Leita í fréttum mbl.is

Kjóstu menntun

Í kosningunum 28. október næst komandi er tækifæri til að setja menntun á stall.

Afglöp stjórnmálamanna, mótsagnir í störfum þeirra og orðum, tap á trausti á alþingi og stofnunum samfélagsins kalla öll á aðra sýn á stjórnmálin og forgangsröðun samfélagsins.

Menntun hefur um áratuga skeið verið afgangstærð í íslensku samfélagi. Eitthvað sem rætt er um á tyllidögum, en vanrækt þess á milli. Á Íslandi hefur menntun verið um áratuga skeið ekki verið álitin máttur, heldur froða. Skóli lífsins er álitinn merkilegri en skóli fræðanna.

Nemendur í háskólum hafa sent ákall til frambjóðenda og þjóðar, um að menntamál verði sett á oddinn. Framtíð nemann og landsins hangir á spýtunni.

Forkólfar nemendafélaga hafa ritað nokkrar góðar greinar um málið, undir merkin u #kjóstumenntun. Fyrstu greinina skrifaði Ragna Sigurðardóttir - Kjóstu menntun 28. október

Hún segir:

Íslenskt háskólakerfi fær ekki þá athygli og fjármögnun sem til þarf og stjórnvöld verða að stíga alvöru skref til þess að kerfið þjóni bæði nemendum og samfélaginu sem skyldi. Eins og kunnugt er hefur aðgengi að menntun og menntunarstig þjóða bein áhrif ekki aðeins á efnahag, heldur líka á gildi, þekkingu og viðhorf einstaklinga sem er til hagsbóta fyrir samfélagið.1,2

Það er því kominn tími til að íslenskt háskólakerfi sé fjármagnað með fullnægjandi hætti. Til þess þarf metnað stjórnvalda. Í komandi kosningum teljum við í Stúdentaráði að mikilvægt sé að hafa skýra framtíðarsýn fyrir Ísland í alþjóðlegu samhengi. Stúdentaráð Háskóla Íslands hvetur því stjórnmálaflokka á Íslandi til að beita sér fyrir bættri fjármögnun háskólastigsins og kjósendur að kjósa menntun þann 28. október.

Benedikt Traustason fjallaði einnig verðmætin fólgin í náttúrunni.

Hann sagði:

Undanfarin 10 ár hefur nær stöðugt verið skorið niður til líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands. Innan þeirrar deildar eru m.a. ferðamálafræði, en ferðaþjónusta er ein meginstoð íslensks atvinnulífs, og líffræði, sem gegnir lykilhlutverki við að skilja þær breytingar á náttúrunni sem við stöndum frammi fyrir. Innan þeirrar deildar eru þeir sérfræðingar sem treysta verður á til að draga úr óæskilegum áhrifum loftslagsbreytinga. Á seinustu 10 árum hefur námsframboð innan líffræðinnar verið rýrt, skyldufögum í grunnnámi verið fjölgað, valnámskeiðum fækkað um ríflega helming, verklegum kennslustundum fækkað um fjórðung og vettvangsferðir skornar burt eða skildar eftir í skötulíki.

Nám þeirra sem við ætlumst til að rannsaki áhrif loftslagsbreytinga og hvað kann að vera til ráða er þess vegna einsleitara, sérhæfing nemenda er minni og af þeim sökum er geta okkar til að takast á við loftslagsvandann takmarkaðri. Það er því grátbroslegtað hugsa til þess að stærstu atvinnuvegir Íslendinga eru og hafa verið byggðir á náttúrunni. Er þá sama hvort litið er til landbúnaðar, fisksins í sjónum eða lunda og hvala sem laða sífellt fleiri ferðamenn til landsins.


Menntun og rannsóknir í öndvegi

Leyndarmál veraldar, lögmál náttúru, hagkerfa, sálar og líkama hafa afhjúpast með vísindum og fræðum. Við höfum lært um gang himintunglanna, orsakir sjúkdóma, eiginleika frumefna og rafmagns. En einnig um þroska einstaklingsins, breytingar á samfélögum, félagslega krafta og snilld og veikleika mannfólks.

Þekking sprettur ekki af sjálfu sér eða úr mold, hana þarf að rækta. Til að rækta þekkingu þarf menntun og menntastofnanir, aðbúnað og frelsi til rannsókna og fræðistarfa, viljugt og fært fólk og síðast en ekki síst, stuðning samfélags.

Í umræðu nútímans eru samt ekki margir sem halda á lofti mikilvægi menntunar og vísinda. Auðvitað er míkilvægt að byggja íbúðir, búa til störf, lækna fólk og halda börnum uppteknum meðan foreldrar vinna. En mér virðist eins og stundum gleymist að hugsa til framtíðar. Menntun og vísindastörf eru undirbúningur fyrir framtíðina. Líka fyrir hina ófyrirsjáanlegu framtíð.

Stundum höldum við að sérstakur undirbúningur sé betri en almennur. Það að búa til varnarvegg fyrir flóð er sértækur undirbúningur fyrir mögulega ógn í framtíðinni. Það að mennta fólk og afla þekkingar um ákveðin fyrirbæri, er almennari undirbúningur fyrir áskoranir framtíðar. Auðvitað er mikilvægt að verjast flóðum, eins og að bregðast við brýnum vandamálum. En við verðum líka að passa að borða ekki allt útsæðið.

Með því að vanrækja menntun erum við ræðarinn sem hugsar bara um að róa, en horfir aldrei í kringum sig. Slíkur einstaklingur gæti snúist í hringi, róið á haf út frekar en til lands eða hamast á árunum þótt báturinn sé bundinn við bryggju.

2014ag14magnusj.jpgÍ kosningarbaráttu mánaðarins hefur ekki borið mikið á umræðu um mikilvægi menntunar, vísinda og fræða. Kjartan H. Njálsson bendir á þetta og mikilvægi vísinda fyrir íslenskt samfélag í leiðara Fréttablaðs dagsins. Hann ræðir m.a. tímamótarannsókn Hjartaverndar sem hófst árið 1967 og segir:

Við erum enn eftirbátar þeirra þjóða sem við berum okkur saman við þegar fjárframlög til vísinda eru skoðuð. Þannig er undarlegt, sérstaklega í ljósi þess hversu mikið vísindi og rannsóknir hafa fært okkur, hve lítið fer fyrir vísindum í yfirstandandi kosningabaráttu. Vísindi ber varla á góma í umræðuþáttum og viðtölum við þá sem falast eftir trausti kjósenda til að tryggja áframhaldandi velsæld og framfarir hér á landi.

Rétt eins og við gerðum í október árið 1967 þá þurfum við að tryggja vísindamönnum stöðuga og öfluga innviði og umhverfi fyrir vísindastörf. Núverandi stefna í þessum mikilvægu málum er ekki til þess fallin að blása íslenskum vísindamönnum eldmóð í brjóst. Því fer fjarri.

Á morgun stendur Vísindafélag Íslendinga og félag prófessora fyrir málþingi um hlutverk vísinda og menntunar, og hefur boðað fulltrúa allra stjórnmálaflokkana. Ég hvet þá sem vilja veg vísinda og menntunar á Íslandi til að mæta.

Háskólar í öndvegi? Framtíð háskólastigsins á Íslandi

Þjóðminjasafnið 12:15.

Mynd af veiðivötnum, jarðfræðilegu og líffræðilegu undri.


Vísindastefna fjarri raunveruleika?

Á Vísindaþingi í síðasta mánuði var kynnt stefna Vísinda- og tækniráðs 2017-2019, en síðasta stefna rann sitt skeið í lok síðasta árs. Í stefnunni er farið hástemmdum orðum um mikilvægi vísinda og menntunar fyrir nútímasamfélag. Þó virðist hún ekki vera...

Erfiðar ákvarðanir í heilbrigðisþjónustu, Stokkhólmur 20. nóvember

Erfiðar ákvarðanir í heilbrigðisþjónustu Norðurlanda Heilbrigðisþjónusta norrænna landa er undir álagi vegna breytinga á samfélögum, efnahagslegra þátta og breytinga í læknis- og lyfjafræði. Norræna lífsiðanefndin heldur opinn fund um málið í Stokkhólmi...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband