Leita í fréttum mbl.is

Margrét Guðnadóttir veirufræðingur

Þau sorgartíðindi bárust í morgun að Margrét Guðnadóttir læknir féll frá 2. janúar síðastliðinn. Hún var veirufræðingur og hóf störf sín á Keldum undir leiðsögn Björns Sigurðssonar við rannsóknir á mæði-visnu veirunni.

Árið 2014 var talað við Margréti í sjónvarpsþættinum Brautryðjendur, sem fjallaði um konur sem brotið hafa múra og opnað gáttir.

Margrét var fyrsta konan sem skipaður var prófessor við Háskóla Íslands, og lýsti þeirri atburðarás ansi skemmtilega í þættinum. Margrét sagði,

það er best að þeir fái einu sinni umsókn frá kvenmanni, og vita hvað þeir gera...

Hún stóð í kálgarðsgallanum þegar hún fékk upphringingu frá útvarpinu, og frétti að starfið væri hennar.

Margrét var einstakur vísindamaður og frábær persónuleiki. Viðhorf hennar gagnvart vinnu og verkefnum var örugglega hluti af velgengni hennar. Hún sagði,

Mér hefur aldrei leiðst í vinnunni, einn einasta dag - aldrei 

Rannsóknir Margrétar snérust um hæggengar veirusýkingar mæði og visnu í kindum. Mæði-visnu veiran er af ætt lentiveira, eins og HIV. Margrét gerði tilraunir með bólusetningar, með óvirkjuðum mæði-visnu veirum, og lofa niðurstöðurnar mjög góðu. Rannsókn Margrétar og Kýpverskra samstarfsmanna frá árinu 2013 sýndi t.d. að mögulegt er að þróa bóluefni gegn lentiveirum. Mæði-visnu veiran er forvitnilegt líkan fyrir rannsóknir á lentiveirum og getur þannig nýst í baráttunni við HIV.

Framlag Margrétar til veirufræði var mikið og merkilegt, og hún var glæsileg fyrirmynd íslenskum vísindamönnum. Hennar verður sárt saknað.

Ítarefni:

Vefur HÍ 2011 Margrét Guðnadóttir heiðursdoktor við HÍ

Viðtal í Læknablaðinu 2009 Veirufræðingur af lífi og sál. Viðtal við Margréti Guðnadóttur

Gudnadóttir M, Demosthenous A, Hadjisavvas T. Vaccination delays Maedi-Visna lentivirus infection in a naturally-infected sheep flock. BMC Vet Res. 2013 Jan 22;9:16. doi: 10.1186/1746-6148-9-16.

Guðmundur Pétursson. „Hver var Björn Sigurðsson og hvert var hans framlag til vísinda?“. Vísindavefurinn 14.1.2011. http://visindavefur.is/?id=58128.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband