3.3.2008 | 09:40
Vísvitandi misvísandi fyrirsögn um vísindi
Íslenskir sköpunarsinnar hafi örugglega misst úr slag af spenningi, svona rétt eins og frændi minn nýaldarsinninn þegar hann horfði á fyrsta þáttinn af Ráðgátum (X-files). En síðan áttuðu þau sig á því að blaðablækurnar á mbl.is voru bara að fíflast, svona rétt eins og virðulegum fréttamiðli sæmir!
Þróunarkenning Darwins er grundvöllur að líffræði, læknisfræði, líftækni og fleiri greinum, og hún hefur staðist allar prófanir. Í megin atriðum gengur þróunarkenningin út á tvennt. Í fyrsta lagi að allar lífverur á jörðinni séu af sameiginlegum uppruna, það að allar lífverur séu skyldar, bara misjafnlega mikið. Í öðru lagi sýndi Darwin, og samtímamaður hans Alfred Wallace, fram á að aðlaganir (t.d. vængir til að flúgja með) gætu orðið til vegna áhrifa náttúrulegs vals (e. natural selection). Við höfum áður rætt um náttúrulegt val og nægir að árétta að orðið kenning hefur mjög skýra merkingu í raunvísindum. Kenning er hugmynd eða líkan sem útskýrir margar athuganir í náttúrunni, og sem hefur staðist ítrekaðar prófanir.
Það sem Morgunblaðið var að "leika" sér með, var sú staðreynd að Darwin lagði fram þá tilgátu (í bók sinni um breytileika í ræktuðum afbrigðum), að nánasti ættingi hænsna væru rauðar villihænur (red junglefowl). Reyndar dró Hutt þetta í efa árið 1949, en tilgátan var afsönnuð af sænskum hóp sem kortlagði gula genið í hænum (sjá grein á PLOS genetics). Myndin hér að neðan sýnir útbreiðslu nokkura villtra hænutegunda og útlit þeirra (mynd frá Eriksson og fél 2008, greinin útskýrir smáatriðin).
Mér finnst reyndar sérstaklega ánægjulegt að sjá viðbrögð moggabloggarana við fréttinni, hún hefur sveiflast frá góðlátlegu gríni til ádeilu á vinnubrögð mbl.is. Páll Jónsson stakk upp á viðbragði að hætti PZ Myers, sem hefur varið vísindin ötullega fyrir atlögum amerískra sköpunarsinna, á vefsíðunni Pharyngula (sjá einnig í tenglalista).
Spurningin sem ritstjórar Morgunblaðsins og mbl.is verða að svara, eru svona slæm vinnubrögð réttlætanleg? Má allt til að selja blöð?
Myndi Morgunblaðið birta fyrirsögnina: "Eru læknavísindin afsönnuð?"
![]() |
Kenning Darwins felld? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.2.2008 | 12:03
Botninn úr Prozac tunnunni
Það fer ekkert á milli mála að þunglyndi er sjúkdómur, og að mikill breytileiki í geðslagi, skapferli og sveiflum í lund. Óljós er hvaða líffræðilegu þættir liggja að baki, hvernig samspil einstaklinga og samfélagsins ýtir undir eða bælir geðsjúkdóma, og auðvitað hver er besta meðferðin.
Lyfjafyrirtækið Eli Lily þróaði Prozac (markaðsnafn á pillu með "virka"efninu fluoxetine) fyrir tuttugu árum og nú eru á markaðnum heil fjölskylda af skyldum efnasamböndum, sem seld eru sem geðlyf.
Ný rannsókn, leidd af Irving Kirsch við háskólann í Hull sem naut aðstoðar vísindamanna í Bandaríkjunum og Kanada birtist í PLOS medicine, sló botninn endanlega úr tunnunni. Hópurinn framkvæmdi heildargreiningu ("meta-analysis") sem dregur saman niðurstöður úr mörgum lyfjaprófunum og metur hvort áhrif efnisins á líðan sjúklinga séu marktæk. Venjulega eru lyfjapróf sett upp þannig að sjúklingum er skipt í tvo hópa, tilviljun er látin ráða hvor fær lyfið og hver fær sykurpillu. Sykurpillan er plat (svokallað "Placebo" á ensku) og er sá hópur til viðmiðunar. Síðan er athugað hvort að lyfið hafi tölfræðilega marktæk áhrif á sjúkdómseinkenni, í þessu tilfelli líðan sjúklinga. Marktæknin er skilgreind þannig að bætt líðan sjúklinga sé ólíklegri en svo að búast megi við henni vegna tilviljunar. Oft er miðað við, að ef tilraunin væri framkvæmd 20 sinnum, þá megi búast við svona miklu fráviki vegna tilviljunar einu sinni.
Eli Lily og önnur fyrirtæki höfðu lagt fram niðurstöður sem bentu til þess að Prozac bætti líðan sjúklinga (Reyndar hafa nokkrar rannsóknir á síðustu árum dregið þessa niðurstöðu í efa, en af einhverju ástæðum hafa þær ekki komist í hámæli (erfitt að kollvarpa viðtekinni þekkingu!). En hængurinn var sá að Eli Lily hafði ekki lagt fram niðurstöður allra sinna rannsókna á Prozac, bara þær jákvæðu! Það þurfti ákvæði bandarískra laga um upplýsingaskyldu ("freedom of information act") til að draga niðurstöður hinna rannsóknanna úr hirslum lyfjarisanna (sjá frétt the Guardian eða BBC).
Þessi "týndu" gögn voru síðan greind af Kirsch og félögum, og sýna að Prozac hefur ekki jákvæð áhrif á líðan þunglyndra. Reyndar líður sjúklingunum betur eftir meðferð, en einnig þeim sem fengu sykurpillu (vegna hinna dásamlegu sykurpillu áhrifa -"Placebo effect"), og enginn marktækur munur er á hópunum! Það er augljóst að lyfjafyrirtækin stóðu sig ekki sem skyldi eins og Darian Leader lýsir í nýlegri samantekt the Guardian.
"Á gullöld kynningarstarfs fyrir þunglyndislyf voru einungis 10% rannsókna á áhrifum lyfjanna birtar. Tvær af hverjum þremur slíkum rannsóknum eru fjármagnaðar af lyfjafyrirtækjum, og rannsóknir þeirra eru 4 sinnum líklegri til að finna jákvæð áhrif lyfja en óháðar rannsóknir" Mín þýðing á orðum Darian Leaders
Er það undarlegt að fólk vantreysti lyfjafyrirtækjum, ef þau stunda svona óvönduð vinnubrögð? Mér finnst samt rétt að árétta að léleg tölfræði og slæleg vinnubrögð finnast ekki bara hjá lyfjafyrirtækjum, og á ég þá við mörg svið "óhefðbundinna lækninga" sérstaklega (sjá t.d. færslu um smáskammta"lækningar").
Rétt er að árétta að Prozac og skyld lyf virðast bæta líðan þeirra sem eru með alvarlegustu þunglyndiseinkennin. Aðal vandamálið er náttúrulega það að við skiljum þunglyndi ósköp illa, hvað er rót sjúkdómsins, einkenni hans og afleiðingar.
![]() |
Efast um virkni þunglyndislyfja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2008 | 12:46
Að tigna forheimskuna
Vísindi og fræði | Breytt 28.2.2008 kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2008 | 15:31
Þróaðist trúar "hæfileikinn"?
Vísindi og fræði | Breytt 26.2.2008 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó