Leita í fréttum mbl.is

Traust á vísindalegum niðurstöðum

Læknisfræðin eru raunvísindi, í þeim skilningi að settar eru fram tilgátur, þær prófaðar og metnar. Þekking okkar á eðli sjúkdóma er sífellt að aukast, vegna vísindalegra rannsókna á smitberum, sjúklingum, umhverfisþáttum og erfðum. Á sama hátt reyna heilbrigðisvísindamenn og líffræðingar að finna leiðir til að meðhöndla sjúkdóma, lækna eða a.m.k. milda einkenni þeirra. Ný meðferðarúrræði eða lyf þarf alltaf að meta með hliðsjón af bestu fáanlega meðferð. Það skiptir engu þótt ný meðferð sé betri en læknisfræði nítjándu aldar, mið verður að taka af stöðu dagsins í dag.

Lyfjafyrirtækin þurfa að fá leyfi fyrir því að markaðssetja ný lyf, eða gömul lyf sem svar við öðrum sjúkdómum. Til þess að meta notagildi lyfja er framkvæmd lyfjapróf, þar sem eiginleikar lyfjanna eru kannaðir og svörun sjúklinga við þeim. Slík lyfjapróf eru mjög fjárfrek, enda er sterk krafa um að einungis nothæf lyf séu sett á markað og að aukaverkanirnar séu litlar (eða ásættanlegar).

Því miður er að koma í ljós að lyfjafyrirtæki hafa stundað margskonar bellibrögð til þess að fegra niðurstöður lyfjaprófa og markaðsset lyf sem annað hvort virka illa eða hafa alvarlegar aukaverkanir. Þetta er einna skýrast í tilfelli geðlæknisfræðinnar. Steindór J. Erlingsson hefur skrifað ítarlega um þessi mál á undanförnum tveimur árum. Nú fyrir helgi birtist grein eftir hann á Pressunni, þar sem hann reifar þessi svik lyfjafyrirtækjanna og meðvirkni læknasamfélagsins. Hann vísar í leiðara British Medical Journal, sem vill "endurvekja trúna á fyrirliggjandi vísindagögn“ í læknisfræðinni. Úr grein Steindórs:

Rannsóknir hafa leitt í ljós að lyfjapróf sem fjármögnuð eru af lyfjafyrirtækjum (í dag eru rúmlega 70% af lyfjaprófum fjármöguð af þeim) eru mun líklegri til þess að sýna marktækan mun á lyfi og lyfleysu eða samkeppnislyfi en þegar þau eru fjármögnuð af óháðum aðilum. Vandamálið snýst um að lyfjafyrirtækin halda öllum gögnum, takmarka þannig aðgang rannsakenda að þeim og láta oft „draugahöfunda“ skrifa vísindagreinar.

Ein alvarlegasta birtingarmynd þessa er þegar lyfjafyrirtæki birta ekki niðurstöður neikvæðra lyfjaprófa eða birta þau sem „jákvæð“. Með þessu móti er dregin upp röng mynd af mögulegri virkni lyfja. Þessari aðferð hefur verið beitt við markaðssetningu ýmissa þunglyndislyfja sem komið hafa á markað á undanförnum rúmum tuttugu árum.....

Af framansögðu má ljóst vera að læknar hafa ekki síður en sjúklingar verið blekktir. Þeir geta hins vegar ekki fríað sig ábyrgð. Í bók lífsiðfræðingsins Carls Elliott, White Coat, Black Hat: Adventures on the Dark Side of Medicine (2010), er fjallað um þennan vanda sem læknisfræðin stendur frammi fyrir. Eitt af því sem hann gerir að umtalsefni eru samskipti lækna við lyfjaiðnaðinn. Elliott segir læknasamfélagið hafa deilt áratugum saman um hvort auglýsingar, gjafir, námsferðir eða önnur hlunnindi sem lyfjaiðnaðurinn og fulltrúar hans láta læknum í té hafi áhrif á lyfjaávísanir þeirra. Í dag liggur hins vegar ljóst fyrir að þessi samskipti hafa oft bein áhrif á hvernig og hvaða lyfjum læknar ávísa, enda segir Elliott endurteknar rannsóknar hafa staðfest þetta.

Í ljósi þess sem fram hefur komið þá hlýt ég að spyrja:

Af hverju halda læknar áfram að eiga bein samskipti við fulltrúa lyfjaiðnaðarins?

Af hverju leyfði Geðlæknafélag Íslands fulltrúum lyfjaiðnaðarins að sitja fyrir gestum á vísindaþingi félagsins í vor?

Af hverju tóku íslenskir geðlæknar þátt í skipulagningu fundar í vor þar sem til stóð að fulltrúi lyfjafyrirtækisins Pfizer, framleiðandi hins rándýra kvíðalyfs Lyrica, gagnrýndi eldri gerðir kvíðalyfja? Er það eðlilegt að lyfjaiðnaðurinn borgi með auglýsingum rúmlega 90% af rekstarkostnaði Læknablaðsins?

Þetta þykja mér mjög eðlilegar spurningar. Læknar og fræðimenn verða að verja orðspor sitt - og það er best gert með því að forðast mögulega hagsmunaárekstra. Lyfjafyrirtækin vita að styrkir til lækna - til að fara á ráðstefnur eða vinnufundi - skila sér í meiri ávísunum og meiri tekjum.

Það er erfiðara að meta áhrif lyfjarisa á heil vísindasamfélög, t.d. í gegnum auglýsingar í fagtímaritum, styrki við ákveðnar stofnanir og fundi. Við í stjórn líffræðifélagsins þáðum t.d. styrki frá Gróco, Alcoa, Orf líftækni og Landsvirkjun, til að halda Líffræðiráðstefnuna 2009, en það er mér finnst ólíklegt að það hafi bein áhrif á rannsóknir þeirra vísindamanna sem sóttu ráðstefnuna.


Íslenskar rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni

 

Sameinuðu þjóðirnar helguðu árið 2010 líffræðilegri fjölbreytni (biodiversity). Af þessu tilefni standa Líffræðifélag Íslands og Vistfræðifélag Íslands fyrir ráðstefnu um rannsóknir á eðli, tilurð og verndun líffræðilegrar fjölbreytni þann 27. nóvember 2010. Ráðstefnan verður haldin í Norræna Húsinu og Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ.

biodiv2010.pngDagskráin stendur frá 9:00 til 18:30, boðið verður upp á yfirlitserindi, styttri fyrirlestra og veggspjaldakynningu (frá 17:00 til 18:30 í Öskju).

Ég vil vekja sérstaka athygli á tveimur yfirlitserindum.

Ástþór Gíslason, við Hafrannsóknarstofnun, mun fjalla um líffræðileg fjölbreytni og nýlegar rannsóknir á henni á Mið-Atlantshafshryggnum (Kl. 9.15).

Simon Jeffrey, sem vinnur við Samevrópska jarðvegsstofnun í Ipsa á Ítalíu mun kynna verkefni sem kortleggur líffræðilega fjölbreytni í jarðvegi (European Atlas of Soil Biodiversity - Kl. 13.15)

Meðal annars efnis á ráðstefnunni eru fyrirlestrar um:

Líffræðileg fjölbreytni kóralsvæða við Ísland
Áhrif skógræktar á tegundaauðgi planta, dýra og sveppa
Fjölbreytt gróðurfar í ræktuðu túni gaf meira fóður og dró úr illgresi
Verndun líffræðilegrar fjölbreytni: mikilvægi vist- og þróunarfræðilegra ferla
Fjölbreytileiki íslenskra hornsíla
Myndun afbrigða í Þingvallableikjunni
Duldar tegundir ferskvatnsmarflóa sem lifðu af ísöld


Ráðstefnan er öllum opin, en rukkaðar eru 500 kr. fyrir kostnaði. Ókeypis er fyrir nemendur.  Nánari dagskrá og ágrip erinda má sjá á vefsíðum Líffræðifélags Íslands (Biologia.hi.is) og Vistfræðifélags Íslands (vistis.wordpress.com).


Fuglaáhugamenn eru flottastir

Þegar ég kom í líffræði þekkti ég kannski 10-15 tegundir fugla. Í árganginum mínum voru engir forfallnir fuglaáhugamenn, en einn slíkur kenndi okkur hryggdýr. Arnþór Garðarsson hefur alla tíð heillast af fuglum, birti sína fyrstu grein 17 ára gamall og...

Erindi: Eric Lander

Einn af þeim vísindamönnum sem stóðu fyrir raðgreiningu á erfðamengi mannsins, Eric Lander, mun halda erindi þriðjudaginn 23 nóvember kl 10:00. Fyrirlesturinn verður í húsnæði Íslenskrar Erfðagreiningar, að Sturlugötu 8. Úr tilkynningu : Dr. Lander gekk...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband