Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Mannöld og loftslagsbreytingar

Maðurinn hefur áhrif á náttúruna, m.a. loftslag og lífríki.

Sampil þátta í náttúrunni eru oft háð magni eða samhengi. Til dæmis skiptir ekki máli hvort við fáum staka, tvær eða þrjár kvefveirur í nefið. En ef við fáum 1000 veirur, þá eru verulegar líkur á flensu. Einnig gætu líkur á sýkingu aukist, ef við fáum veirur þegar við erum vannærð (dæmi um samhengi).

Einnig eru einnig þekkt svokölluð snjóboltaáhrif. Ef eitthvað ferli fer af stað, þá er lítið til að stoppa það. T.d. snjóskriður eða skógareldar.

Nýleg rannsókn á áhrif mannsins á koltvílidi og hlýnun jarðar sýnir að snjóboltaáhrif eru mjög sennileg. Það sem alvarlegra er að við nálgumst þann punkt að boltarnir fara að rúlla, aukinn hiti leiðir til breytinga á jöklum, íshellum og vistkerfum, sem leiðir til enn meiri hlýnunar. Eftir það hafa mótvægisaðgerðir okkar engin áhrif. Olíufurstarnir, neysluherrarnir og postular þeirra hafa efnahagslegan vilja bara græða pening, en skeyta engu um langtíma afleiðingar þess.

Kjartan Hreinn fjallar um þessa nýju rannsókn í leiðara Fréttablaðsins (Mannöld). Hann segir m.a.

Will Steffen og 15 meðhöfundar hans að yfirlitsgreininni „Trajectories of the Earth System in the Anthropocene“, sem birtist í vísindariti bandarísku vísindaakademíunnar (PNAS) á dögunum, draga upp sláandi mynd af þeim breytingum sem mögulega munu eiga sér stað á mannöld. Fáar vísindagreinar hafa vakið jafn mikla athygli og grein Steffens og co. á undanfoörnum árum. Ein möguleg ástæða fyrir þvií eru þær skelfilegu sviðsmyndir sem virðast bíða okkar að óbreyttu. Slík dramatík virðist vera það sem þarf til að koma loftslagsmálum að í almennri umræðu.

Það er okkar að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingum.

M.a. með því að draga úr neyslu, akstri, flugferðalögum og fleiru.

Hjálpumst öll að.


Sveppur sem stjórnar flugum

Við ráðum okkur sjálf og tökum sjálfstæðar ákvarðanir. Eða hvað?

Hinir vitibornu menn trúa því að þeir sé sjálfstæðir einstaklingar. Hugmyndin um að missa stjórn á sér er flestum ógnvekjandi. Hræðilegasta martröð væri ef einhver myndi ná valdi á líkama manns og huga, og ota manni til voðaverka. Galdrakall í unglingabókmenntum kemur upp í hugann.

En hversu algengt er það í dýraríkinu að lífvera nái valdi á annari lífveru og stjórni henni?

Frekar sjaldgæft.

Sem þýðir að undantekningar eru til*.

Hárormar (e. hairworms) sýkja tiltekin skordýr, þ.á.m. engisprettur. Þeir lifa innan í dýrunum og þekkt eru tilfelli þar sem þeir stýra engisprettunum í átt að vatni, því ormarnir þurfa þess með fyrir æxlunina.

Þekkt eru sníkjudýr sem sýkja hornsíli og breyta hegðan þeirra, sem virðist auka líkurnar á að fuglar éti þau. Sníkjudýrið nota fugla sem hýsil til að ljúka lífsferli sínum.

Nýlegt dæmi er um svepp sem stjórnar ávaxtaflugum.

Rannsókn Carolyn Elya og félaga hennar við háskólann í Berkley (birt í eLife í júlí) lýsir hvernig sveppurinn breytir hegðan flugunnar. Upphafið er fjarska sakleysislegt, sveppagró lendir á flugu. Gróið spírar og vex inn í fluguna. Fyrst í stað nærist sveppurinn á forða flugunnar, fituvef og öðru lauslegu inni í líkamsholi þess. Síðan koma áhrif á hegðunina í ljós.

Fyrst klifrar flugan klifrar upp stilk (eða vegg). Næst rekur hún út ranann, og tyllir honum á stilkinn. Sveppurinn veldur því einnig að efnasamsetning munnvatnins hefur breyst, það verður límkenndara. Þannig festist raninn við stilkinn og flugan situr föst (eins og þegar maður festir blauta tungu á frosnum ljósastaur - varla þarf að taka fram að það er flugunni þvert um geð).

Vöxtur sveppsins margfaldast næstu daga og hann nærist á öllum innri líffærum flugunar, hjarta, heila og vöðvum. Þegar hér er komið sögu hangir flugan á rananum, með vængina út í loftið og út úr líkaman vaxa gróliðir sveppsins. Með því að stýra flugunni á háan stað, festa hana og breiða úr vængjunum vængjunum, eykur sveppurinn líkurnar á að gróin dreifist vítt og breitt.

flywing635-410x273

Mynd af vef Berkley háskóla, tekin af C. Elya.

Sveppurinn sem um ræðir heitir Entomophthora muscae, sem þýða má sem “eyðandi skordýra", og sýkir hann margar tegundir flugna af ætt tvívængja. Carolyn hefur áhuga á að skilja hvernig sveppir breyta hegðan flugna. Fyrsta skrefið í þeim tilgangi var að finna svepp sem sýkir ávaxtaflugur. Ástæaðn er sú að líffræðingar hafa rannsakað fluguna í rúma öld og þekkja erfðir hennar og taugakerfi, og búa yfir margvíslegum verkfærum til að kveikja og slökkva á genum og þar með tilteknum stöðvum og kerfum í heila flugunnar.

Eins og allar góðar rannsóknir byrjaði þessi á því að Caroline setti gildru á svalirnar sínar. Í hana safnaði hún lifandi flugum og leitaði að sveppasýkingum. Dag einn fann hún flugu, sem sat föst innan á gildrunni og varð hvít af myglu eftir nokkra daga. Hún náði gróum og gat tekið með sér inn á tilraunastofu, til sýkja flugur þar. Nú er Carolyn verkfæri í höndunum til að rannsaka hvernig getur sveppurinn breytt hegðun flugunnar. Hún er nú flutt til Boston og vinnur á rannsóknarstofu Ben de Bivort við Harvard**, og stefnir á að svara eftirfarandi spurningum.

Hvernig rænir hann flugunni líkama sínum, og tekur við stjórnartaumunum?

Hvaða taugar eða stöðvar hefur sveppurinn áhrif á?

Framleiðir hann boðefni sem virka á taugakerfi flugunnar?

Eyðileggur hann ákveðnar taugar eða heilastöðvar og stýrir þannig hegðun flugunnar?

Er kannski nóg fyrir sveppinn að vaxa inn í hausinn á flugunni?

Í þessu samhengi sprettur spurningin hvort sveppir stýri mannfólki á sama hátt?

Ekki er vitað um svepp sem sýkir menn og fær þá til að klifra upp staura eða flýta sér í Kringluna, festa sig ofarlega og bíða þolinmóða eftir því að sveppurinn vaxi út úr skinninu. Hins vegar er vitað að örveruflóran okkar framleiðir margvísleg efni, sem geta haft áhrif á lífeðlisfræði okkar og jafnvel taugakerfi. Að mér vitandi eru ekki til dæmi um tiltekinn sníkil (t.d. bakteríu eða svepp) sem hefur áhrif á heila hýsilsins og leiðir til breytingar á hegðan sem kemur viðkomandi sníkli vel í lífsbaráttu. En það þýðir ekki að hann sé ekki til, og dragi mig að kökudallinum...

 

*Þetta er dæmi um líkindatrú Lloyd Christmas persónunar í Dumb dumber, þegar stúlkan segir að það séu 1 á móti milljón líkur á að þau nái saman, "so you are telling me there is a chance"...

**Ben kom hingað til ands í mars og hélt erindi um rannsóknir sínar við Líffræðistofnun HÍ. Með honum komu Carolyn og fleiri félagar af labbanum, og vorum við svo heppinn að eiga með þeim dagstund og ræða saman um hegðun, flugur, gen og sveppi meðal annars.

Heimildir og ítarefni:

Carolyn Elya ofl. 2018. Robust manipulation of the behavior of Drosophila melanogaster by a fungal pathogen in the laboratory, eLife. 7:e34414 doi: 10.7554/eLife.34414

Robert Sanders, 2018. Flies meet gruesome end under influence of puppeteer fungus, Berkley University media center.

Ed Young 2018. Is this fungus using a virus to control an animal's mind? The atlantic.

Theo C. M. Bakker og James F. A. Traniello 2017, Behave in your parasite’s interest. Behavioral Ecology and Sociobiology 71:44.


Er hægt að endurlífga útdauð dýr?

Er hægt að endurlífga útdauð dýr? Vísindavefurinn, 19. júní 2018.

Í sögu lífs á jörðinni eru þekktar fimm stórar útdauðahrinur þar sem margar tegundir og fjölskyldur lífvera dóu út. Ein slík hrina varð til dæmis við lok permtímabilsins og önnur í lok krítartímans þegar risaeðlurnar dóu út (endanlega, nema fuglarnir sem eru af þeim komnir). Sjötta útdauðahrinan er hafin. Ólíkt þeim fyrri er hún af mannavöldum, vegna mengunar, eyðingar búsvæða, ofveiði og loftslagsbreytinga.

Margar lífverur hafa dáið út á síðustu öldum vegna mannsins, til dæmis geirfuglar og flökkudúfur. Margar aðrar lífverur eru í útrýmingarhættu. Af sumum tegundum dýra eru bara eftir tugir, hundruðir eða þúsundir einstaklinga í náttúrunni. Þekkt er skjaldbakan Einmanna Georg á Galapagoseyjum, en hann var sá síðasti sinnar tegundar (Chelonoidis nigra abingdoni). Tilraunir til að maka honum við kerlur af öðrum náskyldum tegundum báru engan árangur og tegundin dó út með honum árið 2012.

Spyrja má hvort og þá hvaða aðferðir duga til að hindra útdauða tegunda eða jafnvel endurlífga útdauð dýr? Ein aðferð til þess að reyna að bjarga tegundum úr útrýmingarhættu er sú sem Georg fékk að prófa. Að æxla einstaklingum við náskyldar tegundir og þeim afkvæmum svo saman og reyna að velja fyrir eiginleikum sem einkenna tegundina í hættu. Þetta hefur til dæmis verið reynt með stórar kattartegundir, ljón, tígrisdýr og skylda ketti. Vandamálið er að ekki er augljóst hvernig hægt er að endurbyggja upprunalegu tegundina, til dæmis ljónið úr genasúpu stórra kattardýra.

Nú er aðallega horft til tveggja aðferða, klónunar eða erfðabreytinga, í þeirri von að bjarga tegundum í útrýmingarhættu eða jafnvel endurreisa útdauðar tegundir. Klónun, byggð á kjarnaflutningi inn í eggfrumu hefur verið notuð og er lambið Dollý frægasta dæmið, en alls hafa 21 aðrar dýrategundir verið klónaðar með þessari aðferð. Nýlega fæddust tveir makakí-apar, Hua Hua og Zhong Zhong, sem búnir voru til á þennan hátt.

Klónun hefur nýst við að fjölga lífverum sem eru í útrýmingarhættu. Banteng (Bos javanicus), asískur ættingi kúa, var klónaður og tvö slík dýr voru til sýnis í dýragarðinum í San Diego. Klónaður gaur (Bos gaurus), en gaurar eru indverskir ættingjar vísunda, átti að vera aðalaðdráttarafl sama dýragarðs en hann dó skömmu eftir fæðingu. Fæðing er hættuleg spendýrum en gæti verið sérstaklega hættuleg klónuðum dýrum og eru mörg dæmi eru um að klónuð afkvæmi hafi dáið í fæðingu. Þótt klónun komi að gagni þá er hún hvorki skilvirk né örugg aðferð til að hjálpa til við að fjölga dýrum í útrýmingarhættu. Ein og sér dugar hún heldur ekki til að endurreisa útdauð dýr því fyrir klónun þarf lifandi frumu eða heilan kjarna.

Ný erfðatækni - CRISPR-Cas-tæknin - gæti hugsanlega gert mögulegt að endurlífga útdauðar tegundir, sérstaklega ef hún er notuð með klónunartækni. CRISPR-aðferðin gerir mögulegt að breyta röð gena á markvissan hátt. Hugsanlegt væri að nota aðferðina til að breyta erfðamengi núlifandi tegundar þannig að það líkist erfðamengi útdauðs ættingja. Aðferðin byggir á nokkrum veigamiklum forsendum. Til að mögulegt sé að lífga við útdauðu tegundina þurfa að vera fyrir hendi upplýsingar um erfðamengi hennar. Ekkert erfðaefni er að finna í leifum tegunda sem dóu út fyrir milljónum ára. Það er því enginn möguleiki á að endurlífga risaeðlur eða brynfiska. Einnig þarf tegund náskylda þeirri útdauðu, sem er nægilega algeng til að vinna með. Upplýsingar um raðir erfðamengja beggja tegunda, þeirrar útdauðu og ættingjans, þurfa að vera áreiðanlegar. Síðan þarf að endurskrifa erfðaefni ættingjans og breyta því þannig að því svipi til erfðaefnis útdauðu tegundarinnar, sem myndi gerast með CRISPR-tækninni. Til að hraða ferlinu þyrfti líklega að notast við klónun fruma og nokkrar umferðir af erfðabreytingum og þroskun afkvæma í staðgöngumæðrum. Þannig væri hægt að færa erfðamengi fjarskylda ættingjans (og þar með líffræði einstaklinganna) nær því sem einkenndi hina útdauðu tegund. Hugmyndin er djörf og spurning hvort hún sé framkvæmanleg. Eitt veigamikið atriði er spurningin um hvaða erfðabreytingar ætti að framkvæma.

Munur á erfðaefni náskyldra tegunda er mismikill. Á hinum útdauða loðfíl og núlifandi Afríkufíl er um 3% munur á erfðaefni. Það kann að virka smávægilegt, en vegna umfangs erfðamengja hryggdýra þýðir þetta að fleiri milljónir basa eru ólíkir í erfðamengjum fíls og loðfíls. Það er tæknilega ómögulegt að framkvæma milljón nákvæmar breytingar með CRISPR-tækninni á erfðaefni einnar frumu. Forvígismenn aðferðarinnar segja að þeir vilji ekki gera allar breytingarnar heldur bara þær sem skipti máli. Þá vaknar næsta spurningin hvaða mismunur á genum loðfíls og fíls skiptir mestu um muninn á útliti þeirra og hegðun? Forvígismennirnir segja að þær séu örugglega aðeins 20 til 100, aðeins þurfi að finna þær.

Þróunar- og erfðafræðingar vita að það er fáránlega erfitt að finna gen sem hafa áhrif á mun á tveimur tegundum. Nærtækt dæmi er sá 1-3% munur sem er á erfðaefni manna og simpansa. Við höfum hugmynd um mismun í nokkrum genum sem líklega skipta máli fyrir muninn á okkur og simpönsum, en alls ekki allar breytingarnar. Því er harla ólíklegt að hægt sé að finna hvaða 100 stökkbreytingar gerðu loðfílinn frábrugðinn nútímafílnum, og þar með fellur framtakið um sjálft sig.

Ef til vill er þó veigameira sú fyrirhöfn og kostnaður sem myndi fylgja því að endurlífga útdauða lífveru eða koma tegund úr útrýmingarhættu með klónun og erfðatækni.

Við höfum mestan áhuga á verndun stórra dýra, spendýr og fugla. En fæstir hafa áhyggjur af útdauða orma, bjalla, baktería eða blóma. Veruleikinn er sá að þetta eru algengustu hópar lífvera á jörðinni. Hraði útdauða í nútímanum er hár, talið er að um 30 tegundir deyi út á hverjum degi. Það þyrfti því að klóna og endurlífa um 30 tegundir á dag til þess að halda í horfinu hvað varðar fjölda tegunda.

Rétta spurningin er ef til vill hver er besta leiðin til að viðhalda fjölbreytileika lífs á jörðinni? Svarið er að við þurfum að breyta neyslumynstri, draga úr ferðalögum með flugvélum, vernda búsvæði og óspillt víðerni.

Samantekt:

  • Erfðatækni og klónun mætti ef til vill nýta til að bjarga tegundum í útrýmingarhættu.
  • Mun erfiðara er að endurlífga útdauðar tegundir með slíkri tækni, sérstaklega löngu útdauðar tegundir eins og loðfíla.
  • Ómögulegt væri að endurlífga risaeðlur því erfðaefni þeirra er glatað og þær eiga enga nægilega skylda ættingja á lífi.
  • Mikilvægara er að koma í veg fyrir útdauða með því að vernda náttúruna og draga úr neyslu.

 


Ný heimildamynd um ástir bleikjunnar

Bleikjurnar í Þingvallavatni eru um margt forvitnilegar. Edite Fiskovica kynnti í síðustu viku meistaraverkefni sitt í Umhverfis- og auðlindafræði, sem hún vann úr myndefni af kuðungableikjum á hrygningarslóð.

Verkefnið heitir, Vöktun mökunaratferlis kuðungableikju (Salvelinus alpinus) í Þingvallavatni í ljósi breytinga í veðurfari og aukins álags af mannavöldum.

Í því útbjó hún heimildamynd um atferli og mökun kuðungableikjunnar, sem nú er aðgengilegt á vef youtube

 

 

 

 

 

 

 

Ítarefni:

Ástir fiskanna í Þingvallavatni | Háskóli Íslands

Arnar Pálsson 2016 Pörunarþjónusta fyrir laxfiska

Arnar Pálsson | 14. mars 2013 Lífríki gjánna við Þingvallavatn

 


Rök lífsins í sjónmáli

Hvernig verða manneskjur til?

Móðir og faðir leggja eitthvað til, og til verður barn.

En hvað leggju þau til, hvernig virkar það og hvers vegna verða afkvæmin lík foreldrum en aldrei nákvæmlega eins?

Þessar spurningar kljáðist gríski heimspekingurinn Aristóteles við í rannsóknum sínum. Eða eins og Guðmundur Eggertsson segir í nýlegu viðtali, gríski náttúrufræðingurinn Aristóteles.

Leifur Hauksson ræddi við Guðmund um Aristóteles og sögu erfðafræðinnar, í tilefni af útkomu bókarinnar Rök lífsins.

Viðtalið er lang og ítarlegt, jafnvel á mælikvarða sjónmáls, og sérstaklega forvitnilegt. Þetta segir náunginn sem er búinn að lesa bókina næstum alla.

RokLifsins

 Sjá einnig vittal við Guðmund í Fréttablaðinu.

 Benedikt gefur Rök lífsins út.


Bleikjubíó, ástir fiskanna í Þingvallavatni

Bleikjurnar í Þingvallavatni eru um margt forvitnilegar. Edite Fiskovica kynnir í dag meistaraverkefni sitt í Umhverfis- og auðlindafræði, sem hún vann úr myndefni af kuðungableikjum á hrygningarslóð.

Verkefnið heitir, Vöktun mökunaratferlis kuðungableikju (Salvelinus alpinus) í Þingvallavatni í ljósi breytinga í veðurfari og aukins álags af mannavöldum.

Í því útbjó hún heimildamynd um atferli og mökun kuðungableikjunnar, sem sýnt verður á meistaradegi náttúruvísinda síðdegis í dag.

Hér fyrir neðan er eldra myndband sem Fraser Cameron tók fyrir nokkrum árum.

Aðalleiðbeinandi var Kalina Hristova Kapralova, nýdoktor við HÍ.

Ítarefni:

Ástir fiskanna í Þingvallavatni | Háskóli Íslands

Arnar Pálsson 2016 Pörunarþjónusta fyrir laxfiska

Arnar Pálsson | 14. mars 2013 Lífríki gjánna við Þingvallavatn

 


Meistaradagur náttúruvísinda 25 maí

Meistaranemar í Líf- og umhverfisvísindadeild og Jarðvísindadeild kynna meistaraverkefni sín 25. mái 2018.

Dagskrá

12:45: Opnun Meistaradags náttúruvísinda í stofu 132
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor og deildarforseti Jarðvísindadeildar og Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og  deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar setja daginn.

Meistarafyrirlestrar í stofum 130, 131 og 132 frá kl. 13-16

Stofa 132
Landfræði / Ferðamálafræði / Umhverfis- og auðlindafræði 

13:00   Shauna Laurel Jones
Umhverfis- og auðlindafræði
Prýði á kornakrinum? Álftin á Íslandi og ágreiningur um verndun hennar
Feathered Majesty in the Grainfields? Conflict, Conservation, and the Whooper Swan in Iceland
Aðalleiðbeinandi: Karl Benediktsson, prófessor 

13:30   Jón Smári Jónsson
Umhverfis- og auðlindafræði
Málsmeðferð sveitarfélaga við útgáfu framkvæmdaleyfa fyrir matskyldar framkvæmdir á árunum 2006 til 2016
Responsibilities of Municipalities Issuing Permits for Projects Subjected to the Environmental Impact Assessment, 2006
Aðalleiðbeinandi: Þorbjörg K Kjartansdóttir, aðjunkt 

14:00   Þórhildur Heimisdóttir
Landfræði
Ægifegurð eldfjalla: Áhættuupplifun ferðamanna á Laugaveginum vegna eldgosavár.
Sublime volcanoes: Tourists experiences of volcanic risk on the Laugavegur hiking trail.
Aðalleiðbeinandi: Guðrún Gísladóttir, prófessor 

14:30   Pétur Smári Tafjord
Umhverfis- og auðlindafræði
Ferðaþjónustan og miðborg Reykjavíkur: Er miðborgin fyrir alla?
Tourism and Reykjavik's city center: Is the city center for everyone?
Aðalleiðbeinandi: Katrín Anna Lund, prófessor 

15:00   Danielle Elizabeth Beauchemin
Umhverfis- og auðlindafræði
Útbreiðsla og uppræting tröllahvanna (Heracleum) í Reykjavík
Distribution and Management of Heracleum species in Reykjavík, Iceland
Aðalleiðbeinandi: Mariana Lucia Tamayo, lektor

 

Stofa 131
Líffræði / Umhverfis- og auðlindafræði

13:00   Þórdís Björt Sigþórsdóttir
Umhverfis- og auðlindafræði
Sannprófun mótvægisaðgerða vegna vegaframkvæmda: Skilar endurheimt votlendis tilætluðum árangri?
Environmental Impact Auditing: Are wetland reclamation efforts as a mitigation measure delivering acceptable outcomes?
Aðalleiðbeinandi: Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor

13:30   Dagný Ásta Rúnarsdóttir
Líffræði
Genatjáning og björgun galla í vænglögun í ávaxtaflugunni Drosophila melanogaster
Gene expression and rescue of wing morphology defects in Drosophila melanogaster
Aðalleiðbeinandi: Arnar Pálsson, dósent

14:00   Katrín Björnsdóttir
Líffræði
Áhrif hlýnandi loftslags og sauðfjárbeitar á niðurbrot lífrænna leyfa á háartískum og lágarktískum svæðum
Decomposition responses to climate warming and sheep grazing in the high and sub-Arctic
Aðalleiðbeinandi: Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor

14:30   Petra Landmark Guðmundsdóttir
Líffræði
Uppbygging og samsetning sveppa í hélumosalífskurn
Fungal structure and composition in liverwort-based biocrust
Aðalleiðbeinandi: Ólafur Sigmar Andrésson, prófessor

15:00   Edite Fiskovica
Umhverfis- og auðlindafræði
Vöktun mökunaratferlis kuðungableikju (Salvelinus alpinus) í Þingvallavatni í ljósi breytinga í veðurfari og aukins álags af mannavöldum.
Monitoring mating behaviour of Large Benthic Arctic charr (Salvelinus Alpinus) in Thingvallavatn in a context of changing climate and increased anthropogenic activity.
Aðalleiðbeinandi: Kalina Hristova Kapralova, nýdoktor

Stofa 130
Jarðfræði /Jarðeðlisfræði / Jarðvísindi

13:00   Rebecca Anne Robinson
Jarðeðlisfræði
Líkanreikningar fyrir Langjökul
Modeling the Flow Dynamics of the Langjökull Ice Cap, Iceland
Aðalleiðbeinandi: Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor 

13:30   Kennedy Mativo Kamunya
Jarðfræði
δD og δ18O samsætur í jarðhitavökva, Olkaria, Kenýa
δD and δ18O systematics in geothermal fluids, Olkaria Geothermal system, Kenya
Aðalleiðbeinandi: Andri Stefánsson, prófessor 

14:00   Addison Helen Rice
Jarðvísindi
Samsætugreiningar og skeljatímatal byggt á sniglategundinni Melanopsis: Mat á árstíðamun á síðari hluta ísaldar í Efri Jórdandal
Stable Isotope Sclerochronology of Melanopsis (Gastropoda) Shells: Inferring Late Pleistocene Seasonality in the Upper Jordan Ri
Aðalleiðbeinandi: Steffen Miscke, prófessor

Allir velkomnir

Þakkir hafi Steini Briem fyrir að benda mér á að dagsetningu vantaði í fyrstu útgáfu færslunnar.


Bók um sögu erfðafræðinnar

Rök lífsins er ný bók um sögu erfðafræðinnar, sem Guðmundur Eggertsson prófessor skrifar.

Kolbrún Bergþórsdóttir ræddi við hann fyrir Fréttablaðið. Þar lýsti Guðmundur efni bókarinnar.

Ég fjalla um einstaka vísindamenn sem voru annaðhvort erfðafræðingar eða komu óbeint við sögu erfðafræðinnar, eins og til dæmis þróunarfræðingar. Ég byrja á Aristótelesi sem hafði töluvert um erfðafræðina að segja. Honum var ekkert óviðkomandi og stundum gleymist að hann var afkastamikill líffræðingur. Það er frekar óvenjulegt að menn sameini áhuga á heimspeki og líffræði, en hann stundaði líffræðirannsóknir og lýsti til dæmis miklum fjölda dýra og krufði þau.

Ég segi frá fjölmörgum öðrum frumherjum erfðafræði- og þróunarfræðirannsókna, þar á meðal Alfred Russel Wallace sem var merkilegur brautryðjandi í þróunarfræði á 19. öld. Hann var mjög frumlegur náungi, sjálfmenntaður, og komst að sömu niðurstöðu og Darwin, óháð honum, um náttúrulegt val. Það fór svo að þeir birtu samtímis greinar um þetta í ensku tímariti árið 1858 sem vöktu litla athygli, en síðan dreif Darwin sig í það að skrifa bókina Uppruni tegundanna.

RokLifsinsErfðafræðin fór að blómstra um aldamótin 1900, en erfðafræðirannsóknir fólust aðallega í því á þessum tíma, allt fram yfir 1940, að fylgjast með erfðum gena og einkennunum sem þau réðu. Menn vissu að genin voru á litningum í frumukjarna en það vantaði hins vegar þekkingu á efnislegri gerð þeirra og lífefnafræðilegri starfsemi. Á þessu voru lengi vel sáralitlar rannsóknir. Margt var þó vel gert og ber hæst brautryðjendarannsóknir Morgans á ávaxtaflugunni, sem ég segi frá. Undir lok fjórða áratugarins fóru menn að reyna í alvöru að tengja starfsemi DNA við lífefnafræðileg ferli og ég segi líka frá því. Enn var þó eðli erfðaefnis hulið og það var ekki fyrr en um 1950 sem það upplýstist þegar Watson og Crick lýstu gerð DNA-sameindarinnar. Það er merkilegt hversu seint athygli manna beindist í alvöru að eðli erfðaefnisins. Það er þó skýring á því, því lífefnafræðin var enn á þróunarstigi og réð tæpast við verkefnið.

Benedikt gefur Rök lífsins út.

Viðtalið í Fréttablaðinu Bók um sögu erfðafræðinnar


Sannfærandi rök lífsins

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Rök lífsins eftir dr. Guðmund Eggertsson, bjóða Líffræðifélag Íslands, Líffræðistofa Háskóla Íslands og Benedikt bókaútgáfa til útgáfuhófs í Öskju, fimmtudaginn 17. maí klukkan 16.00 (á svölum 3 hæðar).

Guðmundur mun kynna bók sína í nokkrum orðum og Ólafur Andrésson, prófessor í erfðafræði segir nánar frá bókinni.

Á eftir verður boðið upp á léttar veitingar.

Verið hjartanlega velkomin að fagna með okkur útgáfu bókarinnar.

RokLifsinsRannsóknir á lífverum má rekja til fornaldar, sérstaklega til Aristótelesar sem starfaði á 4. öld f.Kr. og hafði meðal annars ákveðnar hugmyndir um erfðir. Þetta voru merkileg upphafsskref en aldirnar liðu án þess að frekar miðaði í átt til skilnings á þeim lögmálum sem ráða innri starfsemi lífvera. Eðli lífsins var ráðgáta. Kenning um þróun lífvera kom fram um aldamótin 1800 og árið 1859 kom út bókin Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin. Góður skilningur á líffræðilegum forsendum þróunar varð þó að bíða blómstrunar erfðafræðinnar á 20. öld.

Í þessari bók er sagt frá nokkrum brautryðjendum líffræðinnar, sérstaklega á sviði erfðafræði, allt frá Aristótelesi til Watsons og Cricks. Jafnframt er sögð saga hugmynda og uppgötvana sem um miðja 20. öld leiddu til byltingar í skilningi manna á eðli lífsins.

Nánari upplýsingar um bókina má nálgast á vef Benedikts bókaútgáfu.


Rök lífsins - útgáfu fagnaður 17. maí

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Rök lífsins eftir dr. Guðmund Eggertsson, bjóða Líffræðifélag Íslands, Líffræðistofa Háskóla Íslands og Benedikt bókaútgáfa til útgáfuhófs í Öskju, fimmtudaginn 17. maí klukkan 16.00 (á svölum 3 hæðar).

Guðmundur mun kynna bók sína í nokkrum orðum og Ólafur Andrésson, prófessor í erfðafræði segir nánar frá bókinni.

Á eftir verður boðið upp á léttar veitingar.

Verið hjartanlega velkomin að fagna með okkur útgáfu bókarinnar.

Rannsóknir á lífverum má rekja til fornaldar, sérstaklega til Aristótelesar sem starfaði á 4. öld f.Kr. og hafði meðal annars ákveðnar hugmyndir um erfðir. Þetta voru merkileg upphafsskref en aldirnar liðu án þess að frekar miðaði í átt til skilnings á þeim lögmálum sem ráða innri starfsemi lífvera. Eðli lífsins var ráðgáta. Kenning um þróun lífvera kom fram um aldamótin 1800 og árið 1859 kom út bókin Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin. Góður skilningur á líffræðilegum forsendum þróunar varð þó að bíða blómstrunar erfðafræðinnar á 20. öld.

RokLifsinsÍ þessari bók er sagt frá nokkrum brautryðjendum líffræðinnar, sérstaklega á sviði erfðafræði, allt frá Aristótelesi til Watsons og Cricks. Jafnframt er sögð saga hugmynda og uppgötvana sem um miðja 20. öld leiddu til byltingar í skilningi manna á eðli lífsins.

Nánari upplýsingar um bókina má nálgast á vef Benedikts bókaútgáfu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband