Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Að klifra í lífsins tré

Þróunarfræðingar hafa afhjúpað skyldleika margra tegunda og hvernig þær raðast í stærri hópa, ættir, fylkingar og ríki.

Tré lífsins er gríðarlega stórt og teygir sig langt aftur í tímann. Við eigum í mesta basli með að skilja eiginleika vistkerfa eða framrás tímans yfir áratugi og kynslóðir. Við erum ekki vel í stakk búinn til að skilja leyndardóma trés lífisns.

En við getum notað verkfæri til að ná utan um tré lífsins og klifra í því.

Algenga leiðin er að teikna mynd af tré lífisns, með helstu hópum og fulltrúum þeirra.

Nýleg aðferð er að gera gagnvirkt forrit sem hægt er að leika sér með. Samanber Onezoom.

OnezoomTreeTakk Snæbjörn fyrir ábendinguna.

 

Útdauði tegunda og blinda okkar á hægar breytingar

Útdauði dýra er raunverulegt vandamál og hann getur haft alvarlegar afleiðingar.

Ástæður útdauða eru margvíslegar, ofveiðar, eyðing búsvæða, landnýting, mengun frá t.d. landbúnaði og iðnaði, og vitanlega loftslagsbreytingar.

Í fyrri viku bárust tíðindi af því að fyrsta spendýrið hafi dáið út augljóslega af völdum loftslagsbreytinga.

Tegund sem kallaðist Bramble Cay melomys, var mús sem bjó á lítilli Ástralskri eyju. Hún lifði á litlu rifi milli Ástralíu og Papúa nýju gíneu.

Hækkandi sjávarstaða vegna loftslagbreytinga eyddi búsvæðum á eyjunni. Vitað var um afdrif hennar, vegna þess að hún hafði verið rannsökuð og bjó á lítilli eyju (og vegna þess að hún var sæt mús). Fyrir hverja eina slíka tegund sem við missum, er hætt við að við missum tugi, hundruði, þúsundir annara, ekki jafn vel þekktra eða minna heillandi, vegna loftslagsbreytinga.

Endurfundur skjaldbökunnar

Á svipuðum tíma bárust fréttir af því að skjaldbaka sem talin var útdauð fannst aftur. Skjaldbanakn Chelonoidis phantasticus (Kelenædis fantastíkus með íslenskri latínu),
býr á Fernandina eyjunni í Galápagoseyjaklasanum. Síðast sást til tegundarinnar fyrir 110 árum, og talið var að hún væri útdauð í kjölfar eldgos. En náttúrufræðingar höfðu fundið margvíslegar vísbendingar um tilvist skjaldböku á eyjunni, m.a. grunsamlegan saur. Með samstilltu stórátaki fannst ein skjaldbaka tegundarinnar. Ljóst er að þó eitt eintak hafi fundist, og tegundin því ekki formlega útdauð, eru ekki margir einstaklingar eftir.

Blessunarlega eru ennþá óspillt svæði á jörðinni, m.a. á Galapagos eyjum, sem er með stóra þjóðgarða þar sem dýr og aðrar lífverur hafa athvarf. Þau athvörf eru samt fá, lítil og fer fækkandi.

Hrun skordýra

Nokkrar nýlegar rannsóknir hafa afhjúpað hnignun stofna skordýra. Rannsóknir á skordýrum eru mun erfiðari en á stærri dýrum og gögnin sem fyrir liggja gloppóttari. Samt er augljóst að stofnar skordýra hafa látið á sjá, eins og þekkist e.t.v. best á ástandi býflugnastofna í Evrópu og norður Ameríku. Fréttir um skordýrahrunið voru kannski aðeins of dramatískar, en þær vörpuðu a.m.k. ljósi á vanræktan risa. Skordýr eru ákaflega mikilvæg, í vistkerfum og fyrir landbúnað, en veruleikinn er sá að við þekkjum þau fáranlega illa. Skordýr tilheyra liðdýrum, sem eru 80% af öllum þekktum tegundum dýra. Til að mynda hefur um 900.000 skordýrategundum verið lýst. Talið er að heildarfjöldi tegunda skordýra sé eitthvað í kringum 30 milljónir. Til samanburðar eru bara þekktar um 6500 spendyrategundir. Ólíklegt er að margar tegundir spendýra séu ófundnar.

Spurt var, getur erfðafræðin hjálpað okkur við að bjarga tegundum frá útdauða?

Tvennt hefur verið nefnt. Notkun erfðagreiningar til að skilja fjölbreytileika tegunda og stofna, eða nota sameindaerfðafræði og frumulíffræði til að klóna tegundir eða erfðabreyta núlifandi tegundum þannig að þær líkist útdauðum (t.d. fíl í loðfíl).

Hið fyrra er auðvelt, hið seinna er nær því að vera vísindaskáldskapur en veruleiki. Erfðatæknin mun ekki gagnast, þrátt fyrir ýmiskonar yfirlýsingar, til að bjarga tegundum frá í útrýmingarhættu. Sannarlega hafa nokkrar tegundir verið klónaðar, ssvo sem kindur, kýr og skyldar tegundir, en einnig nokkrar aðrar. Heilmikið og kostnaðarsamt þróunarstarf er nauðsynlegt til að geta klónað einstaklinga ákveðinnar tegundar. Þannig að fyrir hverja eina tegund sem við myndum vilja klóna og bjarga á þann hátt yrðum við að leggja í mikinn startkostnað. Og alls er óvíst að klónunin heppnis. Ekki hefur tekist að klóna öll dýr sem reynt hefur verið. Dollý var t.d. afurð tilraunar 277, með klónun á kindum.

Ekki er verjandi að eyða meiri fjármunum í að búa til einn klónaðan nashyrning - en þyrfti til að halda uppi og vernda mörgþúsund ferkílómetra þjóðgarði í langan tíma.

Mikilvægust eru orsakir þess að dýr og aðrar lífverur eru í útrýmingarhættu, þ.e. gjörðir mannana. Eyðing búsvæða vegur þar mest. Ef við klónum fullt af dýrum, en setjum þau síðan í agnarsmáa þjóðgarða eða læsum inni í dýragarði, þá höfum við ekki bjargað málunum. Við höfum í besta falli afvegaleitt sjálf okkur, og frestað því að takast á við rót vandans.

Okkar mesti galli - blinda á hægar breytingar

Við manneskjurnar erum léleg í því að mæla hægfara breytingar, á náttúrunni og öðrum hlutum. Enska hugtakið sem lýsir þessum galla okkar er Shifting baseline syndrome, sem þýða mætti sem viðmiðið hreyfist heilkennið.

Frægt dæmi er af sportveiðum. Hvert einasta ár er haldin sportveiði, og einhver fiskur er stærstur og fólki finnst hann risatór. En ef bornir eru saman stærstu fiskana yfir langt tímabil, t.d. frá 1910 til 2010, sést að þeir fara sífellt minnkandi. Fólk skynjar þetta ekki, því viðmiðið færist á hverju ári.

Það sama á við um allt mat okkar á ástandi náttúrunnar (og mögulega þáttum í samfélaginu). Í Evrópu og Ameríku hefur skordýrum fækkað vegna eyðingu búsvæða, ræktarland kemur í stað villtrar náttúru, og húsahverfi í stað akra, með þeim afleiðingum að yfir ár og áratugi fækkar skordýrunum.

Þetta birtist um alla jörð, í mörgum þáttum umhverfis, og orsakirnar eru yfirleitt mennskar. Breytingar eru á loftslagi, vegna þess að við keyrum bíla, kaupum drasl og fljúgum til útlanda oft á ári! Ef við viljum bjarga sjálfum okkur, börnum okkar og lífinu á jörðinni í leiðinni, þá þurfum við að breyta hegðan okkar. Og þrýsta á stjórnvöld að taka til aðgerða. Við eigum ekki að mótmæla þegar grænir skattar eru settir á eldsneyti til að auðveld orkuskipt, eða flugfargjöld hækka til að draga úr loftslagsbreytingum! Hugsa um langtímahag ekki skammtímavellíðan.

Pistillinn var ritaður eftir samræður við Morgunútvarpsfólk á Rás 2.

ítarefni:

. CNN 21. febrúar 2019. Australian mammal becomes first to go extinct due to climate change. https://edition.cnn.com/2019/02/20/australia/mammal-climate-change-extinction-intl-trnd/index.html

Giant tortoise believed extinct for 100 years found in Galápagos – The guardian 21. feb 2019.

Smithsonian, fjöldi skordýra.

Ed Young 19. feb. 2019. The atlantic Is the Insect Apocalypse Really Upon Us?

By Brooke Jarvis, 27. nóv. 2018 The Insect Apocalypse Is Here.


Kynning á Flóru Íslands - 25. febrúar.

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 25. febrúar 2019 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Fyrir dagskrá aðalfundar verður bókin Flóra Íslands kynnt. Hún kom út núna fyrir jólin og eru höfundar Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir. Erindið flytja þau Þóra og Jón Baldur og hefst það kl. 17:15. Allir eru velkomnir eins og á önnur fræðsluerindi félagsins.

 

Aðalfundarstörf hefjast að því loknu, kl. 18:15.

 

Hægt er að deila viðburðinum á Facebook

 


Samband okkar við pottablóm og gen

Umhverfi nútímamannsins er fullt af framandi efnum og þáttum, m.a. hættulegum lífrænum efnasamböndum. Það eru tvær leiðir til að takast á við vandann. Minnka notkun eða seytingu á lífrænum efnasamböndum, eða leita leiða til að hreinsa loft í mannabústöðum.

Hópur við Washington Háskólann í Seattle nýtti sér erfðatækni til að reyna að leysa vandann.

Long Zhang og félagar notuðu erfðatækni notuð til að flytja gen úr kanínu inn í stofublóm til að gera henni kleift að taka upp og eyða hættulegum efnum.

Hvernig virkar erfðatækni?

Gen er einangrað – kallað klónun – og sett í genaferju. Í þessu tilfelli var skeytt saman tveimur genum, P450 geninu 2e1 og geni sem skráir fyrir grænu flúrljómandi prótíni, sem ættað er úr marglyttu. Þetta seinna er notað til að skima fyrir erfðabreyttum plöntum, en er áhrifalaust að öðru leyti.

P450 er hópur ensíma sem taka þátt í nýsmíð, umbreytingu og/eða niðurbroti á lífrænum efnum, t.d. fitum, steraafleiðum, virkum efnum úr plöntum eða lyfjum. Menn eru t.d. með 60 slík gen, en hver tegund er með ólikt sett af genum.

Til urðu 8 erfðabreyttar plöntur, sem tjáðu P450 2e1 genið mismikið (það er fyllilega eðlilegt, það fer eftir því hvar genið innlimaðist í litning mánagullsins hveru vel það er tjáð). Afleiðingin er hins vegar sú að plönturnar eru misgóðar í að framleiða prótínið og hafa því mismikla getu til að brjóta niður efnasamböndin.

Áður hafði þetta gen verið flutt inn í tré, en hér var notast við stofublómið mánagull – því markmiðið var að búa til plöntu sem gæti hreinsað loft innan dyra.

Til að kanna hvort að markmið rannsóknar tókust voru plöntur settar í lokaða klefa, með venjulegu andrúmslofti eða með lífrænum eiturefnum.

Prófað var bæði benzen og klóróform, hvoru tveggja andstyggðar efnasambönd, hvimleið í smáskömmtum (sbr lúranna sem Tinni fékk) en banvæn í of miklu magni.

Niðurstöðurnar sýna að styrkur efnanna minnkar í klefa með erfðabreyttu mánagullunum, en ekki hjá viðmiðunarhópunum. Ályktunin er sú að plantan tekur efnin upp, og ensímið brýtur að öllum líkindum niður efnin. 

Rannsóknin er ekki fullkomin, 1 það voru ekki sýnd öll gögn sem staðfesta innlimum gensins, (óbein mæling styður þá ályktun), 2 ekki ar athugað hvort þau safnist upp í plöntunni eða hún brjóti þau niður og nýti sér 3 prófunin á efnunum var gerð með fjórum endurtekningum. (heppilegra hefði verið að gera fleiri endurtekningar). 4 nokkrar aðrar rannsóknir hafa gert þetta áður, flytja þetta gen inn í plöntur, en bara þessi komst í fréttirnar.

En stóra spurningin er, vill fólk kaupa erfðabreytta plöntu til að hreinsa loftið sitt?

Erfðabreyttar plöntur hafa mætt töluverðri mótspyrnu, sérstaklega í Evrópu. Orsakirnar eru fjölþættar, m.a. andspyrna við iðnvæddan landbúnað eða matvælaframleiðslu, sókn í heilbrigðari lífstíl, og hræðsla við að verið sé að spilla náttúrunni.

Ótti við erfðabreyttar lífverur er mjög raunverulegur og tilfinningaþrunginn. Nýlegar sálfræðirannsóknir sýna að við túlkum gen á annan hátt en aðra þætti í veröldinni. Gen eru álitin hluti af eðli lífvera. Og breytingar á þeim, t.d. af mannavöldum, er þá röskun á eðli lífsins.

Steven Heine fjallar um þetta í bókinni DNA is not destiny.

Hópi fólks var skipt í þrennt. Hluti hópsins las grein um að umhverfisþættir ýti undir offitu. Annar hluti las grein um að gen ýti undir offitu, og sá þriðji fékk texta sem sagði ekkert um offitu. Eftir lesturinn fékk fólk aðgang að hvíldarherbergi með kökubakka. Niðurstöðurnar eru þær að fólk sem las um gen, borðar fleiri kökur en hinir. Ef þú “veist” að offita er af völdum gena, eru minni líkur á því að þú gætir aðhalds. Þeir sem lásu um áhrif umhverfis á offitu, brugðust ekki við. M.o.o. við trúum meira á áhrif erfða en umhverfis, því við höldum að arfgengir þættir séu mikilvægari en umhverfisþættir. Sem er algert kjaftæði, því felstir sjúkdómar eru með arfgengi minna en 50% sem þýðir að umhverfi (og tilviljun) skiptir meira máli en gen.

lottetal07b.jpgÍtarefni.

Long Zhang, Ryan Routsong, and Stuart E. Strand. Greatly Enhanced Removal of Volatile Organic Carcinogens by a Genetically Modified Houseplant, Pothos Ivy (Epipremnum aureum) Expressing the Mammalian Cytochrome P450 2e1 Gene Environ. Sci. Technol., 2019, 53 (1), pp 325–331. DOI: 10.1021/acs.est.8b04811

https://pubs.acs.org/doi/10.1021/acs.est.8b04811

Dar-Nimrod I, Cheung BY, Ruby MB, Heine SJ. Can merely learning about obesity genes affect eating behavior? Appetite. 2014 Oct;81:269-76. doi: 10.1016/j.appet.2014.06.109.

Unræður í útvarpinu, RÁS2 7 feb. Hlusta.

Myndin er úr grein okkar frá 2007, litað er fyrir þremur prótínum í flugufóstrum með hjálp GFP.

 


Meistaradagur líffræði 25. janúar

Föstudagur, Janúar 25, 2019 - 13:00

Meistaranemar við Líf- og umhverfisvísindadeild og Jarðvísindadeild kynna meistaraverkefni sín.

Allir velkomnir.MSU_museum_butterflies

Stofa/room 132 Stofustjóri: Ingibjörg Svala Jónsdóttir

13:00Opnun 
13:10Grétar GuðmundssonMicroRNA in the development and
craniofacial morphogenesis of
polymorphic Arctic charr (Salvelinus alpinus)
13:30Samantha JengMicrotubule associations of Pontin and
Reptin: roles in the dendritic arbor of
Drosophila sensory neurons
13:50Ásdís ÓlafsdóttirÁhrif olíu á krækling (Mytilus edulis L.) frá hreinu og menguðu svæði við
Ísland: uppsöfnun PAH efna og DNA
skemmdir
14:10Sölvi Rúnar VignissonFood selection of waders on migration at Reykjanesskagi
14:30Anna SelbmannComparison of the pulsed call repertoires of killer whales (Orcinus orca) in Iceland and Norway
14:50Mervi Orvokki Luoma

Distribution of Cow Parsley (Anthriscus
sylvestris
) in Reykjavík


Verkfærakista doktorsnema

Miðstöð framhaldsnáms við HÍ hefur vaxið og aukið þjónustu við framhaldsnema.

Nýjasta framlagið er röð stuttra fyrirlestra fyrir doktorsnema um margvíslega hagnýt og fræðileg atriði. Til að mynda verður boðið upp á fyrirlestra um siðfræði, notkun gagnagrunna, ritun, heimildaumsýslu og fleira.

Allar vinnustofur fara fram á ensku.  Boðið verður upp á hádegisverð. 
 
Nokkrar vinnustofur eru tilgreindar hér að neðan, sjá tengil að ofan á heildarlistann.

Starfsleiðir utan háskólans fyrir doktora
Alt-Ac Careers for PhDs
Jónína Ólafsdóttir Kárdal, Náms- og starfráðgjöf / Student Counselling and Career Centre
17. janúar, kl. 12-13:30 HT-300
Skráning/Registration

Hvernig klárar maður ritgerðina? Verkefnastjórn fyrir doktorsnema
Project Management Tools for Finishing your Dissertation
Randi W. Stebbins, Ritver Menntavísindasviðs / School of Education Writing Centre
23. janúar, kl. 12-13:30 HT-300
Skráning/Registration

Skipulag á rannsóknum með Endnote

Organizing Your Research with Endnote
Erlendur Már Antonsson, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn / National and University Library of Iceland
6. febrúar, kl. 12:00-13:30 HT-300
Skráning/Registration

 


Vísindauppgötvun ársins - púki í hverri frumu

Hvað ef við gætum vitað hvað er að gerast fyrir hverja einustu sameind í hverri einustu frumu líkamans á hverri einustu millisekúndu?

Vísindatímaritið Science tilkynnti í vikunni vísindauppgötvun ársins. Hún er sú að nú er hægt að fylgjast með stökum frumum, þegar lífverur þroskast frá frjóvguðu eggi.

Þroskun lífvera er eitt flóknasta ferli sem vitað er um. Hvernig það gerist, t.d. frá frjóvgun eggs konu til fæðingar barns er bara þekkt að litlu leyti. Nýjar aðferðir í sameindalíffræði hafa gert vísindamönnum kleift að fylgjast með þroskun, frumu fyrir frumu.

Rannsóknirnar eru gerðar á tilraunadýrum, eins og flugum, músum eða zebrafiskum. Með því að raðgreina RNA í fóstrum á ólíkum tímapunktum þroskunar, er hægt að fylgjast með þroskun þeirra, rekja uppruna og átta sig á því hvernig þær markast, ákvarðast og sérhæfast.

Tæknin í dag er því komin nálægt því sem frakkinn Pierre Simon de Laplace (1749-1827) lét sig dreyma um. Hann var að velta fyrir sér orsökum og afleiðingum í veröldinn. Hann sagði að ef við hefðum fullkomna þekkingu á einhverju efnakerfi, þá myndum við öðlast möguleika á að spá fyrir um framtíðina.

En hvernig getur maður vitað allt um sameindirnar?

Laplace sá fyrir sér að ef púki gæti fylgst með öllu sem gerist, t.d. í efnahvarfi þá væri hægt að vita allt sem gerist. Framtiðin yrði opin bók.

Aðferðir nútímans, raðgreiningar á stökum frumum, CRISPR erfðatækni og smásjártækni gera okkur nú kleift að fylgjast með atburðaráð þroskunar með undraverðri nákvæmni.

Það þýðir náttúrulega að púkarnir í frumunum eru ekki raunverulegir, en hver þarfnast svo sem púka þegar vísindalegar aðferðir standa til boða.

tileshop.fcgiMyndin er af þroskun zebrafisks frá frjövgun. Hver kúla táknar eina frumu, og dreifing þeirra og litir sýna þrjár megingreinar þroskunar, sem myndar grundvallarvefi fóstursins. Af vefsvæði Science.

Umfjöllun Elisabet Pennisi í Science, Development cell by cell.

ítarefni.

Single-cell reconstruction of developmental trajectories during zebrafish embryogenesis.

Farrell JA, Wang Y, Riesenfeld SJ, Shekhar K, Regev A, Schier AF.


Íslenskir stjórnmálamenn skilja ekki mikilvægi vísinda

Fyrir rúmri viku stóð fyrir dyrum þriðja umræða fjárlaga ríkisins. Í þeirri útgáfu fjárlagafrumvarpsins var gert ráð fyrir 146.6 milljón króna niðurskurði á framlagi til Rannsóknasjóði Vísinda og tækniráðs. Af því tilefni var efnt til undirskriftarlista og mótmæla. Við og nokkrir félagar í vísindasamfélaginu rituðu opið bréf sem sent var á þorra þingheims. Ákall til þingmanna: Kröftug fjárfesting í vísindarannsóknum er forsenda framþróunar.

Hluti bréfsins birtist hér að neðan.

Sú fregn hefur borist að til standi að lækka framlag í Rannsóknasjóð um 146.6 milljónir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2017-2019 segir „Leiðarljós í stefnu Vísinda- og tækniráðs er að fjárfesting í rannsóknum og þróun nái 3% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024.“ Til þess þarf fjörutíu prósent aukningu miðað við árið 2017, eða tæpa fjóra milljarða króna á ári. Framlag ríkisins til samkeppnissjóða ætti þessu samkvæmt að margfaldast. Því er með öllu óskiljanlegt að nú sé lagt til að minnka framlag til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs, sem er hornsteinn grunnrannsókna á Íslandi.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 segir við lið 7.1: „Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2019 er áætluð 8.350,2 m.kr. og hækkar um 650,2 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreyting um en þær nema 51,2 m.kr. “ Helsta breyting á fjárheimildum málaflokksins er hækkun á framlagi til rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun, um 807 m.kr. milli ára. Við fögnum aukinni fjárfestingu í sameiginlegum áætlunum ESB, sem íslenskir vísindamenn sækja einnig í en aukningin undir þessum lið skýrist líklega af samningsbundnu framlagi beintengdu vergri þjóðarframleiðslu. Við höfum hins vegar verulegar áhyggjur af almennum mótvægisaðgerðum til að draga úr útgjaldavexti upp á 181,6 millj. kr. Spurst hefur út að niðurskurðurinn muni allur bitna á Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs, sem styrkir grunnrannsóknir á öllum fræðasviðum allt frá sjúkdómum, eldgosum og annarri náttúruvá, Íslandssögu að gervigreind og máltækni. Við teljum rangt að almenn aðhaldskrafa bitni eingöngu á innlendum grunnrannsóknum. Sérstaklega í ljósi þess að aukning í sameiginlegar áætlanir ESB spanna mun fleiri flokka en grunnrannsóknir. Rannsóknasjóður styrkir innlendar grunnrannsóknir, bæða á viðfangsefnum með alþjóðlega og íslenska skírskotun.

Reyndar var þessi niðurskurður á Rannsóknasjóði tekinn til baka, samkvæmt yfirlýsingu formanns fjármálanefndar við upphaf þriðju umræðu fjárlaga. Þetta var gert með aukningu á fjárlögum til Rannsóknasjóðs og með tilfærslum innan liða í fjárlaga frumvarpinu (sem þýðir að peningar voru teknir af öðrum liðum einnig mikilvægum í staðinn!)

Veruleiki íslenskra vísinda er að á hverju ári þarf að minna stjórnvöld á mikilvægi vísinda. Og að framlög til háskóla eru ekki nægileg til að styrkja rannsóknir. Óháðir sjóðir eru nauðsynlegir. Í bréfinu til þingmanna stóð.

Framlag til háskóla eflir ekki grunnrannsóknir á sama hátt og samkeppnissjóðir Rannsóknaumhverfið á Íslandi er þess eðlis að styrkir úr Rannsóknasjóði er eina haldreipi flestra vísindamanna til að stunda rannsóknir. Því var haldið fram að lækkun til sjóða Vísinda- og tækniráðs væri réttlætanleg vegna fyrirhugaðrar 4% aukningar (skv. krónutölu) á fjárframlögum til háskóla landsins. Þetta er mikill misskilningur.

Í fyrsta lagi stendur 4% hækkun einungis undir launaskriði starfsfólks háskólanna.*

Í öðru lagi er launakostnaður um 80% af kostnaði háskólanna, og lítið fé aukreitis fyrir rannsóknarsjóði þeirra. Til dæmis borgar meðalstyrkur frá Rannsóknasjóði HÍ laun grunnnema í 3 mánuði. Á meðan dugir styrkur úr Rannsóknasjóði Vísinda- og Tækniráðs t.a.m. fyrir launum tveggja doktorsnema í þrjú ár.

Í þriðja lagi, leggja háskólar lítið annað meðlag með rannsóknum og því er ekki hægt að rökstyðja lækkuð framlög í samkeppnissjóði með því að framlög til háskólanna hafi hækkað.

Í fjórða lagi, hefur hluta af auknu fé til háskólanna verið beint í stoðþjónustu, eins og t.d. Einkaleyfastofu, en ef styrkir til grunnrannsókna eru skornir skapast færri nýjungar til að sækja um einkaleyfi á.

* Reyndar kom í ljós á máli Rektors HÍ á fundi í vikunni að 4% hækkun á framlagi til HÍ dugar ekki fyrir launaskriði. Það þyrfti 6% hækkun bara til að standa undir launaskuldbindingum sem ríkið skrifaði undir í kjarasamningum við háskólakennara og prófessora. Háskólar eru settir í þá ómögulegu stöðu að útgjöldin aukast hraðar en tekjurnar, og því fækkar nýráðningum. Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir deildir sem þarfnast endurnýjunar, sem er ein ástæðan þess að námsbraut í líffræði hefur ekki fengið að ráða nýja kennara í stað þeirra 6 sem eru að hafa hætt eða munu láta af störfum á næstu árum.

Spegillin fjallaði um ástand íslensks vísindasamfélags í vikunni.

Íslenskt vísindasamfélag er verulega vanfjármagnað og þeim vísindamönnum sem fá rannsóknarstyrki hefur hlutfallslega fækkað. Tvöfalda þyrfti ef ekki margfalda sjóðina, segir Erna Magnúsdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands og forseti Vísindafélags Íslendinga. Styrkirnir eru svo lágir að íslenskir vísindamenn erlendis flytja ekki heim eftir nám.
 

Atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi

Lagt var til, við umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi, að draga úr fjárveitingum til rannsóknarsjóðs Vísinda- og tækniráðs um tæpar 147 milljónir sem eru um 17%. Vísindamenn brugðust hart við og hófu undirskriftasöfnun og skrifuðu tæplega 1000 vísindamenn undir áskorun til alþingismanna. Við upphaf þriðju umræðu á Alþingi var svo hætt við niðurskurðinn. 
Það vakti athygli að í áskoruninni var meðal annars bent á það að þegar væri mikill atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi. Spegillinn hélt því á fund við Ernu til að ræða við hana um stöðu vísindarannsókna á Íslandi og atgervisflóttann.

Undirfjármögnun háskólanna og undirfjármögnun rannsóknasjóðanna eru ólíkar birtingarmyndir sama vandamáls. Íslenskir stjórnmálamenn skilja ekki mikilvægi vísinda. Eða allavega ekki nægilega margir þeirra til að umbætur nái í gegn.


Hvetjum stjórnvöld til að falla frá niðurskurði til vísinda

Hvetjum stjórnvöld til að falla frá niðurskurði til vísinda

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 gerir ráð fyrir stórfelldum niðurskurði til Rannsóknasjóðs  Vísinda- og tækniráðs næstu árin, þrátt fyrir að fjárveitingar til hans sé nú mikið lægri en í sambærilega sjóði á nágrannalöndunum.

  • Vísindi eru undirstaða framfara í samfélaginu og forsenda nýsköpunar í atvinnulífinu
  • Samkeppnissjóðir fjármagna bestu vísindin, tryggja menntun og nýliðun og eru nauðsynlegir til að íslenskir vísindamenn geti sótt fé í erlenda samkeppnissjóði
  • Atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi er þegar orðinn mikill og ljóst að hann muni aukast ef af fyrirhuguðum niðurskurði verður, þar sem 25 störf ungra vísindamanna munu þá hverfa strax á næsta ári

Í nýlegri stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem stýrt er af forsætisráðherra, eru metnaðarfull og skýr markmið um eflingu íslensks þekkingarsamfélags. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að fjárfesting í ransóknum og þróun fari úr 2 í 3% af landsframleiðslu, en til þess einungis að halda í við núverandi landsframleiðslu þyrfti að auka fjármagn í Rannsóknasjóð um milljarð.

Við, undirrituð, hvetjum stjórnvöld til að hugsa til framtíðar og auka fjárveitingar til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs.

https://is.petitions24.com/hvetjum_stjornvold_til_a_falla_fra_niurskuri_i_visindi


Hið innra drif, aflvaki góðra vísinda

Hvaða hvatningu þurfa akademískir starfsmenn til að vinna vel? Að mínu viti er mikilvægt að drifið til að stunda góð vísindi, kenna af ástríðu eða vilja bæta samfélagið og veröldina komi innan frá. Ekki vegna þess að akademískir starfsmenn vænti launagreiðslu í lok árs, medalíu frá skólanum fyrir góð störf, karamellu í vikulok.

 

Samt fá háskólakennarar launabónusa fyrir rannsóknar „afköst“ sem metið er með mats og hvatakerfi háskólans. Spurning er hverus langt á að ganga í þeirri vitleysunni. Ætti að gefa rannsóknarpunkt fyrir að mæta á háskólaþing? Og annan fyrir að taka þátt í umræðum og skrifa á skoðanir á blað?

 

 

Ég tel ytri hvatning ekki nauðsynlega og ef til vill til óþurftar fyrir starf háskóla og vísindi almennt. Það var skoðun Edward Lewis, sem fékk Nóbelsverðlaun í læknis- og lífeðlisfræði árið 1995 fyrir að uppgötva hox genin. Hann taldi að of mikið hrós myndi grafa undan þroska doktorsnema. Hann sagði „í drottins nafni, ekki hvetja þau“ („For Gods sake do not encourage them“). Hans skoðun var sú, að doktorsnemar yrðu að finna sitt innra drif og áhuga til að vinna starf sitt vel.

 

Edward vann að rannsóknum á sínu sviði erfðafræði um áratuga skeið. Hann var þolinmóður og samviskusamur, setti t.d. upp 50.000 ólíkar æxlunartilraunir á starfsferli sínum. Hann birti niðurstöður sínar, en var ekki með mesta „framleiðni“ í deildinni sinni. Hann var þolinmóður og fylgdi eftir tilgátum sínum, enda voru nóbelsverðlaunin gefin fyrir uppgötvanir hans ekki fjölda greina sem hann birti.

Ítarefni:

Æviágrip Edward B. Lewis á vef Nóbelsverðlauna nefndarinnar.

Pétur H. Petersen og Arnar Pálsson, Fréttablaðið 2016. Gallað vinnumatskerfi HÍ vinnur gegn gæðum visinda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband