Leita í fréttum mbl.is

Líf og ástir við eldfjallavatn

Húsendur stunda tilhugalíf stærsta hluta vetrar. Langvarandi tilhugalíf og tíðar samfarir para eru frekar sjaldgæft í náttúrunni, en auk húsanda tilheyra menn og höfrungar hópi hryggdýra sem virðast æxlast sér til skemmtunar.

Unnur Jökulsdóttir fjallar um ástir og líf húsandanna í dásamlegri bók Undur Mývatns sem út kom í sumar. Unnur segir frá tilhugalífi andanna, varpi og lífsbaráttu. Frásögnin er leiftrandi enda gengur mikið á í lífsbaráttunni, fæðuleit og á húsnæðismarkaði húsanda. Þótt pörin séu ástúðleg og traust, amk fram að klaki (karlarnir fella þá búninginn og yfirgefa kerlu sína), er heilmikil dramatík í uppeldi ungviðisins. Hættur eru á hverju strái, búsvæðin eru óstöðug því klak flugnanna dreifist um Laxánna yfir sumarið. En húsöndin er ekki eina undur Mývatns.

Í bókinni segir Unnur frá jarðfræði vatnsins og umhverfis, og ólíkum þáttum lífríkis og samfélags. Náttúran er í forgrunni en sögur af fólki og stöðum skreyta hana og gefa hlýlegan og manneskjulegan blæ. Hún minnir að vissu leyti á meistaraskrif Mark Kurlansky um þorskinn eða saltið, þar sem saga, fræði og mannlegir þræðir tvinnast saman snilldarlega.

Ég er reyndar ekki búinn með bókina, er kominn í gegnum endurnar að hellableikjum Árna og Bjarna. Enda er þetta bók sem má ekki lesa of hratt heldur, stíllinn og andinn yfir bókinn frelsar mann og nærir.

Undur_MyvatnsUndur Mývatns fær mín bestu meðmæli.

Ítarefni.

Rætt var við Unni og fjallað um bókina í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í vor. Þar sagði.

Nýj­asta bók Unn­ar, Und­ur Mý­vatns, fjall­ar um líf­ríkið við Mý­vatn og kem­ur út inn­an skamms. Vinn­an í Nátt­úru­rann­sókna­stöðinni kveikti áhuga hjá Unni og rit­höf­und­ur­inn í henni fann þörf á að miðla því áfram. „Mér fannst svo áhuga­vert allt það sem Árni og sam­starfs­fólk hans veit um; ævi­fer­ill hús­and­ar­inn­ar, ör­ver­urn­ar í vatn­inu sem ég fékk að skoða í smá­sjá og svo eru oft svo upp­byggi­leg­ar og skemmti­leg­ar sam­ræður á meðal vís­inda­mann­anna sem dvelja þarna. Mig langaði að opna þetta fyr­ir öðrum,“ seg­ir hún en bók­in er hugsuð fyr­ir al­menna les­end­ur. „Það er svo mik­ill fróðleik­ur sem er áhuga­verður og skemmti­leg­ur sem er oft fal­inn inni í fræðigrein­um sem fáir lesa,“ út­skýr­ir Unn­ur.

Í bók­inni eru eng­ar ljós­mynd­ir held­ur vatns­lita­mynd­ir, flest­ar eft­ir Árna, mest fugla­mynd­ir.

Þú virðist, í gegn­um lífið, sækja í friðsæld. Hvað veld­ur?

„Það er mér mjög mik­il­vægt að vera í friðsæld og nátt­úru. Ég elska að ganga hér í Heiðmörk­inni, helst með hundi af því að það er góður fé­lags­skap­ur. Góður hund­ur kenn­ir manni að vera í nú­inu. Hann þefar af þúfu og horf­ir á nærum­hverfið og hann er ekki að tapa sér í áhyggj­um eða hugs­un­um.“

Ásdís Ásgeirs­dótt­ir 4. mars 2017. MBL Fannst ég skilja alheiminn.

MBL 5. maí 2017 Skora á stjórnvöld að bjarga lífríki Mývatns

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband