Leita í fréttum mbl.is

Kynslóðin sem borgaði laun alþingismanna með menntun sinni

Menntun er nauðsynleg fyrir samfélagið og eflandi fyrir einstaklinga. Með því að læra nýja hluti bætir maður sjálfan sig, öðlast nýja færni, sjálfstraust og heimssýn. Menntun auðgar bæði þjóðir og fólk, jafnt andlega og fjárhagslega.

Menntun er ekki ókeypis eða sjálfsögð. Íslenskt samfélag var reist á þeirri hugsun að menntun ætti að vera almenn og ókeypis. Menntun væri fjárfesting til framtíðar. En ekki vilja allir stjórnmálamenn fjárfesta í menntun, og sýna það með gjörðum sínum ef ekki orðum.

Núverandi ríkisstjórn sveltir háskóla og menntakerfi landsins. Á aðalfundi Háskóla Íslands sem haldinn var í dag kom í ljós að skólann vantar einn og hálfan milljarð til að geta sinnt eðlilegum rekstri. Í ár er háskólinn rekinn með næstum 500 milljóna króna tapi. Ástæðurnar fyrir hallanum eru margvíslegar.

1. Ein er sú að ríkið samdi um laun háskólakennara, en jók ekki að sama skapi fjárframlög háskólanna sem þeir vinna hjá. Ríkið samdi við háskólakennara og prófessora um rúmlega 20% launahækkanir árið 2015. En í fjárlögum fyrir 2016 hækkaði framlag til t.d. Háskóla Íslands ekki í samræmi við kjarasamninginn. Því situr skólinn  upp með halla, hann verður að borga starfsmönnunum hærri laun en skortir fjármagn til þess.

Afleiðingin er sú að námskeið eru lögð niður, önnur kennd með 30% minna framlagi kennara, og verklegar æfingar og ferðir eru skornar niður, yfirvinna og nýráðningar bannaðar og lausráðnum starfsmönnum sagt upp. Hvaða áhrif ætli það hafi á gæði menntunar?

2. Alþingi Íslendinga gaf HÍ afmælisgjöf af tilefni 100 ára afmæli skólans árið 2011. Um var að ræða 150 milljóna króna upphafsgreiðslu og svo áþekka aukningu á hverju ári, sem átti að nýtast í nýjungar í starfi skólans.* En aldarafmælissjóðurinn hefur ekki haldið áfram að stækka. Nú situr HÍ uppi með undirfjármagnaðar einingar og námsbrautir. Skyldi það hafa jákvæð áhrif á gæði menntunar?

3. Háskólar hérlendis tóku þátt í niðurskurði á ríkisútgjöldum eftir hrun, á sama tíma og þeir tók við fleiri nemendum. Stuðlar það að betri eða verri menntun?

4. Mikilvægasta staðreyndin er sú að HÍ og Háskólar á Íslandi almennt eru undirfjármagnaðir miðað við Háskóla á norðurlöndum og í norður Evrópu. HÍ hefur stært sig af því að vera rekinn af mikilli ráðdeild, en hægt er að herða sultarólina um of.

Íslendingar eru harðir af sér og barma sér eiginlega bara rétt fyrir (eða eftir) andlátið. En afleiðingar langvarandi fjársveltis háskóla hérlendis eru margþættar og svo alvarlegar að ekki verður orða bundist. Sveltið birtist í hrörnandi húsnæði, tækjabúnaði og kerfum, en einnig í verri kennsla, lakara námsframboði, tærandi vinnuumhverfi og lélegri vísindum.

Svelti menntakerfis veldur því að kynslóðin sem nú innritast í háskóla fær verri kennslu en fyrri kynslóðir.

Eftir kosningarnar í október voru laun alþingismanna hækkuð um tæp 45%, með úrskurði kjararáðs. Launahækkanir gæðinga kjararáðs er annar en sá sem almennings eða annara ríkisstarfsmanna.

Fjárframlag til Alþingis var auðvitað hækkað til að standa straum af auknum launakostnaði alþingismanna. Háskólar (eða aðrar mennta og heilbrigðistofnanir) njóta ekki sömu greiðvikni fjármálaráðherra og ríkisvaldsins. Háskóla þurfa að sýna ábyrgt bókhald, en gæðingar kjararáðs þurfa ekki að óttast kjaraskerðingu.

Í anda húsdýragarðs George Orwell eru gæðingar kjararáðs jafnari en aðrir, og næsta kynslóð fær að borga laun alþingismanna með menntun sinni.

Ítarefni:

Jón Atli Benediktsson í ritstjórnargrein í Læknablaðinu 2016 (Fjármögnun Háskóla Íslands)

Útlit var fyrir að nokkuð myndi rofa til í fjármögnun Háskóla Íslands þegar Aldarafmælissjóður HÍ var stofnaður í þverpólitískri sátt allra stjórnmálaflokka á Alþingi á 100 ára afmæli Háskólans árið 2011. Var það yfirlýst markmið með stofnun sjóðsins að framlög til Háskóla Íslands myndu aukast í áföngum uns náð væri meðalfjárveitingum til háskóla í ríkjum OECD árið 2016 og meðalfjárveitingum til háskóla á hinum Norðurlöndunum árið 2020. Var þetta markmið ítrekað í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og einnig í stefnu Vísinda- og tækniráðs sem lýtur formennsku forsætisráðherra og er skipað 6 öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Þessi fyrirheit hafa ekki verið efnd og í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 er ekki minnst á þau.

Jón Atli Benediktsson 17.12.2016 Um alvarlega fjárhagsstöðu Háskóla Íslands Fréttablaðið.
 
Jón Atli Benediktsson fjallaði um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í viðtali við Stundina
 
*Gáfulegra hefði verið að leyfa HÍ að ráðstafa fénu að vild, t.d. til að efla rannsóknir með því að styrkja nemendur og kennara.

Ómótstæðilegt, tælandi, eyðileggjandi...

Ég er fíkill.

 

Þú notar sama dóp og ég.

 

Dópið mitt er mjög algengt nútildags, en var eiginlega ekki til fyrir tveimur áratugum.

 

Dópið hefur nokkur nöfn og ólíkar birtingarmyndir, en við þekkjum það sem snjallsíma, tölvupóst, netið, tölvuleiki og samskiptamiðla.

 

„Nei hættu nú alveg“ gæti einhver sagt, „netnotkun er eðlilegur hluti af lífi nútímamannsins, fíklar nota lyf eða eiturlyf – en ekki tölvupóst!“

 

Samfélagið hefur sagt okkur að fíkn sé bara fyrir einhver úrhrök sem ánetjast eiturlyfjum eða lyfjum. Þau séu skemmd eða gölluð, en við hin séu heilbrigð. Að við getum ekki orðið fíklar. En fíkn ræðst ekki bara af svörun einstaklinga við dópinu, heldur einnig af framboði og eiginleikum þess.

 

Fíkn er fíkn, sama hvort hún sé í eiturlyf eða snjallsíma. Sannarlega er eiturlyfjafíkn meira skaðleg fyrir líkama sál, en fjöldinn sem þjáist af netfíkn er mun meiri. Og það sem verra er, við bjóðum börnum okkar upp dópið algerlega bláeyg, óvitandi um hvernig það getur raskað þroskun persónuleika þess, félagsfærni, líkamlegs atgervis og þar með framtíðarhorfum. Við erum að ala upp kynslóð af símadraugum, fólk sem vafrar um mannheima starandi á bláan skjá í hönd sér.

 

Kvikmynd Wim Wenders - Until the end of the world, sá þetta algerlega fyrir. Þar uppgötvar einhver vísindamaður leið til að skrá drauma fólks, og gera þá sýnilega í litlum handtölvum. Fólk varð algerlega heillað af því að horfa á sína eigin drauma. Þau vöfruðu um eyðimörkina með skjá í hendinni og hirtu ekkert um annað fólk (eða sjálfan sig). Og þegar þau voru búin að horfa á drauma næturnar flýttu þau sér að sofa meira til að geta tekið upp næsta draum.

 

Ég er fíkill

 

í tölvupóst – tómt inbox....vonlaust verkefni.

 

Í samskiptaforrit, twitter og blog (sbr þennan pistil).

 

Svörunin sem maður fær, losun á dópamíni í kollinum er ansi notaleg. Alter lýsir þessu við gleðina sem börn fá við að ýta á takka í lyftu, þú ýtir á takka og ljós birtist bak við töluna. Hann segir frá því að hafa stigið inn í lyftu, og 5 ára barn hafi ljómað eins og sólin. Drengurinn hafi ýtt á takkana fyrir allar hæðirnar. Hann losaði dópamín í hvert skipti sem hann ýtti á takka, og varð mjög glaður. En hann var ekki betur settur. Sama brella er notuð í skemmtigörðum heimsins, ljós, dingl, skemmtilegt lag. Og vitanlega í öllum leikjunum og smáforritunum sem soga tíma okkar og orku til sín.

Vinsamlegast lesið rólega en deilið ekki ;)

 

Pistillinn er innblásinn af bók Adams Alter - Irresistible.

http://adamalterauthor.com/irresistible/

Arnar Pálsson 16. júní 2015 Orð á bók og skjá


15. september - fundur um lífslok

Þann 15. september n.k. verður haldin ráðstefna í Háskóla Íslands um líknardráp og ákvarðanir við lífslok. Ráðstefnan er skipulögð af norrænu lífsiðfræðinefndinni í samstarfi við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og verður haldin í fundarsal Veraldar -...

Hvað á að gera við erfðaupplýsingar?

Umfjöllun CBS um Downs heilkennið og mismun í tíðni fóstureyðinga slíkra fóstra milli landa hefur vakið hörð viðbrögð. Sérstaklega hjá þeim sem eru á móti fóstureyðingum af trúarlegum eða siðferðislegum ástæðum. En í bakgrunni er mikilvæg spurning,...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband