Leita í fréttum mbl.is

Náttúruleg tilraunastofa í Henglinum

Gísli M. Gíslason prófessor við HÍ, Jón S. Ólafsson á Veiðimálastofnun og samstarfsmenn þeirra hafa rannsakað lífríki lækja í Henglinum í rúman áratug.  Fréttablað dagsins fjallar um rannsóknir þeirra (Vinna í náttúrulegri tilraunastofu).

gislimar_arondalin.jpgÞar segir:

Í Hengladölum eru lindalækir hlið við hlið á tveggja kílómetra kafla sem eru frá sex til 100 gráðu heitir, og eru upptakakvíslar Hengilsdalsár. Þessa læki höfum við nýtt sem náttúrulega tilraunastofu allt frá árinu 2004,“ segir Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði við Háskóla Íslands, sem, ásamt innlendu og erlendu samstarfsfólki, hefur leitað svara við því hvaða áhrif hlýnun loftslags og áburðarefnamengun hefur á lífríki straumvatna.

Ein af fjölmörgum niðurstöðum þessara umfangsmiklu rannsókna eru vísbendingar um að hækkandi hiti, upp að vissu marki, hafi ekki alvarleg áhrif á afkomu urriða heldur geti honum þvert á móti fjölgað og hann vaxið hraðar með breyttu fæðuvali. Vísindamennirnir telja niðurstöðurnar benda til þess að urriðinn geti lagað sig að aðstæðum samfara hlýnandi loftslagi. Fyrirfram bjuggust þeir við að með hækkandi hita myndi urriðanum fækka og hann myndi stækka hægar, en niðurstöður rannsóknarinnar leiddu hið gagnstæða í ljós.

Gísli og aðrir samstarfsmenn birtu nýlega grein um þessar niðurstöður í vísindaritinu Global Change Biology.

Í rannsókninni merktu vísindamennirnir urriða í mismunandi heitum lækjum og fylgdust með vexti stofnsins yfir fimm mánaða tímabil. „Við komumst að því að urriðinn þolir meiri hita en hefur verið talinn hans kjörhiti, því þar hefur hann meira að bíta og brenna þar sem er meiri framleiðni lífrænna efna í vatninu. Hann leitar inn í allt að tuttugu gráða heitt vatn, en þar hrygnir hann hins vegar ekki. Til þess leitar hann í kaldara vatn,“ segir Gísli og bætir við í stærra samhengi hlutanna að rannsóknirnar tengist því markmiði víða um heim að færa mengaðar ár og vötn í átt til upprunalegs ástands í hlýnandi heimi sem krefst aukins skilnings hlýnunar á lífríkið.

Spurður um þennan einstaka urriðastofn á Hengilssvæðinu sem er til rannsóknar segir Gísli að hann hafi lokast af fljótlega eftir ísöld, líkt og stórurriðinn í Þingvallavatni gerði. Erfðafræðileg rannsókn er hafin við Háskóla Íslands þar sem ekki er útilokað að þessir tveir stofnar séu að uppruna til sá sami, þó gjörólíkir séu í dag. Þar komi til náttúruval og þá hvaða gen hafi valist úr sem heppilegust voru á hvoru svæði.

Temperature effects on fish production across a natural thermal gradient Eoin J. O'Gorman, Ólafur P. Ólafsson o.fl. Global Change Biology. DOI: 10.1111/gcb.13233

Nú er verið að leita að doktorsnema í erfðafræðirannsóknir á urriðanum.

Myndin er af Gísla Má og Aron Dalin, tekin 2015.


Fiskstofnar Veiðivatna á Landmannaafrétti

Magnús Jóhannsson sérfræðingur við Veiðimálastofnun mun flytja föstudagserindi líffræðistofu þessa vikuna (11. mars kl. 12:30 í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ).

Erindið nefnist Fiskstofnar Veiðivatna á Landmannaafrétti

Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson eru höfundar rannsóknarinnar.

2014ag14magnusj.jpgVeiðivötn eru vatnaklasi norðan Tungnaár á Landmannaafrétti. Vötnin eru á vatnsríku, eldvirku og frjósömu lindarsvæði. Tvær fisktegundir, urriði (Salmo trutta) og hornsíli (Gasterosteus aculeatus), eru í vötnunum frá náttúrunnar hendi. Bleikja (Salvelinus alpinus), komst þangað af sjálfsdáðum upp úr 1970 eftir sleppingar í nálæg vötn. Vötnin hafa lengi verið nytjuð með blandaðri stanga- og netaveiði. Árið 1985 hóf Veiðimálastofnun árlegar vöktunarrannsóknir á fiskstofnum vatnanna. Markmið rannsóknanna er að vakta fiskstofna svæðisins, með árlegu mati á ástandi urriðastofna og landnámi bleikju. Fiskar í Veiðivötnum búa við harðbýl náttúrufarsleg skilyrði, vetur eru kaldir og sumur stutt. Óvíða eru góð hrygningarbúsvæði fyrir urriða þar sem er möl og vatnsrennsli. Urriðar í Veiðivötnum eru síðkynþroska, verða flestir kynþroska við 7 til 9 ára aldur, þá um 45 cm langir og um 1,3–1,5 kg að þyngd. Vaxtarhraði og kynþroskastærð er að hluta erfðabundnir eiginleikar, en góður vöxtur urriðanna er líklega vegna ríkulegs fæðuframboðs. Fæða urriðanna í Veiðivötnum er aðallega smádýr sem tekin eru af botni.  Vatnabobbi (Lymnaea peregra) er lang algengasta fæðan en skötuormur (Lepidurus arcticus) er einnig mikilvæg fæða sem og hornsíli og lirfur rykmýs og vorflugna. Bleikju fer fjölgandi í mörgum þeim vötnum sem hún hefur borist í. Í þessum vötnum hefur urriðastofninn hopað.  Miklar sveiflur koma fram í afla urriða en veiði á flatareiningu er svipuð og í frjósömum láglendisvötnum hérlendis. 

Myndina tók Magnús 14. ágúst 2014, sést yfir Litla- og Stóra-Fossvatn.

Dagskrá föstudagsfyrirlestra líffræðistofu HÍ vorið 2016.

Klónar í Háskóla Íslands

Fjöldaframleiddir hermenn, allir eins, allir fullvopnaðir, allir jafn hættulegir, allir blaðlýs. Margar lífverur fjölga sér með klónvexti, þar á meðal blaðlýs. Það er ástæðan fyrir því að á einni plöntu getur á nokkrum vikum orðið sprenging í fjölda...

Háskóladagur: Klónar, DNA, dýr og frumur í Öskju 5. mars

Síðustu ár hefur líffræðin opnað tilraunastofur í Öskju - náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands á Háskóladeginum. Í ár kynnum við BS nám í líffræði og BS nám í sameindalíffræði og lífefnafræði í samstarfi við Raunvísindadeild HÍ. Staður og stund: 12 til 16...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband