Leita í fréttum mbl.is

Heiðursverðlaun til líffræðinga

Á ráðstefnunni Líffræðirannsóknir á Íslandi sem haldin var 11. og 12. nóvember veitti Líffræðifélag Íslands tveimur íslenskum vísindamönnum heiðursverðlaun. Halldór Þormar fékk viðurkenningu fyrir farsælan feril og Bjarni K. Kristjánsson viðurkenningu fyrir góðan árangur ungs vísindamanns.

halldorthormar_bjarnikristjansson_lr2011_stor_1121793.jpg

 

Líffræðifélag Íslands veitti tvö heiðursverðlaun á líffræðiráðstefnunni 2011. Halldóri Þormar fyrir farsælan feril (til vinstri) og Bjarna K. Kristjánssyni fyrir góðan árangur ungs vísindamanns (til hægri). Ljósmynd Arnar Pálsson, copyright.

 

Halldór Þormar, veirufræðingur og prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu fyrir farsælan feril á sviði líffræðirannsókna. Halldór stundaði góðar rannsóknir á mæði-visnuveirunni eftir að Björn Sigurðsson réð hann til Rannsóknarstöðvar Háskólans að Keldum árið 1957. Þá höfðu mæði og visna herjað á íslenskt sauðfé, og Björn sett fram þá tilgátu að orsakirnar væru hæggengar veirur.

Halldór lýsti, í erindi sem hann hélt á líffræðiráðstefnunni 11. nóvember 2011, rannsóknum sem sýndu að visna væri vegna veirusmits. Í nákvæmum tilraunum smitaði hann kindafrumur í rækt með síuðu floti úr heilum sýktra kinda. Veiruagnir voru einangraðar úr ræktinni og sýnt fram á að þær dugðu til að smita kindurnar aftur af visna. Halldór rifjaði upp þessar tímamótarannsóknir af kímni og hógværð - "hver sem er gat gert þetta" var viðkvæðið. Stjórn Líffræðifélagsins ályktaði hins vegar að ævistarf Halldórs væri veigameira en flestra og hann hlaut því viðurkenningu fyrir farsælan feril á sviði líffræðirannsókna.

Rannsóknir sýndu síðar að mæði og visna eru náskyldar veirur, og þær voru fyrstu fulltrúar hóps veira sem kallaðar eru lentiveirur. Þekktasta veiran í ættkvíslinni er eyðniveiran  (e. Human Immuno Deficiency Virus ) eða HIV-veiran sem uppgötvaðist fyrst í byrjun níunda áratugarins. Nú eru miklar rannsóknir stundaðar á mæði-visnu veirunni á Keldum þar sem hún nýtist til að skilja líffræði HIV og alnæmis.

Halldór Þormar lauk mag. scient. prófi í frumulíffræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1956. Hann stundaði framhaldsnám í veirufræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley 1957-1958 og á þeim árum stundaði hann rannsóknir við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum, 1957-1960 og síðan aftur 1962-1967. Hann hlaut doktorspróf í veirufræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1966. Halldór stundaði um árabil rannsóknir í New York fylki, en sumpart er ferill hans áþekkur ferli heimshornaflakkarans og teiknimyndahetjunnar Tinna. Halldór hefur nefnilega einnig starfað við Cambridge-háskóla og háskóla og stofnanir í Belgíu, Venezúela, Kína og Danmörku. Árið 1986 var hann ráðinn prófessor í frumulíffræði við líffræðiskor Háskóla Íslands, kenndi þar við góðan orðstír og stundaði vandaðar rannsóknir. Síðustu áratugi hefur Halldór kannað áhrif fitu og sápuefna á veirur og aðra sýkla, sem er sérstaklega mikilvægt viðfangsefni nú þegar mannkynið hefur ofnotað hin klassísku sýklalyf. Halldór ritstýrði bók um þetta fræðasvið, sem kom út hjá hinu virta forlagi Wiley í ársbyrjun 2011.

Verðlaunaður fyrir góðan árangur í upphafi vísindastarfa

Stjórn líffræðifélagsins ákvað einnig að heiðra líffræðing sem lokið hefur doktorsprófi á síðustu 5 árum, og þykir hafa byrjað rannsóknaferil af miklum krafti. Bjarni K. Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Hólum hlaut verðlaunin, því hann hefur gert mjög snjallar rannsóknir á sviði vistfræði og þróunarfræði og birt um þær 22 greinar á stuttum ferli. Ein vísbending um dugnað hans er að nú í ár var hann 39 ára gamall skipaður prófessor við Háskólann á Hólum.

Bjarni er útskrifaður Flensborgari og lauk BS-prófi 1994 og fjórðaársverkefni 1997 frá líffræðiskor HÍ. Hann hóf meistaranám við Guelph-háskóla í Kanada undir leiðsögn David Noakes og Skúla Skúlasonar við Hólaskóla. Meistaraprófi lauk hann 2001 og doktorsprófi frá Guelph háskóla 2008. Bjarni hefur stundað rannsónir á fiskum; hrognkelsum, hornsílum og bleikjum eða á matnum sem fiskarnir borða. Bjarni hefur líka gert sér mat úr mat fiskanna, ekki síst með rannsóknum á áður óþekktum grunnvatnsmarflóm. Um að ræða tvær áður óþekktar tegundir, sem hafa þróast í íslensku grunnvatni í milljónir ára og lifað af margar ísaldir. Þessar tegundir geta veitt okkur ómetanlegar upplýsingar um uppruna og þróun lífs á Íslandi og ekki síður uppruna landsins þar sem tilvist þeirra er talin tengjast landreki. Rannsóknirnar voru unnar í samstarfi við Jörund Svavarsson, Snæbjörn Pálsson og Etienne Kornobis við Háskóla Íslands.

Um 250 manns sóttu líffræðiráðstefnuna 2011 þar sem flutt  voru 84 erindi og 77 veggspjöld kynnt. Ágrip erinda og veggspjalda má lesa á vefsíðu ráðstefnunar (lif.gresjan.is/2011). Ráðstefnan var studd af Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, Íslenskri erfðagreiningu, Gróco ehf, Mennta og menningarmálaráðaneytinu og fleiri aðillum (sjá einnig biologia.hi.is)


Konungsríki refa og vellandi spóar

 

Tveir af framhaldsnemum í líffræði birtust í fjölmiðlum í þessari viku

Bæjarins besta ræddi fyrir helgi við Ester Rut Unnsteinsdóttir forstöðumann Melrakkaseturs og doktorsnema í líffræði. Hér birtast bútar úr viðtalinu.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Melrakkaseturs í Súðavík segir tófurnar á Hornströndum spila stórt hlutverk í starfsemi Melrakkaseturs. „Hornstrandir eru algjört konungsríki refa og fugla, þá meina ég refa og fugla, ekki bara refa eins og sumir vilja halda fram. Þetta er mjög sérstakt svæði og ekki til mörg slík í heiminum þar sem náttúran fær algerlega að njóta sín og hafa sinn gang.

..

Í viðtalinu segir hún m.a. frá tilurð setursins og hvernig það bjargaði sögufrægu húsi var bjargað frá niðurníðslu. Melrakkasetrið opnaði fyrir tveimur árum og starfsemin eflist stöðugt. Hlutafélagið í kringum Melrakkasetrið var hins vegar stofnað í september 2007. „Þetta er svokallað „non-profit“ hlutafélag og það verður aldrei greiddur ágóði til eigenda heldur fer hann allur í uppbyggingu setursins. Uppleggið var rannsókna- og fræðasetur með sýningu og kaffihúsi. Það komu 42 hluthafar á fundinn og keyptu hlut og tóku þátt í að stofna fyrirtækið. Það þótti mér mjög vænt um þar sem ég er utanaðkomandi og sérfræðingur að sunnan og allt það. Það var mjög mikilvægt að fá þennan meðbyr frá heimamönnum, sveitarfélögunum í kring og fólki í ferðaþjónustu á svæðinu.“ 

Borgný Katrínardóttir hefur stundað rannsóknir á líffræði spóans undanfarin ár. Í sjónvarpsþættinum fjarsjóður framtíðar var fjallað um rannsóknirnar:

Rannsóknir Borgnýjar snúast um vistfræði hálfgróinna áreyra en markmið þeirra er að meta mikilvægi slíks landsvæðis fyrir heimsstofn spóans. „Helmingur allra spóa í heiminum verpir á Íslandi og hvergi þéttar en á hálfgrónum áreyrum,“ segir Borgný. „Slík búsvæði eru víðáttumest hérna á Suðurlandi og finnast víða þar sem ár flæða öðru hverju yfir bakka sína og halda gróðurframvindu niðri.“ Borgný segir að hálfgróin svæði meðfram ám séu víða á undanhaldi, meðal annars vegna stýringar vatnsfalla, bráðnunar jökla og landnáms lúpínu.


Hröð aðlögun að þunnu lofti

Þegar stofnar lenda í nýjum aðstæðum, t.d. flytjast af láglendi upp í hæstu fjallgarða, þá verða þeir fyrir nýjum vaþrýstingi. Arfgerðir sem áður voru hagstæðar eða amk hlutlausar geta reynst skaðlegar við nýjar aðstæður. Sú var raunin þegar forfeður...

Býst alltaf við hinu besta

Persónuleikar fólks eru sannarlega mismunandi. Ég veit ekki hvernig persónuleikar þroskast eða mótast eða hvort þeir séu að töluverðu leiti tilkomnir vegna erfða. Hitt er víst að sumir eru mjög jákvæðir en aðrir búast alltaf við hinu versta. Væntingar...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband