Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Vísindaspjall 2018

Föstudaginn 16. nóvember 2018 verður vísindaspjall og aðalfundur Líffræðifélags Íslands haldinn á Kex Hostel, Skúlagötu 28, 101 Reykjavík.

Aðalfundurinn verður frá. 19:30 til 20:00, og hefst vísindaspjallið í beinu framhaldi ca. kl. 20:00.

Þema kvöldsins verður “Vísindi í fjölmiðlum” . Við fáum til okkar góða gesti sem hafa einmitt miðlað vísindum í fjölmiðla upp á síðkastið á mismunandi máta:

Hrönn Egilsdóttir, sjávarvistfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun
Kjartan Hreinn Njálsson, ritstjóri hjá Fréttablaðinu
Rannveig Magnúsdóttir ,líffræðingur hjá Landvernd og TEDx fyrirlesari
Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og þáttastjórnandi Sjónaukans

Kvöldið verður á léttu nótunum og því tilvalið fyrir líffræðinga og áhugamenn um líffræði að auka tengslanetið. Endilega skráið ykkur á viðburðinn hér: http://ww.facebook.com/events/343268402886668

eða með því að senda póst á stjorn@biologia.is, svo að hægt sé að áætla fjölda.

450px-sargassosea.gifHvað? Hefðbundin aðalfundarstörf og síðan vísindaspjall með nokkrum góðum gestum. Þema kvöldsins verður “Vísindi í fjölmiðlum”.

Meiri upplýsingar um viðburðinn: http://biologia.is/vidburdir/visindaspjall-og-adalfundur-2018/

og skráning hér: http://ww.facebook.com/events/343268402886668

eða með því að senda póst á stjorn@biologia.is, svo að hægt sé að áætla fjölda.

Allir velkomnir og ókeypis inn.

Mynd af þanghafinu utan úr geimnum.


Nóbelsverðlaun í hagnýtri þróunarfræði

Hvernig getum við þróað ný lyf, betri ensím og hreinari efnavörur?

 

Ein leið er að ráða Darwin í vinnu. Eða öllu heldur hagnýta þróunarlögmálið.

 

Nóbelsverðlaunin fyrir efnafræði árið 2018 voru veitt þremur vísindamönnum sem voru frumkvöðlar í því að hagnýta náttúrulegt val til að ná framförum í efna og prótínsmíð.

 

Margir vísindamenn vinna við að leysa hagnýt vandamál, t.d. að búa til kröftugari sýklalyf eða lyf með minni aukaverkunum. Ein leið til að gera slíkt er að reyna að hanna betri sameindir, út frá bestu þekkingu á virkni þeirra eða efnasamsetningu. Hin leiðin er sú að hagnýta hið náttúrulegusta af öllum lögmálum lífríkisins, sem Charles R. Darwin og Alfred R. Wallace lýstu í greinum árið 1858.

 

Lögmálið byggir á nokkrum grunnforsendum.

 

Í fyrsta lagi, breytileiki þarf að vera til staðar.

 

Í öðru lagi, þarf breytileikinn að vera arfgengur að einhverjum hluta.

 

Í þriðja lagi, þarf breytileikinn að hafa áhrif á viðgang einstaklings (eða gerðar).

 

Í fjórða lagi, barátta er fyrir lífinu, fleiri einstaklingar verða til en komast til næstu kynslóðar. Af þessum fjórum forsendum mun náttúrulegt val leiða til aðlögunar, og betrumbæta lífverur og eiginleika þeirra.

 

Náttúrulegu vali má beita til að "þróa" virkni efna og prótína.

 

Sem er einmitt það sem Frances Arnold gerði í rannsóknum sínum á seinni hluta síðustu aldar. Fyrst reyndi hún að nota upplýstar aðferðir, þ.e.a.s. að nota sína bestu þekkingu á eiginleikum prótína til að gera ensímin betri. En besta þekking var ónóg, og ávinningurinn takmarkaður. Náttúrulegt val er hinsvegar blint, það þarf ekki að vita neitt um eiginleika lífveranna, heldur veljast skástu gerðirnar fram yfir hinar, alveg sjálfkrafa.

 

Það sem Frances gerði var að einangra gen fyrir tiltekið ensím. Geninu var stökkbreytt handahófskennt, búnar til hundruðir eða þúsundir af ólíkum gerðum, með erfðatækni og fjölgun í örverum. Því næst var valið á grundvelli virkni ensímsins, og þau tilbrigði af geninu notuð fyrir næstu umferð. Með því að endurtaka ferlið nokkrum sinnum varð alltaf til betra og betra ensím.

 

Í einni tilraun varð til 200 sinnum virkara ensím á 3 kynslóðum.

 

Næsta bylting í fræðunum var síðan þegar útraðastokkun var hagnýtt. Þar var ólíkum útgáfum af tilteknu geni stokkað saman, dáldið eins og þegar spil eru stokkuð. Þetta ferli finnst líka í náttúrunni, þegar litningar eru stokkaðir saman í ferli sem kallat endurröðun. Það hefur einnig ávinning fyrir þróun lífvera, og vitanlega einnig gervival fyrir betri ensímum.

 

Með rannsóknum sínum gat Frances Arnold og samstarfsmenn hagnýtt náttúruleg lögmál.

 

Arnold deildi verðlaununum með George P. Smith og Gregory P. Winter. Þeirra framlag gekk út á svipaða hagnýtingu þróunarlögmálsins, með því að fjöldaframleiða ólík prótín á ytrabyrði veiruagna, sem auðveldar skimanir fyrir breytileika í lífvirkni þeirra.

 

Ítarefni:

Use of Evolution to Design Molecules Nets Nobel Prize in Chemistry for 3 Scientist, NY Times, 3. október 2018.

 

 


Vísindaspjall 16. nóvember á Kex

Föstudaginn 16. nóvember 2018 verður vísindaspjall og aðalfundur Líffræðifélagsins haldinn á Kex Hostel, Skúlagötu 28, 101 Reykjavík. Húsið opnar kl. 19:15, aðalfundurinn verður frá 19:30 til 20:00, og svo hefst vísindaspjallið í beinu framhaldi ca. kl. 20:00. Meiri upplýsingar um viðburðinn á vef félagsins og Facebook, og einnig að neðan.
 

Dagskrá aðalfundar

  1. Skýrsla stjórnar
    b. Lagðir fram skoðaðir reikningar félagsins
    c. Lagabreytingar (sækja skjal)
    d. Kosning stjórnar
    e. Önnur mál

Stjórn félagsins skipa Lísa Anne Libungan formaður, Guðmundur Árni Þórisson vefstjóri, Hlynur Bárðarson gjaldkeri, Hrönn Egilsdóttir og Eva María Sigurbjörnsdóttir meðstjórnendur. Varamaður í stjórn er Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir og skoðunarmaður reikninga Snorri Páll Davíðsson.

Kjörtímabilið eru tvö ár og rennur því út kjörtímabil þriggja stjórnarmanna, þeirra Lísu, Hrannar og Evu Maríu. Lísa gefur kost á sér til endurkjörs.
 

Vísindaspjallið

Þema kvöldsins verður "Vísindi í fjölmiðlum" . Við fáum til okkar góða gesti sem hafa einmitt miðlað vísindum í fjölmiðla upp á síðkastið á mismunandi máta:

Hrönn Egilsdóttir, sjávarvistfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun
Kjartan Hreinn Njálsson, ritstjóri hjá Fréttablaðinu
Rannveig Magnúsdóttir, líffræðingur hjá Landvernd og TEDx fyrirlesari
Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og þáttastjórnandi Sjónaukans

Kvöldið verður á léttu nótunum og því tilvalið fyrir líffræðinga og áhugamenn um líffræði að auka tengslanetið. Endilega skráið ykkur á viðburðinn hér: http://ww.facebook.com/events/343268402886668

eða með því að senda póst á stjorn@biologia.is, svo að hægt sé að áætla fjölda.


Er hægt að klóna gæludýr?

Er hægt að klóna látin gæludýr hjá einhverjum stofnunum?

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Eru til stofnanir sem klóna látin heimilisdýr?

Arnar Pálsson. „Er hægt að klóna látin gæludýr hjá einhverjum stofnunum?“ Vísindavefurinn, 12. september 2018.

Svarið við þessari spurningu fer dálítið eftir því hverrar tegundar gæludýrið er. Í raun er afar einfalt að klóna klófroska og kindur, hundar og kettir eru viðráðanlegir en ómögulegt er að klóna skjaldbökur og ranabjöllur. Þeir sem eiga kött eða hund sem þjáist af alvarlegum sjúkdómi geta leitað til fyrirtækja sem sinna klónunarþjónustu en árangurinn er ekki tryggur. Rétt er að taka fram að þessi þjónusta er mjög dýr!

Klónun, eða einræktun, felur í sér að búa til nýjan einstakling með sömu erfðasamsetningu og annar einstaklingur (frumgerðin). Nýi einstaklingurinn verður með sama erfðaefni og frumgerðin, rétt eins og eineggja tvíburar. Eineggja tvíburar eru með sama erfðaefni og eru því líkari en venjuleg systkini. En eineggja tvíburar og klónar eru ALDREI nákvæmlega eins, hvorki erfðafræðilega né í svipfari.[1]

Klónun er framkvæmd á tilraunastofu með því að fjarlægja kjarna úr eggfrumu og láta líkamsfrumu renna saman við kjarnalausa eggið. Ef eggið virkjast og þroskun hefst getur ný lífvera vaxið. Í tilfelli spendýra þarf að flytja fósturvísinn í staðgöngumóður og bíða meðgönguna eftir fæðingu klónsins. Fyrstu dýrin sem klónuð voru með þessari aðferð voru ígulker, froskar og kindin Dollý. Hestar, hundar og kettir fylgdu fljótt í kjölfarið.

Nú bjóða fyrirtæki í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum upp á klónun hunda og katta. Fyrir nokkrar milljónir króna taka þeir frumur úr (stundum dauðvona) hundi eða ketti og gera tilraun til að klóna viðkomandi með samskonar aðferð og beitt var þegar Dollý var klónuð. Fyrirtækin leggja áherslu á að um tilraun sé að ræða, ekki er öruggt að hún takist. Til að hún gangi upp þarf heillegar frumur úr gæludýrinu. Einnig þarf nokkur egg úr sömu tegund, kjarna eggjanna þarf að fjarlægja og láta frumurnar svo renna saman við þau. Ef kjarninn virkar nægileg vel og þroskun hefst eru kímblöðrur settar í leg staðgöngumæðra sem ganga með fóstrin. Eins og gefur að skilja eru mörg skref á þessari leið og alls óvíst að hún heppnist í öllum tilfellum. Þar sem gæludýraklónunarþjónusta er afar kostnaðarsöm (verðið hleypur á nokkrum milljónum eftir dýrategundum) hafa aðallega auðugir gæludýraeigendur nýtt sér hana. Síðla vetrar 2018 bárust tíðindi af því að bandaríska söng- og leikkonan Barbra Streisand hefði látið klóna tíkina Samönthu. Klónunin heppnaðist og fékk söngkonan tvo hunda sem hún nefndi Miss Scarlet og Miss Violet. Samkvæmt viðtali í dægurmálablaðinu Variety var Barbra undrandi á að hundarnir tveir væru ekki eins, sérstaklega ekki persónuleikar þeirra.

Ástæðurnar fyrir því að klónar eru ekki nákvæmlega eins er sú sama og að eineggja tvíburar eru ekki nákvæmlega eins. Eiginleikar lífvera eru tilkomnir vegna gena, umhverfis, samspils gena og umhverfis og líka tilviljana.

Í fyrsta lagi er erfðaefni tveggja einstaklinga, jafnvel klóna eða eineggja tvíbura, aldrei nákvæmlega eins. Við hverja skiptingu líkamsfruma geta orðið stökkbreytingar sem leiða til dæmis til erfðafræðilegs munar á eineggja tvíburum en einnig innan sama einstaklings. Það er einmitt rótin að krabbameinum, uppsöfnun stökkbreytinga í líkamsfrumum yfir ævina. Í öðru lagi er umhverfi tveggja einstaklinga, jafnvel klóna eða eineggja, aldrei nákvæmlega eins. Annar tvíburinn fékk tvo sleikjóa, hinn var lengur í sólinni og brann, annar veiktist af flensunni tveggja ára en hinn ekki og svo framvegis. Milljónir ólíkra umhverfisþátta móta þannig klóna og engin leið er að tryggja að tveir einstaklingar alist upp og þroskist á nákvæmlega sama hátt.

 

Í þriðja lagi er flókið samspil milli erfða og umhverfis, sem ekki verður útskýrt frekar hér.

Í fjórða lagi getur tilviljun í hegðan sameinda og ferlum þroskunar valdið því að tveir einstaklingar með sömu gen í sama umhverfi verða ólíkir. Orsökin er suð[2] í styrk og virkni sameinda og fruma innan líkamans sem getur leitt til þess að annar fótur verður styttri en hinn eða heilahvelin þroskast ólíkt í eineggja tvíburum. Því kemur ekki sérstaklega á óvart að klónar frú Streisand séu ekki nákvæmlega eins.

Samantekt:

  • Hægt er að láta klóna viss gæludýr, til dæmis hunda og ketti.
  • Klónar líta ekki eins út og frumgerðin.
  • Klónar verða ekki saman persónan og frumgerðin.
  • Ástæðurnar eru breytileiki í genum líkamsfruma, umhverfisþáttum og tilviljunin sjálf.

Tilvísanir:

  1. ^ Sama hversu oft bent er á þetta eina par tvíeggja tvíbura sem dó úr sama sjúkdómi sama daginn. Nær allir hinir eineggja tvíburarnir deyja á mismunandi dögum úr ólíkum sjúkdómum.
  2. ^ Með suði er átt við að ekki er jafnmikið myndað af öllum prótínum í öllum frumum af sömu gerð sem getur leitt til þess að líffæri virka mismunandi eða vefir þroskast ólíkt.

mbl.is Klón kostar sex milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðstefna um siðfræði læknavísinda

Á morgun hefst í Hörpu ráðstefna á vegum heimssamtaka læknafélaga, world medical association. Þar verður norræna lífsiðanefndin með málstofu um óbeinar skimanir á fóstrum fyrir fæðingu (noninvasive prenatal testing). Hingað til hefur verið nauðsynlegt að taka sýni úr fóstri eða fylgju til að greina ástand eða erfðasamsetningu fósturs. En nú hefur tækni fleygt fram, og hægt er að greina erfðasamsetningu fósturs með því að raðgreina blóðsýni úr þungaðri konu.

Hvaða siðferðilegu gildi eiga að hjálpa okkur að ákveða hverju við viljum skima fyrir?

Hvernig upplýsum við verðandi foreldra?

Hvað er hægt að gera ef alvarlegir erfðagallar finnast á fósturskeiði?

Full dagskrá ráðstefnunar er aðgengileg.

 


Ævintýri og raunir tilraunastofustúlkunnar

Skógurinn lifði í myrkrinu. Fyrir 2 til 8 milljónum ára var jörðin mun hlýrri og grænni en nú. Stórir skógar uxu norðan heimskautsbaugs, en sumrin voru eins björt og veturnir eins dimmir og nú. Þannig að nyrst í Kanada og Síberíu voru skógar sem lifðu af heimskautavetur og myrkur. En hvernig gátu trén lifað við slíkar aðstæður, án sólar í 2 eða fleiri mánuði? Tré hafa einstakar aðferðir til að þola vetur. Helsta áskorunin er vitanlega frostið sem myndar ískristalla. Tré veita vatni úr frumum sínum í rými sem eru án annara sameinda, sem virka sem fræ fyrir myndu ískristalla). En ég veit ekki almennilega hvernig þau þoldu myrkrið.

 

Vísindakonan Hope Jahren er ein af þeim sem rannsakað hafa þetta dularfulla vistkerfi. Hún hefur rannsakað plöntur og vistkerfi, í nútíma og fjarlægri fortíð. Hún gaf nýlega út bókina tilraunastofustúlkan (e. lab girl) sem tvinnar á skemmtilegan hátt frásagnir af lífi hennar og rannsóknum. Á skiptast kaflar um líffræði eða jarðfræði, t.a.m frásagnir af heimskautaskóginum eða varnarköllum plantna með hormónum, og minningarbrot frá æsku hennar og vísindaferli. Hún þurfti aldelis að berjast fyrir sínu í karllægum heimi vísindanna en gafst ekki upp þótt fellibylir mótlætis byldu á henni. Svakalegt  var að lesa um þegar yfirmaður hennar á John Hopkins bað hana, langt komin á meðgöngu og formlega í veikindaleyfi, um að sleppa því að mæta í vinnuna (af því að það var of dramatískt fyrir starfsfólkið að horfa upp á ófríska konu). Einnig lýsir hún því hversu erfitt var að hljóta viðurkenningu félaga hennar í fræðunum, þeir litu flestir á hana sem stelpuskjátu sem var að troða sér í þeirra klúbb. Þetta er engin fjarlæg fortíð, Jahren lýsir atburðum eins og þeir gerðust á síðustu áratugum síðustu aldar og fyrstu tveimur þessarar. Því miður eirir enn töluvert af þessum fornfálega hugsunarhætti í vísindum, gamlir kallar á öllum aldri sem halda að vísindi séu strákasport og að konur séu í mesta lagi með til skrauts. Í mínu starfi hef ég verið svo lánsamur að vinna með mörgum öflugum vísindakonum, bæði samstúdentum og samkennurum og svo einnig nemendum sem ég hef fengið að leiðbeina og þjálfa. Ég get alveg vottað að konur eru jafngóðar, ef ekki betri, en karlmenn í vísindum.

Lab_Girl_cover

 

 

Hvert er uppáhalds tréð þitt? Fyrir Hope Jahren var það grenitré, náskylt blágrein sem óx fyrir utan gluggann hennar í Minnesota. Hún minnir okkur á að flest okkar, nema kannski íslendingar, munum vel eftir einhverju tilteknu tré úr æsku okkar. Fyrir mér eru það alaskavíði hríslurnar í Kjósinni sem við frændsystkynin fórum í höfrungahopp yfir. Hope minnir okkur á grænu veröldina, gróðurinn sem bindur bróðurpart orkunnar sem stendur vistkerfum jarðar (þar með manninum) til boða. Og í eftirmála hvetur hún okkur til að gróðursetja tré, hjálpa til við að vernda villta náttúru og berjast gegn loftslagsbreytingum.

 

Bókin er ákaflega vel skrifuð. Hún byrjar reyndar dálítið rólega, á æskuminningum Hope og hvernig það verkaðist að hún ákvað að leggja stund á vísindi. Hvernig hún fékk að gramsa í efnafræðigræjum föður síns og leika sér að því að setja saman græjur og gera tilraunir. Og að hún hafi fundið út snemma að þetta væri hennar köllun, bæði því það var skemmtilegt og líka vegna þess að hún hafði tækifæri til að stíga skref sem fátæk móðir hennar og faðir fengu ekki. En síðan koma bomburnar, afhjúpanir um andlegt ástand Hope, svakalegir atburðir og ákaflega forvitnileg persóna í Bill. Hann er einfari með skóflu um öxl, mjög skarpur og handlaginn náungi með svipaða ástríðu og Hope. Þau verða vísindafélagar, hún fékk hann ráðinn á tilraunastofuna sem hún vann doktorsverkefnið sitt á, og svo fylgir hann henni til Georgíu, Baltimore, Cincinnati og Oahu sem tæknimaður. Púðrið í bókinni eru frásagnir af þeirra samræðum og ævintýrum. Þar er af nógu af taka, hvort sem er gröftur í gegnum jarðlög við heimskautsbaug, kappakstur yfir bandaríkin í gegnum snjóstorm, jarðarför hárlufsu eða sprengingar á tilraunastofu um miðja nótt. Ég mæli eindregið með bókinni til aflestrar, hún verður aðgengileg í Þjóðarbókhlöðunni þegar ég skila eintakinu.

Ítarefni:

Michiko Kakutani, umsögn um bókina ‘Lab Girl,’ Hope Jahren’s Road Map to the Secret Life of Plants 28. mars 2016. NY Times

https://www.nytimes.com/2016/03/29/books/review-lab-girl-hope-jahrens-road-map-to-the-secret-life-of-plants.html

Viðtal við Hope Jahren á PBS news hour 24 maí 2016. https://www.youtube.com/watch?v=UJa8dzBAhmY

Fréttatilkynning frá Ohio state University. Ancient forest emerges mummified from the Arctic: Clues to future warming impact 16. des. 2010.

https://www.sciencedaily.com/releases/2010/12/101215113243.htm

Fréttatilkynning frá John Hopkins University. Scientist Probes Fossil Oddity: Giant Redwoods Near North Pole 2002.

https://www.sciencedaily.com/releases/2002/03/020322074547.htm

 

 

 


Er hægt að klóna látin gæludýr hjá einhverjum stofnunum?

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Eru til stofnanir sem klóna látin heimilisdýr?

Arnar Pálsson. „Er hægt að klóna látin gæludýr hjá einhverjum stofnunum?Vísindavefurinn, 12. september 2018.

Svarið við þessari spurningu fer dálítið eftir því hverrar tegundar gæludýrið er. Í raun er afar einfalt að klóna klófroska og kindur, hundar og kettir eru viðráðanlegir en ómögulegt er að klóna skjaldbökur og ranabjöllur. Þeir sem eiga kött eða hund sem þjáist af alvarlegum sjúkdómi geta leitað til fyrirtækja sem sinna klónunarþjónustu en árangurinn er ekki tryggur. Rétt er að taka fram að þessi þjónusta er mjög dýr!

Klónun, eða einræktun, felur í sér að búa til nýjan einstakling með sömu erfðasamsetningu og annar einstaklingur (frumgerðin). Nýi einstaklingurinn verður með sama erfðaefni og frumgerðin, rétt eins og eineggja tvíburar. Eineggja tvíburar eru með sama erfðaefni og eru því líkari en venjuleg systkini. En eineggja tvíburar og klónar eru ALDREI nákvæmlega eins, hvorki erfðafræðilega né í svipfari.[1]
 

Klónuð dýr eru aldrei alveg nákvæmlega eins, ekki frekar en eineggja tvíburar.

Klónun er framkvæmd á tilraunastofu með því að fjarlægja kjarna úr eggfrumu og láta líkamsfrumu renna saman við kjarnalausa eggið. Ef eggið virkjast og þroskun hefst getur ný lífvera vaxið. Í tilfelli spendýra þarf að flytja fósturvísinn í staðgöngumóður og bíða meðgönguna eftir fæðingu klónsins. Fyrstu dýrin sem klónuð voru með þessari aðferð voru ígulker, froskar og kindin Dollý. Hestar, hundar og kettir fylgdu fljótt í kjölfarið.

Nú bjóða fyrirtæki í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum upp á klónun hunda og katta. Fyrir nokkrar milljónir króna taka þeir frumur úr (stundum dauðvona) hundi eða ketti og gera tilraun til að klóna viðkomandi með samskonar aðferð og beitt var þegar Dollý var klónuð.

 

Gæludýr eru klónuð sem samskonar aðferð og beitt var þegar kindin Dollý varð til. Aðferðin byggir á því að fjarlægja kjarna úr eggi og hvata samruna líkamsfrumu við eggið.

Fyrirtækin leggja áherslu á að um tilraun sé að ræða, ekki er öruggt að hún takist. Til að hún gangi upp þarf heillegar frumur úr gæludýrinu. Einnig þarf nokkur egg úr sömu tegund, kjarna eggjanna þarf að fjarlægja og láta frumurnar svo renna saman við þau. Ef kjarninn virkar nægileg vel og þroskun hefst eru kímblöðrur settar í leg staðgöngumæðra sem ganga með fóstrin. Eins og gefur að skilja eru mörg skref á þessari leið og alls óvíst að hún heppnist í öllum tilfellum.

Þar sem gæludýraklónunarþjónusta er afar kostnaðarsöm (verðið hleypur á nokkrum milljónum eftir dýrategundum) hafa aðallega auðugir gæludýraeigendur nýtt sér hana. Síðla vetrar 2018 bárust tíðindi af því að bandaríska söng- og leikkonan Barbra Streisand hefði látið klóna tíkina Samönthu. Klónunin heppnaðist og fékk söngkonan tvo hunda sem hún nefndi Miss Scarlet og Miss Violet. Samkvæmt viðtali í dægurmálablaðinu Variety var Barbra undrandi á að hundarnir tveir væru ekki eins, sérstaklega ekki persónuleikar þeirra.

Barbra Streisand með klónuðu hvolpana sína tvo.

Ástæðurnar fyrir því að klónar eru ekki nákvæmlega eins er sú sama og að eineggja tvíburar eru ekki nákvæmlega eins. Eiginleikar lífvera eru tilkomnir vegna gena, umhverfis, samspils gena og umhverfis og líka tilviljana.

Í fyrsta lagi er erfðaefni tveggja einstaklinga, jafnvel klóna eða eineggja tvíbura, aldrei nákvæmlega eins. Við hverja skiptingu líkamsfruma geta orðið stökkbreytingar sem leiða til dæmis til erfðafræðilegs munar á eineggja tvíburum en einnig innan sama einstaklings. Það er einmitt rótin að krabbameinum, uppsöfnun stökkbreytinga í líkamsfrumum yfir ævina.

 

Í öðru lagi er umhverfi tveggja einstaklinga, jafnvel klóna eða eineggja, aldrei nákvæmlega eins. Annar tvíburinn fékk tvo sleikjóa, hinn var lengur í sólinni og brann, annar veiktist af flensunni tveggja ára en hinn ekki og svo framvegis. Milljónir ólíkra umhverfisþátta móta þannig klóna og engin leið er að tryggja að tveir einstaklingar alist upp og þroskist á nákvæmlega sama hátt.

Í þriðja lagi er flókið samspil milli erfða og umhverfis, sem ekki verður útskýrt frekar hér.

 

Í fjórða lagi getur tilviljun í hegðan sameinda og ferlum þroskunar valdið því að tveir einstaklingar með sömu gen í sama umhverfi verða ólíkir. Orsökin er suð[2] í styrk og virkni sameinda og fruma innan líkamans sem getur leitt til þess að annar fótur verður styttri en hinn eða heilahvelin þroskast ólíkt í eineggja tvíburum.

Því kemur ekki sérstaklega á óvart að klónar frú Streisand séu ekki nákvæmlega eins.

Samantekt:

 

  • Hægt er að láta klóna viss gæludýr, til dæmis hunda og ketti.
  • Klónar líta ekki eins út og frumgerðin.
  • Klónar verða ekki saman persónan og frumgerðin.
  • Ástæðurnar eru breytileiki í genum líkamsfruma, umhverfisþáttum og tilviljunin sjálf.
Tilvísanir:
  1. ^ Sama hversu oft bent er á þetta eina par tvíeggja tvíbura sem dó úr sama sjúkdómi sama daginn. Nær allir hinir eineggja tvíburarnir deyja á mismunandi dögum úr ólíkum sjúkdómum.
  2. ^ Með suði er átt við að ekki er jafnmikið myndað af öllum prótínum í öllum frumum af sömu gerð sem getur leitt til þess að líffæri virka mismunandi eða vefir þroskast ólíkt.

Myndir:


Elena Ceausescu og vísindamenn sem moka á færibandið

Hvað getur hver vísindamaður rannsakað mikið og birt margar greinar?

Vísindagreinar eru mikil verk, yfirleitt nokkur þúsund orð skrifað á hátæknilegu tungumáli, sem svipar til limra eða símskeyta. Með myndum, gröfum, töflum og líkönum. Hver vísindagrein er mjög mikil vinna. En hversu margar slíkar getur einn vísindamaður ritað, t.d. á ári? Eftir fagsviðum, þá eru sumir ánægðir með að ná einni grein á ári, en aðrir e.t.v. fimm. Mikið er að ná fleiri en 10 greinum á ári, sem væri næstum því að skrifa eina grein á mánuði (með fríum auðvitað).

Elena Ceausescu er þekktust sem eiginkona Nicolai Ceausescu einræðisherra í Rúmeníu fram til ársins 1989. Eftir 24 ára harðstjórn var hann hrakinn frá völdum og þau hjónin tekin af lífi.

Elena var kosin í konunglega enska efnafræðifélagið árið 1978, vegna þess að eftir hana lágu ógrynni rannsókna í efnafræðitímaritum. Hún birti greinar um hin ólíkustu fagsvið efnafræði, mjög regulega og í virtum tímaritum einnig. Það var bara einn hængur á, hún hvorki skildi né gat nokkurn skapaðan hlut í efnafræði. En vegna þess að eiginmaður hennar var einræðisherra, og öryggislögreglan öflug, þá var henni boðið að vera meðhöfundur á nær öllum greinum sem Rúmenskir efnafræðingar birtu um margra ára skeið. Ef efnafræðingarnir færðust undan því að bjóða Elenu að vera meðhöfundur, þá hættu þeir fljótlega efnafræði. Hún öðlaðist meira að segja doktorsgráðu í efnafræði frá Rúmenskum háskóla. Viljugir efnafræðingar skrifuðu ritgerð fyrir hana, en því miður voru regularnar og lögin þannig að doktorar þurftu að verja ritgerðir sínar á opinberum vettvangi. Blessunarlega var hægt að breyta lögunum, þannig að hún fékk doktorsgráðuna sem hún þráði.

En hveru algengt er það að einhver vísindamenn riti meira en 12 greinar á ári, eða kannski 72 greinar á ári?

Það hljómar eins og ómögulegt. En John Ioannidis, Richard Klavans og Kevin W. Boyack drógu þessa aðilla fram í kastljósið í nýlegri grein.

Í ljós komu 7,888 aðillar sem birta 72 eða fleiri greinar á ári. Sem er ein grein á 5 daga fresti. Ekki kemur á óvart að margir þessara aðilla eru eðlisfræðingar, sem taka þátt í stórum alþjóðlegum verkefnum (með 1000 einstaklingum), þar sem hver grein getur verið með 1000 eða 2000 höfunda. Hver og einn hjálpaði til, en það voru bara nokkrir sem skrifuðu greinina. Það er reyndar spurning, hvernig getur maður sett nafn sitt á grein, ef maður fær ekki tækifæri til að skrifa hana eða gera athugasemdir við efnistökin?

Stór hópi höfunda var frá Kóreu og Kína. Hluti þess má etv útskýra með því að margir frá þessum löndum deila eins nöfnum, og því möguleiki að einhverjir "einstaklingar" séu samsafn greina frá nokkrum aðillum. En, John og félagar benda á að gögnin frá því eftir 2016 (þegar skráning vísindamanna batnaði með Orcid kerfinu t.d.) sýna ennþá mikla skekkju fyrir kínverska vísindamenn. Þar er grunur um spillingu á borð við það sem Elena Ceausecscu er einkennandi fyrir. Þar sem yfirmaður verður sjálfkrafa höfundur á öllum sem kemur frá rannsóknarstofunni, háskólanum eða fylkinu.

Þeir skoðuðu nánar hóp um 265 vísindamanna sem birtu fleiri en 72 greinar á ári. Um helmingur þeirra starfar í lækni- og líffræði. Margir tilheyra stórum hópum, eru með langtíma skimanir eða stýra stórum gagnagrunnum sem notaðir eru í margskonar stúdíur. Aðrir virðast verða mjög iðnir, við það eitt að verða yfirmenn á stórum einingum. Sem svipar til Ceausescu stílsins. Einnig er heilmikið um að menn birti margar greinar í sama tímaritinu, og það hljómar eins og fjöldaframleiðsla. Hætt er við að þær rannsóknir séu ekkert sérstaklega innihaldsríkar, ef nær samskonar greinar um minni háttar tilbrigði er dælt út án mikils vísindalegs nýmælis.

Forvitnilegast hlutinn er síðan þegar þeir hafa samband við þessa vísindamenn með ritræpu spyrja hvernig þeir fari að þessu (lesið um það í greininni, sjá tengil neðst), og hvernig þeir skilgreina framlag höfunda.

Algengastu viðmið um framlag höfunda voru skilgreind fyrir læknavísindi árið 1988, og eru kennd við Vancover. Lykilatriðin fjögur, sem eiga öll að vera uppfyllt til að viðkomandi geti talist höfundur, eru:

1. Viðkomandi verður að hafa tekið þátt í að skipuleggja, framkvæma rannsóknina eða vinna úr niðurstöðum.

2. Hjálpa til við að skrifa eða leiðrétta greinina.

3. Samþykkja lokaútgáfu af handritinum.

4. Taka ábyrgð á efni greinarinnar.

Í ljós kom að fæstir þeirra 81 (af 265) uppfylltu þessi skilyrði. Sumir jafnvel ekki eitt skilyrði, fyrir stóran hluta þeirra greina sem þeir voru samt höfundar ár. Útúrsnúningar þeirra voru margir og vandræðalegir, en ljóst er að margir vísindamenn setja nöfn sín á greinar sem lýsa rannsóknum sem þeir lögðu nær ekkert í, og þar með greinar þeir hafa varla lesið.

Gögn Ioannidis og félagar sýna hvernig þessum ofvirku vísindamönnum hefur fjölgað síðustu tvo áratugi. Þessir, ofurvirku eða ritræpu visíndamönnum fjölgaði stöðugt til 2014. Þeir ræða ekki orsakirnar, en mig grunar að hin ofursnjöllu hvatakerfi eigi þar hlut að máli. Það eru kerfi, eins og hið alræmda punktakerfi HÍ, sem borga kennurum og vísindamönnum beinharða peninga fyrir að birta vísindagreinar. Sem kemur ofan á grunnlaun þeirra. Löngu áður en bankamenn á íslandi fóru að borga sér bónusa, höfðu prófessorar, ríkið og Háskóli Íslands þróað bónuskerfi fyrir vísindamenn.

Ítarefni:

John P. A. Ioannidis, Richard Klavans og Kevin W. Boyack. Comment: Thousands of scientists publish a paper every five days Nature 12. sept 2018. 

Roger Hanson - Elena Ceausescu - Romanian dictator's  wife and fake scientist, 13. júlí 2017, Stuff.

Arnar Pálsson - Framleiðsla og framreiðsla vísinda

The San Francisco Declaration on Research Assessment (DORA)

Arnar Pálsson | 4. mars 2013  Ný opin tímarit á sviði líffræði

Ályktun Félags prófessora um punktakerfi HÍ - 2011.


Á risaeðluveiðum á Grænlandi

Það ríktu risaeðlur á Grænlandi, fyrir t.d. 210 milljónum árum.

Steve Campana líffræðingur við Háskóla Íslands fór þangað í sumar til að veiða risaeðlu...bein.

Hann mun segja frá leiðangrinum í föstudagsfyrirlestri Líffræðistofnunar HÍ næstkomandi föstudag. Erindið verður kl 12:30 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Erindið er öllum opið og verður flutt á ensku.

Nánari upplýsingar: Risaeðluleit á Grænlandi - 7. september.

Meðfylgjandi mynd er af Sue, frægasta eintaki Tyranosaurus Rex sem er til sýnir í Field museum í Chicago.

Trex_Sue


Staða raungreina á Íslandi

Til: Mennta- og menningarmálaráðherra
Efni: Ályktun um stöðu raungreina á Íslandi.

Nýjum námskrám ættu að fylgja nýjar áskoranir. Áskoranir sem bæta starf og auka gæði menntunar. Heppilegt væri að þetta ætti við nýju styttu námsbrautir framhaldsskólanna. Áskoranirnar undanfarin missera liggja í því að reyna að lágmarka skaða sem styttingin felur í sér. Fjölmargir metnaðarfullir áfangar hafa verið smíðaðir, samþykktir og auglýstir í skólanámskrám íslenskra framhaldsskóla. Sumir eru kenndir á hverri önn, aðrir aðra hverja og enn aðrir aldrei þar sem þeir ná ekki að uppfylla viðmið um hópastærðir og er því ekki rekstrargrundvöllur fyrir kennslunni. Áhugasamir nemendur sem óska eftir að dýpka þekkingu sína fá því ekki menntun við hæfi.

Til er fólk sem fagnar styttingu framhaldsskólanna, telja það ákall til breyttra tíma og mikilvægt til að leiðrétta tímaskekkju íslensks skólakerfis, eftir breytinguna útskrifist íslensk ungmenni með stúdentspróf á sama tíma og jafnaldrar þeirra í útlöndum ljúka samskonar námi. Útlönd eru þó allskonar og tímaskalar hvorki fasti né forsenda kerfisbreytinga á Íslandi. Fagleg rök um mikilvægi ákveðinna námsgreina, hverju mætti sleppa o.s.frv. væru hald- bærari forsendur til að byggja breytingar á. Framhaldsskólinn á Íslandi hefur verið styttur í þrjú ár og þekkir skólafólk að sú breyting byggir ekki á faglegum rökum um aukin gæði menntunar. Samtök líffræðikennara hafa um árabil sent frá sér ályktanir þ.s. viðraðar eru áhyggjur af því að raungreinakennslu fari hnignandi bæði í grunn- og framhaldsskólum.

Á sama tíma og kennsla í raungreinum dregst saman á framhaldsskólastiginu hefur kennslustundum í raungreinum á efsta stigi grunnskóla verið fækkað og þar á þó að fara fram kennsla sem eitt sinn átti heima í framhaldsskólunum. Samkvæmt viðmiðunarstundaskrá er einungis gert ráð fyrir þremur kennslustundum á viku í náttúrugreinum á efsta stigi, sem er allt of lítið. Reynt hefur verið að fækka kennslustundum enn frekar en vegna kröftugra mótmæla var fallið frá því. Kennslustundum var þó fjölgað á yngri stigum. Í framhaldi af styttingu framhaldsskólana væri eðlilegra að fjölga kennslustundum í náttúrugreinum í grunnskóla sérstaklega m.t.t. þess að þeir nemendur sem fara á aðrar brautir en náttúrufræðibraut útskrifast í mörgum tilfellum úr framhaldsskóla án þess að taka einn einasta raungreinaáfanga. Þessir nemendur eru kennarar framtíðarinnar, fólkið sem á að kveikja áhuga komandi kynslóða á eigin heilbrigði og jarðarinnar. Þetta eru verðandi lögfræðingar, blaðamenn og kjósendur.

Samtök líffræðikennara ítreka áhyggjur sínar af þessu. Mikilvægi þess að auka menntun á þessum sviðum ætti einnig að vera augljóst á tímum tæknivæðingar samfélagsins. Við hátíðleg tækifæri er mikilvægi aukinnar menntunar í vísinda ítrekuð. Mikið væri heppilegt að láta verkin tala. Á tímum hnattrænnar hlýnunar, súrnunar sjávar og kröfunnar um sjálfbæra nýtingu auðlinda er einnig áhyggjuefni að nú er svo komið að nemendur á náttúrufræðibrautum sumra skóla ljúka stúdentsprófi án þess að hafa fengið
kennslu í vist- og umhverfisfræðum, undirstöðugreinum þegar kemur að allri umgengi okkar um náttúru og auðlindir. Verkleg kennsla í raungreinum hefur jafnframt dregist saman og fáir skólar hafa tök á því að bjóða upp á frambærilegar verklegar æfingar og vettvangsferðir. Sömu sögu má segja um æðstu menntastofnun landsins, Háskóla Íslands, þar sem verulega hefur verið dregið úr verklegri kennslu og vettvangsferðir heyra nánast til undantekninga vegna fjársveltis.

Samlíf, samtök líffræðikennara, sendu ályktanir til Mennta- og menningarmálaráðherra árin 2013, 2014, 2015 og 2016 vegna niðurskurðar í raungreinakennslu. Eina svarið sem borist hefur var staðfesting á að erindið væri móttekið árið 2016.

Einnig sendi félagið ályktun 2014 þar sem ráðherra var hvattur til að standa vörð um raungreinakennslu með því að tryggja hlut raungreina í nýjum námskrám, einungis þannig verður stuðlað að fjölgun einstaklinga með raungreina- og tæknimenntun í landinu.

Stjórn Samlífs undrast að ráðuneyti sem í orði kveðnu vill fjölga nemendum í  raungreina- og tækninámi sporni ekki við þessari skerðingu og kallar eftir að raungreinar; líffræði, efnafræði, eðlisfræði og jarðfræði, verði ríkur hluti af íslensku stúdentsprófi.

Mennta- og menningarmálaráðherra er eindregið hvött til að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu meðal annars með áherslu á verklega kennslu til að tryggja að nemendur nái tilsettum hæfniviðmiðum.

Stjórn Samlífs, fyrir félaga í samtökum líffræðikennara, hvetur enn ráðherra til að tala máli raungreina í íslensku skólakerfi og sýna í verki með fjárveitingum til verklegrar kennslu á öllum skólastigum.

Stjórn Samlífs – Samtaka líffræðikennara
Hólmfríður Sigþórsdóttir, formaður
Rúna Björk Smáradóttir, gjaldkeri
Jóhanna Arnórsdóttir, ritari
Helga Eyja Hrafnkelsdóttir, meðstjórnandi
Sigríður Rut Fransdóttir, meðstjórnandi
Þórhallur Halldórsson, meðstjórnandi
Sólveig Hannesdóttir, varastjórn
Þórhalla Arnardóttir, varastjórn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband