Leita í fréttum mbl.is

Erfðamengun í löxum á vestfjörðum

Hugmyndir um aukið laxeldi hérlendis hafa vakið umræðu um möguleg umhverfisáhrif eldis. Fiskeldi fylgja ýmsir þættir sem geta haft neikvæð áhrif á umhverfið, sem rétt er að hafa í huga við mat kostum og göllum uppbyggingar. Margt kemur þar til, mengun frá fóðri og skít, smit sem magnast í kerjum og erfðamengun ef fiskar sleppa. Til að mynda ef eldið er stundað í opnum kvíum í sjó getur ónýtt fæða og úrgangur frá fiskum valdið ofauðgun. Einnig fylgja mörgum eldisfiskum sníkjudýr og sýklar, sem auk þess að valda búsifjum í eldinu, geta haft skaðleg áhrif á aðrar villtar tegundir. Í tilfelli laxa er veigamest lús sem herjar á nokkrar tegundir laxfiska. Rf eldisker eru nálægt árósum getur laxalúsin borist á villta laxa, urriða og bleikjur þegar seiði halda til sjávar, fiskar snúa til baka eða eru bara að svamla um á strandsvæðum.

Auk þessara tveggja þátta er erfðamengun einnig alvarlegt fyrirbæri, sem norðmenn hafa fundið vísbendingar um í 2/3 stofna í nýlegri rannsókn. Erfðamengun verður við blöndin eldisfisks og villtra fiska, og getur haft neikvæð áhrif á lífslíkur villtra stofna og eiginleika þeirra (sjá fyrir neðan tengla á norskar rannsóknir og tvær greinar okkar um efnið).

Íslenski laxinn er ólíkur norskum laxi erfðafræðilega og einnig líffræðilega. Þeir eru sannarlega af sama meiði, enda naḿu þeir báðir ný svæði í kjölfar íaldar, en á þeim nokkur þúsund kynslóðum sem liðnar eru hafa þeir þróast í ólíkar áttir. Rannsóknir norsku sérfræðingana sýndu einnig að áhrif gena frá eldisfiskum virðast vera alvarlegri á fjarskyldari stofna laxa. Íslenski laxinn væri dæmi um slíkt.

Nútildags er laxeldi hérlendis stundað með norskum eldislaxi, í opnum kerjum. Spurningin vaknar er, hvaða áhrif hefur það á íslenska ferskvatns stofna ef laxar sleppa úr kerjum hér við land?

Á föstudaginn bárust fréttir af því að sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar hefðu fundið merki um erfðamengun í laxfiskum á Vestfjörðum. Rannsóknin byggði á erfðagreiningu á 15 breytilegum stöðum í erfðamengi laxins, og voru sýni af meira en 700 seiðum frá Vestfjörðum (aflað 2016) borin saman við löxum í kringum landið og eldisfisk.

Gögnin sýndu að eldislaxar höfðu parast við villta laxa og eignast afkvæmi á nokkrum stöðum. Slíkir blendingar fundust aðallega í tveimur ám (Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði). Þrátt fyrir að engir strokufiskar voru tilkynntir 2015 er mjög sennilegt að einhverjir kynþroska laxar hafa sloppið og komist upp í þessar ár.

Því er ljóst að erfðamengun laxa er raunveruleg ógn hérlendis.

Eins og oft gerist í umræðu um mengun, þá færist umræðan til eftir að sýnt hefur verið fram á að einhver iðnaður eða framleiðsla hafi mengun í för með sér. Fyrst er yfirleitt neitað að mengun sé til staðar, en síðan er því haldið fram að hún sé óveruleg, eða að hún hafi bara smávægileg áhrif á ómerkilega náttúru, eða á endanum að ásættanlegt sé að fórna hreinleika náttúrunar fyrir hagnað og störf.

Ein mikilvæg niðurstaða í skýrslunni er sú að munur er á laxastofnun innan Íslands. Það er rétt að Vestfirðir eru ekki þekktir fyrir að vera mikil laxveiði svæði, en náttúran ekki stöðugt fyrirbæri. Við ættum líklega að fagna því að villtar tegundir auka útbreiðslu sína, ekki að agnúast yfir því að þær flækist fyrir okkar áformum.

Það eru margar leiðir til að draga úr áættunni á erfðablöndun og mengun. Sú einfaldasta er að nota lokuð kerfi fyrir fiskeldi, eins og frændur vorir Norðmenn stefna nú ótrauðir að. Nema vitanlega norðmennirnir sem fjárfesta á Íslandi, þeir vilja fá að nota opin ker til eldis.

Mynd úr skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.

Screenshot_2017-08-28_16-34-20

Heimildir

Skýrslan Erfðablöndun eldislaxa af norskum uppruna við íslenska laxastofna (.pdf)

RÚV. 25. ágúst 2017. Erfðablöndun laxa í ám á Vestfjörðum

Vísir.is 25. ágúst 2017. Skýr merki um erfðablöndun eldislax af norskum uppruna við íslenska laxastofna

Karlsson o.fl. 2016 ICES Journal of marine science doi.org/10.1093/icesjms/fsw121,

Glover o.fl. 2017 Fish and Fisheries doi: 10.1111/faf.12214,

Bolstad o.fl. 2017 Nature Ecology & Evolution doi:10.1038/s41559-017-0124

Arnar Pálsson 16. janúar 2017 Mun norskt genaregn eyðileggja íslenska laxinn?

Arnar Pálsson 8. júní 2017 Áhrif erfðamengunar á villta laxastofna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Gildir eitthvað annað lögmál hjá löxum en hjá mannfólkinu?

Gætir þú ekki verið sammála mér um að það sé öllum stofnum hollt að fá ný gen inn í sinn stofn reglulega; hvort sem að um sé að ræða íslenska kúa eða hundastofninn, einangraðan ættbálk í Amazon skóginum eða Hrýseyinga?

=Að smá genablöndun er öllum hópum/stofnum nauðsynleg bæði á milli landssvæða og landa til að koma í veg fyrir innræktun.

Eru ekki tilbúinn að skrifa undir það?

Jón Þórhallsson, 28.8.2017 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband