkomandi einstakling sem blökkumann (og þar með þræl sem hægt væri að kaupa og selja).
Erfðafræðin og þróunarfræðin sýna afgerandi að menn eru allir af sama meiði og að nær allur sá breytileiki sem við finnum innan Evrópu finnst í Afríku. Það að einblína á húðlit er skelfileg einföldun (svona eins og ætla að flokka fólk eftir breidd stóru táarinnar).
Húðlitur segir EKKI til um eiginleika fólks.
Ítarefni:
Juzeniene A, Setlow R, Porojnicu A, Steindal AH, Moan J. Development of different human skin colors: a review highlighting photobiological and photobiophysical aspects. J Photochem Photobiol B. 2009 Aug 3;96(2):93-100
The Sunday Times, 30 ágúst 2009. White Europeans evolved only 5,500 years ago.
![]() |
Hvíti maðurinn aðeins 5.500 ára gamall? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
28.8.2009 | 16:12
Umfjöllun um erfiðleika decode í Science
28.8.2009 | 13:25
Klónaðir bananar
Vísindi og fræði | Breytt 9.9.2009 kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó