Leita í fréttum mbl.is

Hverra manna ert þú?

Við íslendingar höfum áhuga á ættfræði. Nýr kærasti er kynntur til sögunnar og innan 2 mínútna hafa foreldrarnir spurt hverra manna ert þú? Við viljum gjarnan vita fyrst þú vingast við dóttur okkar, hvaðan ert þú ættaður og hverjir eru ættingjar þínir?

Fyrir 17 árum gaf ég Greg Gibson leiðbeinanda mínum eintak af Njálu. Ég var í doktorsnámi í Norður Karólínu að rannsaka erfðir flókinna eiginleika og forms vængjanna. Greg fannst ættartölurnar í upphafi bókar sérstaklega forvitnilegar, sem bera merki um fornan og djúpstæðan áhuga okkar á ættum og uppruna. Frá forfeðrunum fáum við orðspor en einnig gen.

En hvað mörg gen fáum við frá hverjum forföður?

Hversu marga forfeður eigum við?

Og hvar í heiminum bjuggu forfeður okkar?

Svörin við þessum spurningum hafa afhjúpast á síðustu árum með bættum aðferðum til að greina erfðabreytileika manna á milli og betri líkönum í stofnerfðafræði. Með því að nota sameindagreiningar má finna hvaða litningar og hlutar þeirra koma frá föður, móður, öfum, ömmum og fjarskyldari forfeðrum.

Þú hlýtur að vera stoltur ef Egill Skallagrímsson var forfaðir þinn. En hversu mörg gen fékkst þú frá honum?

Við fáum helming gena okkar frá hvoru foreldri. Því leggur amma barnabarni til 1/4 gena, langamma 1/8 og langlangamma 1/16.

Fyrir nokkrum árum reiknaði ég út framlag Kóperníkusar til núlifandi afkomenda hans. Með hliðsjón af erfðum og miðað við 20 kynslóðir þeirra á milli var 1 milljónasti hluti erfðaefnis afkomandans frá Kóperníkusi.

Ef við gerum ráð fyrir 40 kynslóðum frá Agli til nútímaafkomenda hans er framlagið 1/1.000.000.000.000. Miðað við að erfðamengi okkar er 6.400.000.000 basar (á tvílitna formi), er ljóst að flestir afkomendur Egils fengu ekki einn einasta basa.

Jafnvel þótt maður horfi sér nær, á mynd af langlangömmu með hörkulegan svip vegna þess að myndatakan tók heila mínútu. Frá hverri langalangömmu fáum við 6.25% af erfðaefni okkar. Það er alvöru framlag. Um 1280 gen af þeim 20.500 sem finnat í erfðamengi okkar, komu frá henni.

Allar tölurnar hér að ofan eru meðaltöl, og öruggt er að sumir afkomendur fengu meira og aðrir minna. Ástæðan er sú að stokkun litninga er óregluleg, atburðirnir (endurröðun) sem klippa þá sundur og raða þeim saman aftur eru ekki það margir í hverri kynslóð. Þannig erfast stórir partar af litningum saman í gegnum margar kynslóðir. Af því leiðir að flestir afkomendur Kóperníkusar fengu ekkert, en aðrir meira af DNA frá kallinum.

Sú ástæða að litningar endurraðast treglega leiðir af sér athyglisverða staðreynd. Hvert okkar fær ekkert erfðaefni frá sumum forfeðrum í 7 lið. Við eigum ættfræðilega forfeður, sem lögðu okkur ekki til eitt einasta gen!

En framlagið hækkar vitanlega ef forfaðirinn (t.d. langalangamma í dæminu að ofan) kemur fyrir tvisvar eða oftar fyrir í ættartré einstaklings. Og því ofar sem við klifrum í ættartréð, því meiri verða líkurnar á að greinarnar tengist saman. Af þessu leiða mjög áhugaverð mynstur og staðreyndir, sem eru nátengt næstu spurningu, hvar í heiminum bjuggu forfeður okkar?

Hana ræðum við næst.

Leiðrétting, Gunnar benti mér á að reikningur á fjölda gena væri rangur, sjá athugasemd.


mbl.is Sóttu erfðamengi löngu látins manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Skemmtilegur og áhugaverður pistill frændi minn. Mér er málið stundum hugleikið, því pabbi minn og mamma voru þremenningar. 

Hólmfríður Pétursdóttir, 19.1.2018 kl. 14:40

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Athyglisvert og skemmtilegur fróðleikur.

Ekki að það skipti svo sem máli en getur verið einhver innsláttarvilla hjá þér með 6,25% af langömmugenum? 6,25% af 20.500 eru 1.281 gen en ekki 1.320... eða er þetta reiknað öðruvísi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.1.2018 kl. 23:43

3 identicon

Einhvers staðar sá ég að 2-4% af genum Evrópumanna muni vera komin frá Neanderdalsmanninum. Jafnvel hefur því verið haldið fram að rauða hárið sé frá honum komið.

Ekki sel ég það dýrara en ég keypti.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 20.1.2018 kl. 00:10

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir Hólmfríður frænka.

Ein og einn samruni í ættartrénu er ekki það alvarlegur. Ættin okkar er að minnsta kosti ekki eins og tré Habsborgaranna...

Takk fyrir Gunnar að finna villuna í reikningnum.

Ég laga þetta snarlega.

Sæll Hörður

Það er rétt. Gen Neanderdalsmanna og Denisovamanna hafa fundist í nútímamanninum. En tilgátan um að MC!R stökkbreytingin sem veldur rauðu hári eigi uppruna í Neanderdalsmönnum er enn óstaðfest.

Arnar Pálsson, 25.1.2018 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband