Leita í fréttum mbl.is

Komast á forsíður án þess að klóna loðfíl

Venjulega þurfa vísindamenn að birta greinar um merkilegar framfarir eða niðurstöður til þess að fréttmenn beini að þeim kastljósum. Japanskir og rússneskir vísindamenn hafa fundið sniðuga leið fram hjá þessu smáatriði. Þeir tilkynntu í upphafi árs að þeir ætluðu að freista þess að klóna loðfíl (íslenska þýðingin á mammút!). Galdurinn er semsagt ekki að framkvæma góða rannsókn, heldur að AUGLÝSA hugmyndina um svakalegt stórvirki.

Sölumennska og glansmyndir eru hluti af vopnabúri sumra vísindamanna sem reyna að afla fé til rannsókna sinna og nafni sínu frægð. Þetta er náttúrulega ekki eðlilegt, að vísindamenn þurfi (eða leyfi sér) að stunda þvílík vinnubrögð. Maður er því miður alvanur sölubrellum, rökvillum, smjörklípum og ryksprengjum í umræðu um stjórnmál og þjóðfélagið, en ætti sannarlega að vera öskuillur yfir sorglegri umræðuhefð og þroskaskorti. Lífið er ekki morfis, það eru til algild sannindi sem falla ekki úr gildi þótt að einhverjir trúðar þyrli upp moldviðri og sturti saur yfir andstæðinga sína.

Því miður grípa fjölmiðlarnir svæsnustu frasana, ýktustu fullyrðingarnar, svakalegustu slysin og bera á borð okkar. Við veljum að skoða fréttirnar um slysin, líkamspartana, rifrildin og uppgjörin, á meðan fjármagnseigendur og veltengdir velunnarar valdamanna (núverandi og fyrrverandi) maka krókinn í þögninni. Ég tel það enga tilviljun að Murdoch veldið gangi á mokstri á gulum fréttum, slúðri og hálfklámi sem duga fjarska vel til að draga úr þjóðfélagslegri virkni almúgans.

En er hægt að klóna loðfíl? 

Í janúar síðastliðnum ræddi ég þetta mál við Guðmund Pálsson og Frey Geirfugl Eyjólfsson í morgunútvarpi rásar 2. Þar ályktaði ég að:

...hæpið sé að hægt verði að klóna loðfíl. Ástæðurnar eru, i) klónun krefst mjög margra eggja og staðgöngu-mæðra (þúsundir eggja og kannski hundruðir fílakúa), ii) prótínin í loðfílskjarnanum er líklega skemmd ef ekki ónýt, iii) erfðaefnið í loðfílskjarnanum er örugglega brotið upp og e.t.v. einnig stökkbreytt. Sannarlega væri mikilfenglegt að sjá loðfíl rölta niður Skólavörðustíg, en bévítans óvissuþættirnir benda til að það sé ólíklegur möguleiki. 

Stutt leit á netinu bendir til þess að ósköp lítið hafi breyst frá því í janúar. Rússnesku vísindamennirnir fundu jú reyndar bein af loðfíl, sem þeir segja að sé heppilegt fyrir tilraunirnar sem þeir hafi í hyggju. Ég vildi óska þess að þeir gerðu eitthvað að viti í staðinn fyrir að senda endalausar fréttatilkynningar út í heim. Sem gera ekki annað en að glepja þýðendur vef"frétta"miðlanna. Kannski er þetta vísindafréttafræðileg tilraun, þar sem þeir dæla út tilbrigði við sama stef, á 8-12 mánaða fresti og sjá hversu lengi fjölmiðlar verða að fatta gabbið?

Heilagur Ra, það var ekki meiningin að vera svona neikvæður, mögulega er þetta svörun arfgerðar minnar við skelfilegum kulda. Hvíðið eigi, Barbapabbi mun bjarga málunum.

Tengt efni:

Hugmyndir um klónun loðfíla

Barbapabbi mun ekki bjarga lífinu á jörðinni


mbl.is Ætla að klóna mammút
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgengi að gögnum og kennitölur vísindamanna

Fyrsta daginn minn sem doktorsnemi í Norður Karólínu lét leiðbeinandi minn Greg Gibson mig fá bókina Lords of the fly, eftir Robert Kohler. Bókin fjallaði um ávaxtafluguna (sbr undirtitillinn Drosophila Genetics and the Experimental Life) og mennina sem rannsökuðu hana í upphafi síðustu aldar. Í upphafi fjallar bókin um Thomas H. Morgan og nemendur hans en þræðir síðan hvernig flugan (og skyldar tegundir) urðu að fyrsta flokks tilraunalífveru fyrir margvíslegar rannsóknir í líffræði og læknisfræði.

Ein mikilvægasta hugmynd flugumannana var að deila efnum og aðferðum. Vísindin höfðu löngum verið dægradvöl ríkra aðalsmanna, og lítið um samstarf hópa og það að menn deildu efnivið. Ávaxtaflugugengið við Columbia Háskóla vann allt sem einn hópur, skiptust á hugmyndum og stökkbreytingum ef ekki hádegisverði og nærfatnaði. Þeir sendu líka stökkbreyttar flugustofna til hvers sem þiggja vildi og þannig varð til mjög öflugt samfélag sem byggði á þeirri heimspeki að afurðir vísinda ættu að vera öllum aðgengilegar.

Hugmyndafræðin um opið aðgengi (open access) er ríkjandi í vísindum í dag, þegar við birtum rannsókn þar sem raðgreind voru gen er þess krafist að raðirnar séu sendar í opna gagnagrunna. Og það er að færast í aukanna að fólk sendi heil gagnasett (mælingar á vænglengd þrasta, vöxt kartöfluafbrigða, tölur um arfgerð í þorskstofninum...o.s.frv) í opin varðveislusöfn (eins og t.d. Dryad, sem ég held að standi fyrir digital repository for data).

Þetta birtist á nokkra vegu, Bandaríska stofnunin fyrir líftækni upplýsingar (NCBI) leyfir fólki að senda inn gögn af ýmsu tagi. Einnig eru til gagnagrunnar fyrir margvísleg sérhæfðari gagnasett á sviði líffræði, eðlisfræði, stjarnfræði o.s.frv.

Samhliða þessu hefur aukist áherslan á að vísindamenn fái algilda kennitölu, sem þeir geti notað til að auðkenna sín verk í mismunandi gagnagrunnum. Ástæðan er sú að erfitt er að greina milli Jóns Jónssonar líffræðings og Jóns Jónssonar verkfræðings. Um það snýst ORCID (open researcher and contributor ID) verkefnið. Einn af talsmönnum verkefnisins  er íslendingurinn Guðmundur A. Þórisson, sem lauk doktorsprófi frá Háskólanum Leicester. Hann hefur talað fyrir því að fleiri verk vísindamanna, ekki bara ritrýndar greinar séu aðgengilegar í gagnagrunnum. Margir stuðla að framförum með því að skrifa forrit, hanna vinnuferla og setja saman vönduð gagnasett, og það er eðlilegt að þeir hljóti umbun fyrir. Hann hefur hugsað um það hvernig svona breytingar ganga fyrir sig.

Þar skiptir mestu að fá nægilega stórt hlutfall um borð (Það skiptir engu máli þótt að þú búir til sparneytnasta bíl í heimi og leysir orkuþörf mannkyns, ef enginn trúir á lausnina þína og hún situr ónotuð í kjallara íshússins.)

Aukaefni:

Vision, T.J. Open Data and the Social Contract of Scientific Publishing. BioScience 60, 330-330 (2010). http://dx.doi.org/10.1525/bio.2010.60.5.2

Opinn aðgangur - Íslandsdeild.

Vísindadagatalið: Thomas H. Morgan og ávaxtaflugan


Keyptu forfeður okkar heila fyrir garnir?

Stærð heilans er mörgum mönnum hugfólgin. Við stöndum í þeirri meiningu að maðurinn sé komin langt á þróunarbrautinni*, og að heilinn og gáfurnar sem honum fylgi geri okkur að kórónu "sköpunarverksins". En þegar steingervingar manntegunda og mannapa eru...

Stofnun lífvísindaseturs HÍ

Læknadeild Háskóla Íslands er stappfull af líffræðingum. Margir þeirra eru að fást við grunnrannsóknir á líffræði sjúkdóma, frumna og mannsins. Fjölmargir útskrifaðir BS. nemar í líffræði fara líka í framhaldsnám við læknadeild og gera góða hluti....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband