Leita í fréttum mbl.is

Bók um almenna fávisku

Frekar fáir fjölmiðlamenn fatta að þekking og staðreyndir eru skemmtilegar. Þeir halda flestir að fólk vilji bara fá spennu, dramatík og brandara í sjónvarpið sitt (tölvuna eða snjallsímann). En sagan (sjónvarpssagan amk) sýnir að fólk þrífst einnig á góðu fræðsluefni. Það kitlar forvitni, skemmtir og kveikir tilfinningar engu síður en sögur um danska kúkalabba eða lögulegum læknanemum.

Hérlendis er reyndar gaman að því hversu vinsælir heimildaþættir RÚV á mánudögum eru vel liðnir (hin undursamlegu köldu heimskaut er nýjasta dæmið). Einnig sýna vinsældir spurningaþáttanna Gettu betur, Útsvars og Spurningabombunar að íslendingar hafa gaman að staðreyndum, eða allavega því þegar fólk reynir með sér í þekkingu.

Spurningaþættir eru reyndar merkilegir að því leyti að stundum er spurt um fáránlegar staðreyndir. Og þeir sem kunna margar staðreyndir eru ekki endilega skynsamir eða með góða þekkingu.

b006ml0gUppáhaldspurningaþátturinn minn QI er sýndur á BBC. Stephen Fry er stjórnandi, en höfundar efnis eru fjölmargir (m.a. John Lloyd og John Mitchinson). Þemað í þættinum eru staðreyndir, en keppendur fá einnig stig fyrir fyndin eða forvitnileg svör. Keppendur eru flestir grínistar og listamenn, kvikir í huga og snjallir í andsvörum. Alan Davies hefur verið gestur í öllum þáttunum sem ég hef séð, og er hrókur alls fagnaðar (vinstra megin á myndinni, SF er hægra megin, mynd af vef BBC).

Aðal brellan í þættinum er sú að þeir sem giska á augljóst (en vitlaust) svar fá mínus stig.

Spurningarnar fjalla nefnilega ekki endilega um staðreyndir sem fáir vita, heldur um eitthvað sem við höldum að sé staðreynd - en er rangt! Þannig afhjúpast almenn fáviska (general ignorance). Þetta er reyndar kjarninn í vísindalegum vinnubrögðum, að afsanna tilgátur (eða almenna fávisku). 

Charles Darwin orðaði þetta ágætlega:

Þátturinn er nú á tíunda ári, og hefur spannað viðfangsefni frá A til H (þeir eru búnir með Ísland). Jónarnir tveir (Lloyd og Mitchinson) unnu upp úr spurningum þáttarins samantekt um atriði sem við héldum að við vissum en reyndust röng. Saman mynda þau bók um almenna fávisku (Book of general ignorance). Dæmi:

Úr hverju er kaffi búið til? (Ekki baunum heldur fræjum)

Hvað eru mörg boðorð í biblíunni?  (Ekki 10, heldur allt að 613)

Hversu margar gerðir af skynjunum (lykt, bragð...) eru menn með? (ekki 5, heldur amk 9...sumir segja 21!)

Hverjir gleyma á 3. sekúndum? (ekki gullfiskar, þeir eru þrælgreindir og hafa meira að segja lært á matarskammtara)

Hver er þurrasti staður á jörðinni? (Ekki Sahara, heldur Þurrudalir (Dry valleys) á Suðurskautslandinu).

185px-qi-book.jpgJónarnir tveir eru titlaðir fyrir verkinu, en það er bersýnilega afurð breiðari hóps því dæmin spanna sögu, landafræði, jarðfræði, líffræði og læknisfræði.  Það er slatti af sérenskum atriðum, byggð á sögu eða tungumáli, sem auðvelt er að fletta yfir ef áhuginn dofnar. Önnur viðfangsefni eru ekki nægilega vandlega unnin, sumar fullyrðingar þeirra eru hreinlega rangar (sem er sérstaklega vandræðalegt fyrir þátt sem gerir sig út fyrir að afhjúpa fávisku). Nærtækt dæmi er umfjöllun um banana-framleiðslu-lýðveldið Ísland.

En bókin er afbragð aflestrar, læsileg og upplýsandi. Þótt að einhverjar staðreyndir misfarist þá virkar hún jafnvel sem uppspretta spurninga og boðberi sannleikans. Mikilvægasta atriðið er að gera okkur meðvituð um að þekking okkar á veröldinni er ófullkomin. Það er nefnilega hættulegra að vera viss um eitthvað rangt, en að vera óviss.


Skrif fyrir fjölmiðla og vísindatímarit

Óðinshani syndandi á tjörn, beygir til hægri og vinstri, myndar hringi, slaufur og rósir. Þetta merkilega atferli er kveikjan að viðurnefninu skrifari, þar sem hægt er að ímynda sér að hann sé að draga skrautlegastafi með tengiskrift.

Annars eru það aðallega manneskjur sem standa í þeim ósköpum að skrifa niður, birgðastöðu þorpsins, boð til konungsins eða ástarbréf til hinnar undurfögru. Nú á öld hraðans er margt skrifað, en hið ritaða mál er ansi misjafnt að gæðum.

Í gærkveldi stóð Innihald.is fyrir fundi um ábyrgð fjölmiðla. Fundurinn var ágætlega sóttur og erindin sem ég heyrði voru ákaflega hugvekjandi og umræður góðar. Gunnar Hersveinn ræddi fyrst um skoðanamyndandi áhrif fjölmiðla, hvernig hefðir, ritstjórn, beinir og óbeinir hagsmunir geta haft áhrif á skrif fréttamanna. Hann útskýrði aðstæður blaðamanna og einnig þá kosti sem þeim standa til boða ef samviska og ritstjórnarstefna stangast á (rífast við ritstjórann, hætta eða láta yfir sig ganga).

Elva Björk Árnadóttir flutti ljómandi erindi um möguleg áhrif fjölmiðla á sjálfsmynd stúlkna og drengja. Skilaboðin sem tímarit, vefmiðlar og sjónvarp senda eru ólík eftir því hvors kyns markhópurinn er. Drengir eru hvattir til hreysti og félagsskapar, en stúlkur eru sífellt minntar á það hversu fita er hættuleg og mikilvægi þess að vera grannur (ekki endilega hraustur).

Ég missti af tveimur erindum vegna ótímabærrar íþróttaiðkunar (og seinkunnar á dagskrá). Mitt erindi fjallaði um vísindaveffréttir, og vonandi næ ég að vinna úr því greinarstúf seinna. Hluti af umfjölluninni var samt ábyrgð vísindamanna. Þeir þurfa að geta sagt frá rannsóknum á skiljanlega hátt (í þeim tilfellum sem þeir eru að gera skiljanlegar tilraunir).

Í því samhengi langar mig að beina fólki á all skemmtilegan pistil eftir Adam Ruben (höfund bókarinnar: Surviving Your Stupid, Stupid Decision to Go to Grad School). Það að fara í framhaldsnám á ekki að vera léttvæg ákvörðun, miklar kröfur eru gerðar til nemenda á mörgum ólíkum sviðum.

Til að mynda þurfa vísindamenn að geta skrifað, rökrétt, skýrt og jafnvel einnig laglega. Ruben fjallar einmitt um það hvernig bókmenntalegur metnaður hans fékk skell þegar leiðbeinandi hans sagði við hann:

You don’t write like a scientist

Vandamálið er að Adam hafði notað orðið "only" 5 sinnum í málsgreininni og tilfinning hans fyrir nánd orða ýtti honum til þess að nota orðið "lone" í staðinn, yfirmanninum til mikillar gremju. Hann rekur nokkur atriði sem einkenna vísindamál (og gerir stólpagrín af því leiðinni):

We’re taught that scientific journal articles are just plain different from all other writing. They're not written in English per se; they're written in a minimalist English intended merely to convey numbers and graphs. As such, they have their own rules. For example:

1. Scientific papers must begin with an obligatory nod to their own relevance, usually by citing exaggerated figures about disease prevalence or other impending disasters. If your research does not actually address one of these issues, pretend it does, because hey, that didn’t stop you on the grant application. For example, you might write, “Twenty million children die of scabies every day. OMG we built a robot kangaroo!”

2. Using the first person in your writing humanizes your work. If possible, therefore, you should avoid using the first person in your writing. Science succeeds in spite of human beings, not because of us, so you want to make it look like your results magically discovered themselves.

Og svo verð ég að taka með eina gullvæga setningu úr lokahluta greinarinnar.

Many scientists see writing as a means to an end, the packing peanuts necessary to cushion the data they want to disperse to the world. They hate crafting sentences as much as they hate, say, metaphors about packing peanuts.

Ítarefni:

Adam Ruben 23. mars 2012. How to Write Like a Scientist


Ægivald lyfjaiðnaðarins og innihald fjölmiðla

Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðingur hélt erindi á aðalfundi Félagsráðgjafafélags Íslands sem hét „Geisar þunglyndisfaraldur“. Morgunblaðið gerir erindinu skil í greininni „ Verðum að draga úr ægivaldi lyfjaiðnaðarins...

Flórgoðinn á Mývatni

Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og gestaprófessor við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ mun fjalla um Flórgoðan á Mývatni í erindi föstudaginn 23. mars 2012 (kl. 12:30-13:10). Flórgoða má að sönnu kallast einkennisfugl...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband