6.3.2018 | 18:17
Viltu láta klóna dauðvona hundinn þinn?
Bændur, hestamenn og gæludýraeigendur vita að menn og dýr geta tengst sterkum böndum.
Af einhverjum ástæðum ná hundar, kettir og kannski hestar góðum tengslum við mannfólk. Að minnsta kosti þekki ég engan eiganda gullfiska eða snáka sem samtvinnast gæludýri sínu jafn innilega og margir þessum tegundum.
Hvað gerir maður þegar ástsælt gæludýr eða uppáhalds klárinn veikist og deyr?
Maður syrgir.
Og heldur áfram að lifa.
Þótt við dáumst að sterkum tilfinningalegum tengslum manns og dýrs, gerum við líka ráð fyrir að fólk komist yfir slíka sorg. Auðveldar en sá sem missir mennskan ástvin.
En ef þú átt kött eða hund í andarslitrunum, er boðið upp á mögulega leið til að svindla á dauðanum. Vilt þú láta klóna dauðvona hundinn þinn?
Fyrirtæki í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum bjóða upp á katta og hunda klónunarþjónstu. Fyrir nokkrar milljónir króna taka þeir frumur úr (stundum dauðvona) hundi eða ketti og gera tilraun til að klóna viðkomandi, með samskonar aðferð og Dollý var klónuð. Klónun felur í sér að búa til nýjan einstakling með sömu erfðasamsetningu og annar einstaklingur.
Fyrirtækin leggja áherslu á að um tilraun sé að ræða, ekki er öruggt að hún takist.
Til að hún gangi upp þarf heillegar frumur úr gæludýrinu. Einnig þarf nokkur egg úr sömu tegund, kjarna eggjanna þarf að fjarlægja og láta frumurnar renna saman við þær. Ef kjarninn virkar nægileg vel og þroskun hefst eru kímblöðrur settar í leg staðgöngumæðra, sem þurfa að bera fóstrin alla meðgönguna.
Eins og gefur að skilja eru mörg skref á þessari leið og alls óvíst að hún heppnist í öllum tilfellum.
Þar sem þjónustan er frekar dýr hafa aðallega auðugir gæludýraeigendur nýtt sér hana. Nýlega bárust tíðindi af því að Barbra Streisand hefði látið klóna tík að nafninu Samantha, sem var henni ansi kær.
Klónunin heppnaðist, Barbra fékk tvær klónaðar tíkur sem hún nefndi Miss Scarlet og Miss Violet. Samkvæmt viðtali í dægurmálablaðinu Variety var Barbra undrandi á að hundarnir tveir væru ekki eins, sérstaklega ekki persónuleikar þeirra.
Duh, var hið augljósa svar. Þetta er "Ha, er tunglið ekki úr osti?" augnablik.
Eineggja tvíburar eru með sama erfðaefni, og eru því líkari en venjuleg systkyni, en ALDREI nákvæmlega eins*.
Eiginleikar lífvera eru tilkomnir vegna gena, umhverfis, samspils gena og umhverfis og líka tilviljunar. Tilviljun getur ráðið því að tveir einstaklingar með sömu gen verða ólíkir, sbr. eineggja tvíburana.
Klónar verða ekki eins og upprunalegi einstaklingurinn (faðirinn/móðurin).
Klónar verða ekki saman persónan.
Eins er ómögulegt að svindla á dauðanum með því að klóna sjálfan sig. Klóninn verður alltaf önnur manneskja, og ekkert endilega forskriftinni að sjálfum sér þakklát(ur)...
Ítarefni:
Klónun apa og apakóngur fortíðar
*Sama hversu oft bent er á þetta eina par tvíeggja tvíbura sem dó úr sama sjúkdómi sama daginn. Allir hinir eineggja tvíburarnir deyja á mismunandi dögum úr ólíkum sjúkdómum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 7.3.2018 kl. 08:48 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.