Leita í fréttum mbl.is

Samskipti lyfjafyrirtækja og lækna

Ég vil benda ykkur á framvindu máls. Skrifum Steindórs J. Erlingssonar um notaleg samskipti lyfjafyrirtækja og lækna hafa undið upp á sig. Úr fyrri pistli (Traust á vísindalegum niðurstöðum).

Því miður er að koma í ljós að lyfjafyrirtæki hafa stundað margskonar bellibrögð til þess að fegra niðurstöður lyfjaprófa og markaðsset lyf sem annað hvort virka illa eða hafa alvarlegar aukaverkanir. Þetta er einna skýrast í tilfelli geðlæknisfræðinnar. Steindór J. Erlingsson hefur skrifað ítarlega um þessi mál á undanförnum tveimur árum. Nú fyrir helgi birtist grein eftir hann á Pressunni, þar sem hann reifar þessi svik lyfjafyrirtækjanna og meðvirkni læknasamfélagsins. 

Morgunblaðið tók grein Steindórs í Pressunni (Ég er reiður) upp á sína arma - FLOTT hjá þeim - birti fréttaskýringu og fylgdi málinu eftir með viðtali við Landlækni, forstjóra Lyfjastofnunar og formann Læknafélagsins.

„Almennt eru læknar meðvitaðir um faglegar skyldur sínar og gagnvart samfélaginu,“ segir Geir [Gunnarsson landlæknir]. „Læknafélagið hefur sett ákveðnar reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja, en ég get ekki dæmt um hvort það er fullnægjandi. Læknar hafa farið í ferðir á kostnað lyfjafyrirtækja og mér finnst almennt að læknar eigi að vera á varðbergi gagnvart slíku, en við getum ekki bannað fólki að fara í slíkar ferðir. Oft eru þær skipulagðar til að afla frekari þekkingar á sérsviði viðkomandi læknis og í öðrum tilvikum er um hópa að ræða, sem eru taldir mikilvægir fyrir viðkomandi flokk sjúkdóma. [Feitletrun AP]

Getum við ekki bannað læknum að láta múta sér? Kannski er best að sjúklingar spyrji lækninn sinn.

  • Ertu viss um að þetta sé besta lyfið í stöðunni?
  • Hefur þú þegið málsverð, gjafir, ráðstefnuflugfargjald og með því frá framleiðanda(dreifingaraðilla) lyfsins sem þú vilt láta mig taka?

Úr frétt Morgunblaðsins (3 desember 2010) Siðareglurnar settar til að verjast áhrifum

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir að Evrópusamtök lækna hafi sett sér reglur um hvernig samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja skuli háttað. Einnig sé slíkt ákvæði í siðareglum lækna. En hvað hefur Birna að segja um að læknar verði fyrir miklum áhrifum af lyfjakynningum sem gjarnan feli í sér boðsferðir og önnur hlunnindi? „Það er svo mörgu haldið fram. Ég hef ekki þurft að taka á málum þar sem samskipti lækna og lyfjafyrirtækja hafa verið óeðlileg. En auðvitað hefur margt breyst frá því sem áður var og það er ástæða fyrir því að settar voru reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja.“  

Siðareglur duga ekki, það þarf betri verklagsreglur um framkvæmd lyfjaprófa. Ben Goldacre hefur skrifað um þetta mál af mikilli yfirsýn. Kröfurnar eru eftirfarandi.

1. Lyfjafyrirtæki tilgreini FYRIRFRAM hvaða breytur á að skoða í hverju tilteknu lyfjaprófi. Það er því miður landlægt vandamál að lyfjafyrirtæki hefji leik með eina rannsóknaspurningu, en skipti síðan um spurningu í miðju sundi (líklega vegna þess að fyrstu niðurstöður reyndust þeim ekki hentugar). Það er mjög algengt að lyfjafyrirtækin leggi áherslu á jákvæð áhrif lyfs á skyldan þátt, en EKKI sjúkdóminn sjálfann (líklega vegna þess að lyfið hefur ekki merkjanleg áhrif á sjúkdóminn!).

2. Allar niðurstöður lyfjaprófa verði færðar í opinbera gagnagrunna. Þetta er til þess að hlutlausir aðillar geti greint frumgögnin og metið rannsóknatilgátur algerlega hlutlægt. Ef fyrirtækið þitt hefur fjárfest 100 milljón dollara í einhverri pillu, er erfitt fyrir þig að mæta á fund og segja að það virki ekki!

3. Upplýsingum um lyfjapróf sem hætt er við verður líka að setja í opinbera gagnagrunna. Þetta getur afhjúpað aukaverkanir og hliðareinkenni sem lyfjafyrirtækin stinga of oft undir stól. Sagan kennir okkur að flestir stóru lyfjarisanna hafa stungið niðurstöðum undir stól, til að verja markaðshluteild og sölu (en ekki líf sjúklinga).

Það dugir ekki að vísa í siðareglur og setja upp svip heilagleikans. Áhrif lyfjafyrirtækjanna eru of mikil, og angar þeirra teygja sig víða. Þau nota skuggapenna til að lofa vörurnar sínar og fengu Elsevier til að búa til "platvísindatímarit" til að markaðssetja lyf. Eins og í bankahruninu, getur venjulegt fólk ekki varið sig með siðgæðinu einu.


Gammapróteobaktería og sameiginlegur forföður

VIÐBÓT - síðan þessi grein var skrifuð hefur komið í ljós að niðurstöðurnar er ekki mjög áreiðanlegar. Lesist með varúð, sjá umræðu og tengla neðst.

------------------------

Í mörgum ættum finnast hörkutól, sem synda á hverjum degi út í Viðey með ískáp á bakinu, bryðja rauðvínsglös, nota yakuxaþvag sem munnskol og fara með kærustuna í Smáralind á útborgunardaginn.

Meðal baktería finnast mörg slík hörkutól. Í sumum bakteríuættum finnast gerlar sem lifa á brennisteinsvetni á mörg þúsund metra dýpi, á meðan aðrar tegundir dafna í 100 gráðu heitum hver, við frostmark undir ís á suðurskautinu eða í baneitruðu affalli koparnáma. Slíkar bakteríur eru kallaðar extremophiles upp á engilsaxnesku, og þekkjast sem hitakærar, ofurhitakærar, kuldakærar á íslensku eftir atvikum (sjá vísindavefinn).

Felise Wolfe-Simon og félagar hafa verið að rannsaka líf í Mono vatni í Kaliforníu, sem er tvisvar sinnum* saltara en sjórinn og með umtalsverðan styrk af arseniki. Arsenik er þekkt sem eitur, þótt vitanlega séu til einstaklingar sem hafna þeirri kenningu og lýsa sig sem arsenik-efasemdamenn eða fylgismenn vitrænnar-arsenik-hönnunar (og sjá trúar sinnar vegna ekkert slæmt við frumefnið). Arsenik er í alvörunni hættulegt vegna þess að það getur komið í stað fosfórs í byggingareiningum frumunar. Flestar lífverur þola ekki arsenik, líklega vegna þess að einhverjar stórsameindir aflagast eða hætta að virka þegar arsenik-berandi byggingareiningar koma í stað hefðbundinna fosfórs-berandi byggingareininga. Í frumunni er fosfór notaður í margar stórsameindir - sú frægasta er örugglega DNAið, en burðarsúlur DNA gormsins innihalda einmitt fosfór.

Rannsóknin sem kynnt var á fréttamannafundi í gær sýnir að undantekningar eru til frá þessari reglu. Wolfe-Simon og félagar fundu bakteríu (af ætt Gammapróteóbaktería) sem getur skipt fósfór út fyrir arsenik (allavega að einhverju leyti). Vísindamennirnir sýndu að stofnar sem fengu bara arsenik en ekki fosfat gátu lifað og fjölgað sér. Þeir sýndu líka arsenikið innlimast í stórsameindir í frumunum, prótín, fitur og DNAið sjálft. Að auki sáust í frumunum stórar blöðrur, sem innihalda arsenik efnasambönd. Þessi bakteríustofn er því dæmi um eitt mesta hörkutól lífheimsins, en ekki er ástæða til að álykta að "að lífið hafi ekki þróast frá einum sameiginlegum forföður." (eins og stendur í frétt mbl.is). Sbr. New York Times:

Gerald Joyce, a chemist and molecular biologist at the Scripps Research Institute in La Jolla, Calif., said the work “shows in principle that you could have a different form of life,” but noted that even these bacteria are affixed to the same tree of life as the rest of us, like the extremophiles that exist in ocean vents. 

Athuga bera að það er ekki eins og arsenikið komi alveg í staðinn fyrir fosfórinn. Bakterían vex hraðar þegar hún fær fósfór í matinn í stað arseniks. Það verður gaman að vita hvort hún komist af á arseniki einu saman. Mér þykir það ólíklegt. Við erum að horfa á hetju að bryðja rauðvínsglas ekki Yoda.

----------------------

VIÐBÓT NÓVEMBER 2012.

Hans G. Þormar skrifaði grein í Fréttablaðið (svona vinna vísindin) og benti á að fjölmargar athugasemdir hafa verið gerðar við þessa rannsókn, og allavega ein önnur rannsókn gengur í berhhögg við hana (Reaves ML, et al. Absence of Detectable Arsenate in DNA from Arsenate-Grown GFAJ-1 Cells. Science. 2012;337(6093):470-3.).

Sjá upprunalega ágripið og tengla á athugasemdir t.d. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/21127214

 --------------

Ítarefni

A Bacterium That Can Grow by Using Arsenic Instead of Phosphorus Felisa Wolfe-Simon o.fl. Science DOI: 10.1126/science.1197258

PZ Myers It's not an arsenic-based life form

NY Times. Dennis Overbye Microbe Finds Arsenic Tasty; Redefines Life

Leiðrétting.

Í fyrstu útgáfu stóð helmingi saltara en sjórinn, rétt er að vatnið er tvisvar sinnum saltara en sjórinn. Þorvaldi er þökkuð ábendingin.


mbl.is Áður óþekkt lífgerð fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfleifð Darwin: Uppruni lífsins

Það er allt að verða vitlaust í vísindabloggheimum út af tilkynningu NASA um fréttamannafundinn í kvöld, um merka uppgötvun í stjarnlíffræði. Lykilvísindamaðurinn í hópnum Felisa Wolfe -Simon (einnig kölluð járn Lísa www.ironlisa.com) hefur verið að...

Það hófst allt með frumdýri...

Elisabeth Blackburn velti fyrir sér hvernig litningaendar eru eiginlega varðveittir í frumum við skiptingar. Það leiddi hana að frumdýrinu Tetrahymena sem er einnar frumu lífvera með mikinn rekstur. Þessi frumdýr eru í raun þykjustu fjölfrumungar. Þeir...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband