Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Ómótstæðilegt, tælandi, eyðileggjandi...

Ég er fíkill.

 

Þú notar sama dóp og ég.

 

Dópið mitt er mjög algengt nútildags, en var eiginlega ekki til fyrir tveimur áratugum.

 

Dópið hefur nokkur nöfn og ólíkar birtingarmyndir, en við þekkjum það sem snjallsíma, tölvupóst, netið, tölvuleiki og samskiptamiðla.

 

„Nei hættu nú alveg“ gæti einhver sagt, „netnotkun er eðlilegur hluti af lífi nútímamannsins, fíklar nota lyf eða eiturlyf – en ekki tölvupóst!“

 

Samfélagið hefur sagt okkur að fíkn sé bara fyrir einhver úrhrök sem ánetjast eiturlyfjum eða lyfjum. Þau séu skemmd eða gölluð, en við hin séu heilbrigð. Að við getum ekki orðið fíklar. En fíkn ræðst ekki bara af svörun einstaklinga við dópinu, heldur einnig af framboði og eiginleikum þess.

 

Fíkn er fíkn, sama hvort hún sé í eiturlyf eða snjallsíma. Sannarlega er eiturlyfjafíkn meira skaðleg fyrir líkama sál, en fjöldinn sem þjáist af netfíkn er mun meiri. Og það sem verra er, við bjóðum börnum okkar upp dópið algerlega bláeyg, óvitandi um hvernig það getur raskað þroskun persónuleika þess, félagsfærni, líkamlegs atgervis og þar með framtíðarhorfum. Við erum að ala upp kynslóð af símadraugum, fólk sem vafrar um mannheima starandi á bláan skjá í hönd sér.

 

Kvikmynd Wim Wenders - Until the end of the world, sá þetta algerlega fyrir. Þar uppgötvar einhver vísindamaður leið til að skrá drauma fólks, og gera þá sýnilega í litlum handtölvum. Fólk varð algerlega heillað af því að horfa á sína eigin drauma. Þau vöfruðu um eyðimörkina með skjá í hendinni og hirtu ekkert um annað fólk (eða sjálfan sig). Og þegar þau voru búin að horfa á drauma næturnar flýttu þau sér að sofa meira til að geta tekið upp næsta draum.

 

Ég er fíkill

 

í tölvupóst – tómt inbox....vonlaust verkefni.

 

Í samskiptaforrit, twitter og blog (sbr þennan pistil).

 

Svörunin sem maður fær, losun á dópamíni í kollinum er ansi notaleg. Alter lýsir þessu við gleðina sem börn fá við að ýta á takka í lyftu, þú ýtir á takka og ljós birtist bak við töluna. Hann segir frá því að hafa stigið inn í lyftu, og 5 ára barn hafi ljómað eins og sólin. Drengurinn hafi ýtt á takkana fyrir allar hæðirnar. Hann losaði dópamín í hvert skipti sem hann ýtti á takka, og varð mjög glaður. En hann var ekki betur settur. Sama brella er notuð í skemmtigörðum heimsins, ljós, dingl, skemmtilegt lag. Og vitanlega í öllum leikjunum og smáforritunum sem soga tíma okkar og orku til sín.

Vinsamlegast lesið rólega en deilið ekki ;)

 

Pistillinn er innblásinn af bók Adams Alter - Irresistible.

http://adamalterauthor.com/irresistible/

Arnar Pálsson 16. júní 2015 Orð á bók og skjá


Hvurslag, hvurslags - aðdáunarverðir smáglæpir

Hann hékk fram af bjargi í stormi og rýndi niður í iðurótið. Fyrst hafði hann bölsóttast yfir fólk sem hendir rusli í fjöruna, en síðan læddist að honum önnur hugsun. Gamli kallinn í sögunni rekald er jafnt kunnuglegur og auðskilinn, sem dulur og framandi.

Hversu stórar hugmyndir rúmast í hverri sögu? Sérstaklega ef hún telst smásaga? Hversu flókin getur atburðarásin eða persónusköpunin verið í 5000 orðum? Eins og svo margt í bókum, veltur þetta allt á skáldinu.

Smáglæpir-KÁPA-FRAMAN-2-2

Nýlega naut ég þeirrar blessunar að lesa smásagnasafn eftir Björn Halldórsson, sem kallast smáglæpir. Sögurnar eru fjölbreyttar að viðfangsefnum og persónum, ritaðar frá vinkli barna, fullorðinna og eldra fólks. Í fyrstu sögunni segir stúlka, nýflutt í framandi hverfi, frá því þegar hún kynnist dreng sem vill endilega fleygja sjónvarpi. Úr mikilli hæð. Þetta er ekki kviða um rokk og ról, heldur frekar saga um fyrstu kynni og hvernig vinátta getur myndast um leyndarmál. Sögurnar eru líka misjafnar hvað varðar viðfangsefni, en mögulega er hið ósagða sameiginlegur þráður þeirra allra. Sem er reyndar saga samskipta okkar í hnotskurn. Mér líkaði sérstaklega vel við söguna marglyttu, sem einnig er rituð frá sjónarhóli barns. Þar er lýst samskiptum tveggja fjölskylda á sólarströnd, á mjög kröftugan og meitlaðan hátt. Björn hefur greinilega gott vald á persónusköpun, getur spunnið sögur og kryddað þær vel. Skáldið hfur ágætt vald á málinu og lesningin er bæði þægileg og örvandi. Inn á milli leiftra setningar af ljóðrænu, sem gætu jafnvel staðið óstuddar. Smáglæpir eru fjölbreytt og spennandi lesning, og það verður gaman að sjá hvað Björn skrifar næst.

 


Það hafa alltaf búið Starkadderar á Kalsælustað...

Bærinn hokinn af elli og vanrækslu hangir utan í ás í Sussex. Starkadder fjölskyldan hefur búið þar í aldir, samanber einkennisorð ættarinnar, "það hafa alltaf búið Starkadderar á Kalsælustað". Yfir Kalsælustað (Cold comfort farm) ríkir ættmóðirin, Aða Dóms frænka (Aunt Ada Doom). Hún er sérlynd, mannfælin, langrækin fýlustjórnandi, sem heldur ættmennum sínum í spennutreyju ótta og ættrækni. Allir vita að ef þeir ígrunda brottflutning þá muni Aða tjúllast endanlega, og enginn þorir að bera ábyrgð á því. Ef viðkvæm mál koma til umræðu, bregður hún fyrir sig trompi. Hún segir drafandi kuldalegri röddu, "ég sá eitthvað skelfilegt í eldiviðarskúrnum..." (i saw something nasty in the woodshed). Enginn hefur minnstu hugmynd um hvað það var en setningin dugar til að slá öll mál og rök út af borðinu.

Aða Dóms er ekki eina litríka persónan á Kalsælustöðum, einnig má minnst á Amos eldklerk, Adam Lambadrátt (Lambsbreath), heimasætuna ljóðelsku Elfine og frú Bjöllu, jarðbundnu heimilishjálpina. Persónur þessar eru sköpunarverk enska rithöfundarins Stellu Gibbons. Cold comfort farm sem kom út 1932 var fyrsta bók hennar, og segir sögu af ungri konu Flóru Poste sem við fráfall foreldra sinna, þarf að flytja til fjarskyldra ættingja í sveitinni. Á bænum er allt í niðurníðslu eða andlegum lás. Nöfn kúnna, Graceless, Aimless, Feckless, og Pointless, endurspegla ástandið ágætlega.

Samkvæmt bókarýnendum The guardian er þetta eina af 100 bestu ensku bókum síðustu aldar. Ég las hana aftur nú í vor, og kunni ágætlega við. Hún er hugvekjandi, en að mestu meinlaus. Skrifuð lipurlega og með ágætri framvindu. Frú Gibbons æfði stíl sinn á því að skrifa fyrir blöð, en leyfir sér einnig ljóðrænu á köflum og galsalega nýyrðasmíð. Bókin er almennt þekkt sem gamansaga, eða háðsádeila á rómantísk skrif þessa tíma, en hefur einnig traustann undirtón. Sterk ung kvenpersóna kemur í nýjar aðstæður, og reynir að hafa jákvæð áhrif á líf fólks, þrátt fyrir ægivald ættmóðurinnar.

92780Það má alveg deila um hvað sé heppilegasta þýðingin á Cold comfort farm. Ég lék mér með nokkur tilbrigði, Frostnotastaði, Kaldalónsbæ, Frostsælushól, Kuldanotastaður...en skorti andríki fröken Gibbons.

Robert McCrum The 100 best novels: No 57 – Cold Comfort Farm by Stella Gibbons (1932)


Ég er bókafíkill

Í einn bók um Viggó Viðutan er mynd af honum sofandi í gríðarlegum póst, skjala og bókahelli. Hann lítur út eins og björn í Híði, samt meinlaus og friðsæll í skjólinu og alsæll í draumórum sínum.

Stundum líður mér þannig, í skrifstofu með háum fullum bókaskápum, pappírsbunkum á tvo vegu og daufa skímu í gegnum vetrarmyrkrið. Vitanlega vinn ég með fólki, sem áþekkt Val og hinum á skrifstofunni hjá tímaritinu Sval, eru sífellt að ónáða mann með kvabbi um óunnin verk eða fyrirlestra sem þarf að flytja. En þess á milli nýtur maður þess að glugga í góða bók eða fletta spennandi grein, og tvinna saman nýjar hugmyndir eða prófa gamlar. Bókastaflar myndast ekki af sjálfu sér, maður fær að labba upp í Iðu, Eymundson eða Bóksölu stúdenta (sem er með útsölu núna á erlendum bókum!!!) til þess að þjónusta hillurnar. Bara í gær fann ég bók eftir Eric Larson, in the garden of Beasts. Hún fjallar um sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi og fjölskyldu hans, á árunum rétt fyrir seinni heimsstyrjöld.

Larson þessi (óskyldur skrípóteiknaranum dásamlega) skrifar sagnfræðilega texta, hann nýtir dagbækur og bréf til að kanna hugarástand og líf fólks á lykilstundum í mannkynssögunni. Í þessari bók er fjallað um uppgang nasismans í Þýskalandi, þar sem óþol gagnvart minnihlutahópum og útlendingum var magnað upp af valdaklíku sem samfélagið hafði ekki burði til að spyrna við og stöðva. Við vitum öll (vonandi) hvað gerðist í Þýskalandi fyrir og í seinna stríði, en okkur er holt að átta okkur á því að á árunum þar á undan var Þýskaland venjulegt vesturland. Svipað óþol og fordómar heyrast nú oftar á vesturlöndum, ekki síst tengt umræðu um flóttamenn.

Eina bók hef ég lesið eftir Larson, sem kallast Devil in the white city. Hún tvinnar saman sögu aðalhönnuðarins sem stóð að Heimssýningunni í Chicago 1893 og raðmorðinga sem þreifst í grautarpotti stórborgarinnar. Sú bók var sérlega vel lukkuð, og vona ég að dýragarðurinn sé áþekkur.

Það var ekki ætlunin að játa á sig fíknina, til þess að afneita henni. Ég verð áfram bókafíkill, og ætla meira að segja að lesa a.m.k. helming bókanna sem ég kaupi.


Hin mörgu andlit Plágunar og snilld Alberts Camus

Pestir herja á manninn. Við þekkjum öll nöfn á plágunni, fuglaflensa, ebóla, berklar eða alnæmis-veiran. En plágurnar eru fleiri, og margar nafnlausar eða torsýnilegar.

Ein leið til að kanna þetta viðfangsefni er að lesa gott skáldverk.

Plágan eftir Albert Camus er slík bók.

Eiríkur Guðmundsson sagði frá skáldsögunni og skáldinu í Víðsjá 8. janúar (mínútur 1-10), og studdist við nýlega grein í eftir Ed Vulliamy í The guardian.

Plágan segir frá farsótt sem leggst á Alsírsku borgina Oran snemma á síðustu öld. Hún er gluggi á mannlegt samfélag, og hvernig það bregst við þegar farsótt slær sér niður.

Það er mikilvægt fyrir okkur að muna sögu sóttanna, þótt tilvist okkar nú sé ljúf og auðveld. Fyrr á öldum, síðast árið 1918, geisuðu skelfilegir faraldrar sem drógu milljónir manna til dauða. Aðferðir til að berjast við sóttir voru yfirleitt nokkuð einfaldar, og miðuðu aðallega að líkna sjúkum og einangrun. Albert Camus lýsti dæmum um slíka baráttu í plágunni (frá 1948) þar sem íbúar Oran eru lokaðir inni í borginni í næstum því heilt ár á meðan sóttin geisar. Hreinlæti og einangrun voru einu aðferðirnar sem voru í boði þá, og sermið sem þeir beittu gegn pestinni virkaði ekki fyrr en hún var farin að ganga sér til húðar. Camus lýsir baráttu læknanna og angist íbúanna, sem tærast upp bæði líkamlega og andlega í einangruninni. (AP, eldri pistill)

En bókin fjallar ekki síður um það hvernig menn takast á við einangrun, skerðingu frelsis og mannlegar hamfarir. Camus skrifaði bókina á stríðsárunum, í hernumdu Frakklandi. Persónur bókarinnar upplifa það sama og íbúar Evrópu undir hernámi Þjóðverja. Sumir breytast í svefngengla, nokkrir blómstra undir nýju skipulagi en aðrir troða marvaðan og reyna að halda samfélaginu á floti, og berjast við pestina/kúgunina.

Camus sagði í Nóbelsverðlaunaræðu sinni að "Það væri í senn heiður og byrði rithöfundarins að gera mun meira en það að skrifa."

Hann vildi að rithöfundar og fólk almennt, tæki fullan þátt í samfélaginu og að berjast gegn plágum, bæði líffræðilegum og samfélagslegum.

Fyrir skemmstu las ég hálfgerða ævisögu um Camus, og góðvin hans Jacques L. Monod. Bókin kallast Snilldarhetjur (Brave genius) og er eftir þróunarfræðinginn Sean. B. Carroll.

Í bókinni tvinnar Carroll saman ævi þessara félaga, og afrek þeirra í seinna stríði og sínu fagi. Báðir voru virkir í andspyrnuhreyfingunni í hinu hernumda Frakklandi. Camus skrifaði fyrir hið bannaða tímarit Combat, og blés löndum sínum von og baráttuanda í brjóst. Monod, vann að rannsóknum við Sorbonne háskóla að degi til, en skipulagði starf andspyrnuhreyfingarinnar á Parísarsvæðinu á kvöldin.

Þeir Camus og Monod kynntust eftir stríð og tókst mikill kærleikur með þeim. Lífsýn Monods var skyld heimspeki Camus. Monod setur hina nýju líffræði gena og sameinda í heimspekilegt samhengi í bók sinni Tilviljun og nauðsyn, sem kom út 1970. Þar segir Monod m.a.

Loks veit maðurinn að hann er einn í óravíðum afskiptalausum alheimi þar sem hann kom fram fyrir tilviljun. Hvorki skyldur hans né örlög hafa nokkurstaðar verið skráð. Hans er að velja milli konungsríkisins og myrkranna.

Ítarefni:

Ed Vulliamy The Guardian 5. janúar.   Albert Camus' The Plague: a story for our, and all, times


mbl.is Óttast útbreiðslu fuglaflensu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkið mitt og fleiri dýr, eins og Gerry Durrell

Sem barn flutti Gerald Durrel með móður sinni og systkynum til grísku eyjunar Korfú. Þar kynntist hann ekki bara menningu miðjarðarhafslandanna, heldur einnig náttúru þeirra. Gerald hafði sérstakan áhuga á dýrum og náttúru eyjarinnar. Þegar hann komst til manns ritaði hann þrjár bækur um lífið á Korfú, og hét sú fyrsta Fólkið mitt og fleiri dýr.

My-Family-and-Other-AnimalsFjölskyldan var um margt kostuleg, elsti bróðirinn var skáld og fúllyndur í þokkabót. Systirin ansi skrautleg og hinn bróðirinn byssuóður. Móðirin var ekkja og átti greinilega fullt í fangi með börn sín og lífsbaráttuna á millistríðsárunum, en spjaraði sig vel með aðstoð hjartahlýrra grikkja. Gerry litli var fljótur að taka eftir forvitnilegum smádýrum á eyjunni, köngulóm og eðlum, skjaldbökum og eldflugum. Stór hluti bókarinnar fjallar um náttúrurannsóknir hans og ævintýri sem af þeim hlutust. Lýst er því þegar hann gerir tilraunir með ákveðna köngulóategund, flytur þær af gulu blómi á hvítt. Og það merkilega var að köngulærnar gátu breytt um lit, eftir því hvernig lituðu blómi þær bjuggu á.

Bókin er sambland af leiftrandi innsæi og ástríðu gagnavart lifandi verum, og stórkostlegri frásögn af samskiptum fjölskyldumeðlima. Það gefur að skilja ef mikið er borið af smádýrum og stærri skepnum inn í hús, kann ýmislegt úr lagi að fara.

Sigríður Thorlacius þýddi bókina. Hún sagði í viðtali við vísi 10. júní 1974. "Þetta er skemmtileg bók, en dálitið erfitt að þýða hana. Ég sat með fuglabókina öðrum megin, orðabókina hinum meginn og simann fyrir framan mig, þegar ég var að þýða". Ég las bókina aftur nú í haust og fannst mikið til koma. Ég minnist þess að hafa séð þættina í sjónvarpinu sem krakki, og skemmt mér konunglega. Þeir eru ekki hraðir og æsilegir eins og sjónvarp nútildags, en ef til vill snjallari fyrir vikið.

Gerald Durrell varð náttúrufræðingur, fór í leiðangra til heitu landanna og stofnaði dýragarð á eyjunni Jersey í Ermasundi. Hann lagði áherslu á að hlutverk dýragarða væri fyrst og fremst að varðveita dýr sem væru í útrýmingarhættu.

Ítarefni:

Viðtal við Sigríði Thorlacius Vísir 10. júní 1974

My Family & Other Animals

BBC http://www.bbc.co.uk/programmes/b01ns0gt

Alison Flood 2011 My Family and Other Animals by Gerald Durrell


Kynning á líffræðibókum 19. nóvember

Líffræðifélag Íslands mun standa fyrir kynningu á þremur bókum um líffræðileg efni, sem komið hafa út á árinu 2014.

Bækurnar sem um ræðir eru:

Ráðgáta lífsins eftir Guðmund Eggertsson,

Lífríki Íslands eftir Snorra Baldursson og

Surtsey í sjónmáli eftir Erling Ólafsson og Lovísu Ásbjörnsdóttur.

Höfundar munu kynna bækur sínar þann 19. nóvember, í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands (frá 17:30 til 18:00).

Fyrst flytja Guðmundur, Snorri og Erling stutt ávörp og ræða efni bóka sinna, og svo gefst gestum tækifæri á að ræða við þá og njóta léttra veitinga.

Bækurnar verða til sölu á tilboðsverði.

Nánari upplýsingar síðar.


Ráðgáta lífsins á öldum ljósvakans

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Ráðgáta lífsins ræddi Hanna G. Sigurðardóttir við Guðmund Eggertsson í Samfélaginu í nærmynd 10. september 2014. Viðtalið var kynnt á vef RÚV með þessum orðum:

Hvernig gerðist það að lífvana efni jarðarinnar þróaðist í það sem við köllum líf ? Og hvernig er hægt að skilgreina líf út frá efnasamsetningu og ferlum ? Þessar stóru spuringar eru meðal þeirra sem sameindalíffræðingar glíma við.

Í bókinni Ráðgáta lífsins eftir Guðmund Eggertsson erfðafræðing er gerð grein fyrir kenningum ýmissa fræðimanna sem komið hafa fram um lausn þessarar gátu, en við henni hafa enn ekki komið fram svör sem sátt ríkir um. Meðal hugmynda er meðal annars tilgáta um að elding hafi verið hvatinn sem gerði að verkum að ólífrænt efni breyttist í líf. Samkvæmt annarri er reiknað með að lífrænt efni hafi borist til jarðar utan úr geimnum. 

radgata_frontur-120x180.jpgHægt er að hlýða á viðtalið á vef RÚV, Samfélagið miðvikudaginn 10. september 2014.


Ráðgáta lífsins á prenti

radgata_frontur-120x180.jpgHver er mesta ráðgáta lífsins? Er það vitundin, uppruni lífsins, þróun nýrra tegunda eða undur frumunnar? 

Guðmundur Eggertsson, prófessor emeritus við HÍ, sameindaerfðafræðingur af guðs náð, hefur ritað snotra bók um ráðgátur lífsins, sem Bjartur gefur út. Í lýsingu á vefsíðu Bjarts segir.

Lífið á jörðinni á sér langa sögu en uppruni þess er enn mikil ráðgáta. Stóraukin þekking á innri gerð og starfsemi lífvera hefur ekki megnað að auka skilning á uppruna þeirra. Margvíslegar tilgátur um uppruna lífs hafa verið settar fram en um enga þeirra er einhugur. Jafnframt hefur reynst torvelt að svara spurningunni um eðli lífsins á sannfærandi hátt. Enn síður er til vísindaleg skýring á því að til skuli vera lífverur sem geta spurt spurninga um tilveru sína og uppruna.

Í þessari bók segir annars vegar frá upphafi sameindalíffræðinnar og merkum uppgötvunum sem lögðu grundvöllinn að nútímalíffræði. Hins vegar er fjallað um uppruna lífs og helstu tilraunir til að gera grein fyrir honum. Loks beinist umræðan að eðli lífsins og að meðvituðu lífi.

Dr. Guðmundur Eggertsson var um árabil prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og vann að rannsóknum á sviði sameindaerfðafræði. Fjöldi greina eftir Guðmund hafa birst í íslenskum og erlendum tímaritum. Guðmundur er höfundur bókanna Líf af lífi: Gen, erfðir og erfðatækni og Leitin að uppruna lífs, líf á jörð, líf í alheimi

Ég er nýbyrjaður að lesa bókina og hún fer vel af stað. Stíll Guðmundar er aðdáunarverður og viðfangsefnið heillandi. Hann byrjar á að ræða sögu gensins og upphaf sameindaerfðafræðinnar. Segir meira frá bókinni eftir því sem lestrinum vindur fram.

Afneitunarhyggja og flóttinn frá raunveruleikanum

María lætur ekki bólusetja barnið sitt. Hans afneitar erfðabreyttum maís. Jakóbína afneitar þróunarkenningunni, og trúir að guð hafi skapað líf á jörðinni fyrir fjórum milljörðum ára. Trilli afneitar gögnunum úr lyfjaprófinu og heldur áfram að selja pillur með alvarlegum aukaverkunum. Blómberg afneitar loftslagsvísindunum og trúir því að breytingar á loftslagi séu óháðar athöfnum mannsins.

Þetta eru nokkur dæmi um afneitunarhyggju (denialism), þar sem hluti samfélagsins afneitar veruleikanum og sættir sig við þægilega lýgi í staðinn.

Ekkert okkar er fullkomlega rökfast eða höfum rétt fyrir okkur í öllum málum. Þannig að stundum getum við tekið rangar ákvarðanir, höldum t.d. að morgungull með erfðabreyttum maís sé slæmt þegar enginn gögn styðja þann grun. En menn eru ekki eylönd. Og afneitanir geta ferðast manna á milli, rétt eins og góðar fréttir af útsölum eða nýju sýklalyfi. Þar á ofan myndast oft einarðir hópar í kringum vissar afneitanir og lífskoðanir.

Ef við höldum okkur við afneitun á erfðabreyttum maís, þá er augljóst að fólk sem markaðsetur lífrænan lífstíl, matvöru, hjálpartæki og "lyflíki" hagnýtir sér þetta mál til að þétta raðir og vinna nýja liðsmenn.

Afneitunarhyggja

Í hinum vestræna heimi er ákveðin mótsögn. Við byggjum velferð okkar á framförum tækni og vísinda, og grunngildum upplýsingarinnar. En margar af afurðum tækni og vísinda vekja okkur ugg. Michael Specter fjallar um þetta í bók frá árinu 2009, sem heitir Afneitunarhyggja (denialism). Hann vitnar í dæmi Michael Lipton um rafmagn. Ef rafmagn hefði fyrst verið notað í stuðprik og rafmagnsstóla, í stað ljósapera og vifta, er mögulegt að samfélagið hefði afneitað tækninni.

Bók Specters fjallar um afneitanir forkólfa lyfjafyrirtækja á eigin gögnum. Hann rekur dæmið um Vioxx, sem hafði jók tíðni hjartaáfalla hjá þeim sem tóku það, en Merck reyndi að hylja þá staðreynd með spuna og öðrum óþverrabrellum. Lyfið var á endanum tekið af markaði.

Hann fjallar líka um trúnna á vítamín og lífrænan mat, sem eins og áður sagði byggir á að fá viðskiptavini til að gangast undir ákveðna afneitun á gæðum annarar fæðu og kostum hefðbundins landbúnaðar.

Menn smíða gervilíf

Einn kaflinn hreyfði samt við mér. Hann fjallaði um gervilíf, synthetic biology. Hann lýsir þar möguleikum nýrrar tækni til að erfðabreyta lífverum. Þessi aðferð er frábrugðin hefðbundinni erfðatækni að því leyti að fleiri breytingar eru gerðar og þær samhæfðar, t.d. á ákveðin efnaskiptakerfi. Þegar ég las þann kafla, þá fann ég til tilfinningalegra ónota. Þannig skildi ég (að vissu leyti) andstæðinga erfðabreyttra matvæla og lífvera. Viðbrögð þeirra hljóta að vera líkamleg og tilfinningaleg, og ansi sterk.

Sálfræðingar hafa sýnt fram á að við erum ekkert sérstaklega rökvís, og að djúpgreypt fælni eða skoðanir geta mótað hegðan okkar. Daniel Kahneman fjallar um þetta í bókinni "Að hugsa hratt og hægt" (Thinking fast and slow), sem við rituðum um fyrir nokkru (alger perla sú bók fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegri hugsun).

Gallar í bók Specters um afneitun

En umfjöllun þó Specters um gervilíf sé snörp og hreyfi við manni, þá er hún ekkert sérstaklega nákvæm. Hann er sekur um einfaldanir og óraunhæft mat á möguleikum tækninnar. Og að vissu leyti er það gallinn á bókinni allri. Hún er mjög snaggarlega skrifuð, uppfull af skörpum setningum og oft mjög háðskum. En rökflæðið er ekkert svakalega sterkt. Einnig afgreiðir hann afneitara á of einfaldann hátt.

Hann reynir ekki að skilja hvað fær fólk til að afneita tækni eða þekkingu?

Hvað er það í mannlegri hegðan sem fær okkur til að afneita vísindalegri þekkingu?

Hvað er það við miðlun þekkingar sem gerir fólki kleift að afneita henni?

Einnig spáir hann ekki í því hvernig við getum hjálpað fólki að yfirvinna fordóma á tækni eða félagslegum nýjungum?

En fyndnasti parturinn er að Michael Specter var afneitari sjálfur. Eins og DARSHAK SANGHAVI rekur í bókadómi í New York Times, þá hafði Specter sem blaðamaður ritað um kosti lyfjafyrirtækja og hvernig "óhefðbundnar" lækningar lofuðu góðu fyrir framtíðina. Í bók sinni hefur hann alveg söðlað um, og skammar Merck lyfjafyrirtækið fyrir að einblína á hagnað og fólk sem fellur fyrir boðskap um óhefðbundnar meðferðir og heilsubótarefni. Hann nýtir sér ekki tækifærið til að kafa í eigin afneitanir, og hvað hann þurfti til að sá villu síns vegar.

Bók Specters er hraðlesin og frísklega skrifuð. Hann vísar í ágætar heimildir og tekst á afneitunarhyggju, sem birtist á marga vegu í samfélagi nútímans. Hann hefði e.t.v. getað rýnt dýpra í ástæður fyrir afneitun og hvernig við sem einstaklingar og samfélag getum tekist á við fordóma okkar og afneitanir.

Þeir sem hafa áhuga á að fræðast um bókina bendi ég á tvo, ansi ólíka ritdóma í NY Times.

Ég get ekki beinlínis mælt með henni, nema í samhengi við aðrar betri bækur um skyld efni, bók Kahnemans og bækur Shermers (að neðan).

img_1137.jpgHér er smá raunveruleiki, sem væri sniðugt að flýja frá. Mynd AP.

Ítarefni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband