Færsluflokkur: Vísindi og fræði
5.9.2017 | 16:40
Gætir þú róið opnum bát yfir norður íshafið?
Opinn bátur rær með ísröndinni, mörg hundruð kílómetra frá næsta landi. Þrír af sex manna áhöfn róa hverja vakt. Grámi norðurhjarans liggur yfir öllu og mörk himins og hafs mást út, róðratökin renna saman við öldukliðinn, bruninn í höndunum við bægir frá hugsunum um einsemdina. Hví vilja þessir sex ungu menn róa yfir norður atlantshafið á opnum bát? Hví reynum við takmörk okkar?
Mynd Alex Gregory
Tilfinningin að yfirstíga áskoranir er dásamlega gefandi. Að klífa fjall, ljúka við ritun bókar, byggja hús eða græða áratuga gamlan fjandskap, það eru áskoranir sem við þrífumst á. Sumir leggja líka á sig miklar þrautir, til að rannsaka takmörk mannlegra krafta.
Það var ástæða Danny Longman, sem hefur brennandi áhuga á róðri og þoli mannsins við hinar mestu raunir. Hann og félagar hans (m.a. íslendingurinn Fiann Paul) skipulögðu pólarróður (www.polarrow.com) þar sem markmiðið var að róa yfir norður íshafið, og slá nokkur heimsmet í leiðinni, Danny er líffræðingur sem vinnur nú að verkefni við Cambridge háskóla ásamt Jay Stock og hópi annara samstarfsmanna (Phenotypic Adaptability, Variation and Evolution Research Group). Longmann, Stock og félagar vilja rannsaka þróun manna að ólíku umhverfi og lifnaðarháttum. Þau hafa sérstakan áhuga á þoli, sérstaklega við mikla og langvarandi áreynslu. Áherslan er á lífeðlisfræðilega svörun líkamans, t.d. bruna, orkubúskap og útskilnað úrgangsefna sem greina má úr blóðsýnum. Longman og félagar vilja vita hvort munur sé á þoli ólíkra ættbálka sem gæti t.d. tengst lifnaðarháttum forfeðra þogeirra og jafnvel landnámi tiltekinna svæða. Hann hefur sérstakan áhuga á íbúum eyjaálfu, sem eru upprunir frá Indónesíu og nærliggjandi eyjum. Þúsundir kílómetra skilja eyjar álfunnar að, og landnámið var allt með opnum eintrjáningum, sem róið var milli eyja. Hugmyndin er að fyrir slíkar ferðir þyrfti mikið þol.
Til að bera saman þol og svörun við áreynslu þarf að taka blóðsýni úr fólki fyrir og eftir mikla og viðvarandi áreynslu. Longmann og félagar hafa nú þegar safnað gögnum um langhlaupara af ólíkum kynþáttum, en höfðu einnig áhuga á að rannsaka ræðara. Áhugi Dannys á róðri hefur líklega haft hér eitthvað að segja. Nú veit ég ekki alla málavöxtu og aðdraganda ferðarinnar en snemma í ágúst skrifar Danny okkur og biður um aðstoð. Hann vantar einhvern sem getur tekið blóðsýni úr honum og félögum hans fimm þegar þeir koma til Íslands eftir róður frá Svalbarða. Það var lítið mál fyrir hann að taka sýni og vinna þau á Svalbarða fyrir brottför, en reynsla kenndi honum að eftir langróður væri betra að fá úthvílt fólk til aðstoðar. Það reynir víst á kopp og koll að róa í marga daga á 2 tíma vöktum. Sýnin þurfti að taka 1 klukkustund eftir lendingu. Reyndar byrjaði hópurinn á því að róa frá Tromsö til Svalbarða, og svo var skipt um hluta af liðinu og róið frá Longyearbyen 8. ágúst, með stefnu á Ísland.
Það þarf náttúrulega ekki að taka fram að við vorum meir en til í tuskið, þ.e.a.s. segja eftir að Sigrún hafði samþykkt að koma með og sjá um blóðtökuna. Við þurftum bara að skipuleggja gistingu á Siglufirði og reyna að finna út hvar væri hægt að komast í skilvindu. Reyndar var staður lendingar færður á Sauðárkrók, sem í raun leysti skilvinduvandamálin (dásamlega hjálplegt fólk var tilbúið að hleypa okkur í græjur þar). Síðan þurftum við bara að bíða eftir ræðurunum, sem lögðu upp frá Longyearbyen á svalbarða 8. ágúst. Það fól í sér að fylgjast með GPS hnitum bátsins og lesa dagbók eins leiðangurmanna, Alex Gregory. Biðin tók aldelis á taugar þeirra sem heima sátu, en var helbert grín miðað við það sem ræðararnir sjálfir lentu í.
Eins og Alex Gregory rakti á twitter og fjallað hefur verið um á vísi.is, í New York Times og á BBC4 þá gekk ferðin til Íslands ekkert sérstaklega vel. Fyrst réru þeir út að ísröndinni vestan Svalbarða og fikruðu sig síðan suðureftir henni með stefnu á Ísland. Í hefðbundnum langróðrartúrum er hægt að stóla á stöðuga staðvinda sem auðvelda ferðalagið. Á norður Íshafi er enginn slíkur munaður. Meira munaði samt e.t.v. um þykka skýjahulu og grámann sem henni fylgdi. Báturinn er agnar smár, án mótors og vatnstanka. Það þarf sólarrafhlöðu til að eima vatn úr sjónum. Fimm daga sólarleysi norðan 70. breiddargráðu þýddi að geymirinn hlóð sig ekki. Raftækin hættu að virka og vatn varð dýrmætt.
Ofan á þetta bættist mótvindur og vosbúð. Einn daginn var mótvindur það mikill að þeir urðu að róa allan daginn til að halda stöðu sinni (dáldið eins og rauða drottningin sem Lísa hitti í Undralandi). Öldur gengu yfir bátinn og bleyttu allt, ræðararnir voru votir inn að beini og ansi kaldir. Alex lýsti aðstæðum.
Blessunarleg völdu leiðangursmenn að stefna á Jan Mayen, sem er 550 km norðan Íslands, til að leita athvarfs. Þar lentu þeir 21 ágúst. Eyjan er 340 km2 og á henni er risastórt eldfjall, Beerenberg sem rís 2277 metra yfir sjávarmáli.* Á eyjunni er norsk veðurathugunarstöð og herstöðvarkríli. Á eyjunni búa að jafnaði 18 manns.
Þar fengu leiðgangursmenn skjól, næringu og stuðning. Eftir fundarhöld til að meta stöðuna ákváðu fjórir þeirra að nóg væri róið í bili, og að endingu var hætt við síðasta legg leiðangursins.
Strætó stoppar ekki á Jan Mayen, og þar sem flugvöllurinn tilheyrir hernum er ekki hægt að fljúga þangað. Því urðu leiðangursmenn að bíða til 3 ágúst með að komast með báti til Noregs.
Við fengum aldrei að fara til Sauðarárkróks til að draga blóð úr róðrarhetjunum, en miðað við yfirlýsingar Fiann Paul leiðangursstjóra má búast við öðrum leiðangri í náinni framtíð.
Hugdirfska þeirra er aðdáunarverð en einnig ógnvekjandi. Sem dæmigerður skrifstofupúði, sem reyndar heggur tré sér til dundurs og fer í heyskap á sumrin, myndi ég aldrei leggja upp í slíkt ævintýri. En sem betur fer eru hugdjarfar manneskjur í veröldinni sem sýna reyna á takmarkanir mannlegs þolgæðis. Ég lyfti lopahúfu minni til heiðurs Danny Longman, Fiann Paul, Alex Gregory og félögum þeirra.
Ítarefni:
Stranded on Norwegian Island, Rowers End Their Arctic Mission
28. ágúst 2017 New York Times.Vísindi og fræði | Breytt 6.9.2017 kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2017 | 09:38
Segjum nei við einnota plasti
Plast er meiriháttar uppfinning, sem hefur gjörbreytt matvælaframleiðslu og lífskjörum fólks.
En kostir plasts gera það einnig að umhverfisvandamáli, þar ber hæst hversu lengi það er að brotna niður í náttúrunni. Margir hafa heyrt um plastfjöll á ruslahaugum og sumir um plastflekkina á úthöfunum. Dýralífi og lífríkinu almennt stendur mikil ógn af uppsöfnun plasts.
Lykilatrið er sú staðreynd að plast eru ónáttúrulegt efni sem lífverur geta ekki brotið niður. Jafnvel þótt plast sé búið til úr kolefnissamböndum, þá eru þau fjölliðuð í keðjur sem ensím lífvera geta ekki brotið niður. Eina þekkta undantekningin eru ensím í örverum í görnum vaxorma. En þar sem vaxormar eru ekki útbreidd tegund og bundin við land, stefnir í óefni með uppsöfnun plasts í hafinu.
Á meðan leitað að leiða til að brjóta niður plast er mikilvægt að draga úr notkun þess.
Nú stendur yfir átakið plastlaus september, sem er:
... er árvekniátak sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu og benda á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti. Við hvetjum fólk til að taka þátt í Plastlausum september, og vonum að þátttaka í átakinu leiði til minni plastnotkunar til frambúðar.
Á síðu átaksins eru margar góðar ráðleggingar fyrir fólk, sérstaklega hvað varðar innkaup og aðra möguleika í vöruvali.
Elsa Þórey Eysteinsdóttir, ein skipuleggjenda skrifar um átakið í Fréttablað dagsins. Þar segir:
Einnota plast er einungis notað í nokkrar mínútur, rétt á meðan drukkið er úr glasi eða borðað af diski, svo fer það í ruslið, eða í besta falli í endurvinnslu. Allt plast sem einhvern tíma hefur verið framleitt er þó enn til, það brotnar niður í minni einingar en eyðist ekki. Sum ríki hafa markað sér stefnu til að minnka plastnotkun enda er um að ræða vaxandi vandamál.
Við getum sjálf ákveðið að minnka notkun á einnota plasti í okkar daglega lífi. Við getum valið vörur sem pakkað er í annars konar umbúðir, sleppt rörum og lokum þegar við kaupum drykki, farið með eigin ílát í verslanir sem það bjóða, keypt sápustykki í staðinn fyrir brúsa, valið grænmeti sem ekki er pakkað í plast. Áherslan er á einnota plast, engin ástæða er til að henda því plasti sem til er, reynum að nota minna en endurnotum og endurvinnum það plast sem fer um hendur okkar. Fjölmörg ráð er að finna á heimasíðunni plastlausseptember.is
Pistlar um skyld efni.
Arnar Pálsson 6. júlí 2010 Plasthafið
Arnar Pálsson 20. janúar 2010 Plastfjallið
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2017 | 17:06
Erfðamengun í löxum á vestfjörðum
Hugmyndir um aukið laxeldi hérlendis hafa vakið umræðu um möguleg umhverfisáhrif eldis. Fiskeldi fylgja ýmsir þættir sem geta haft neikvæð áhrif á umhverfið, sem rétt er að hafa í huga við mat kostum og göllum uppbyggingar. Margt kemur þar til, mengun frá fóðri og skít, smit sem magnast í kerjum og erfðamengun ef fiskar sleppa. Til að mynda ef eldið er stundað í opnum kvíum í sjó getur ónýtt fæða og úrgangur frá fiskum valdið ofauðgun. Einnig fylgja mörgum eldisfiskum sníkjudýr og sýklar, sem auk þess að valda búsifjum í eldinu, geta haft skaðleg áhrif á aðrar villtar tegundir. Í tilfelli laxa er veigamest lús sem herjar á nokkrar tegundir laxfiska. Rf eldisker eru nálægt árósum getur laxalúsin borist á villta laxa, urriða og bleikjur þegar seiði halda til sjávar, fiskar snúa til baka eða eru bara að svamla um á strandsvæðum.
Auk þessara tveggja þátta er erfðamengun einnig alvarlegt fyrirbæri, sem norðmenn hafa fundið vísbendingar um í 2/3 stofna í nýlegri rannsókn. Erfðamengun verður við blöndin eldisfisks og villtra fiska, og getur haft neikvæð áhrif á lífslíkur villtra stofna og eiginleika þeirra (sjá fyrir neðan tengla á norskar rannsóknir og tvær greinar okkar um efnið).
Íslenski laxinn er ólíkur norskum laxi erfðafræðilega og einnig líffræðilega. Þeir eru sannarlega af sama meiði, enda naḿu þeir báðir ný svæði í kjölfar íaldar, en á þeim nokkur þúsund kynslóðum sem liðnar eru hafa þeir þróast í ólíkar áttir. Rannsóknir norsku sérfræðingana sýndu einnig að áhrif gena frá eldisfiskum virðast vera alvarlegri á fjarskyldari stofna laxa. Íslenski laxinn væri dæmi um slíkt.
Nútildags er laxeldi hérlendis stundað með norskum eldislaxi, í opnum kerjum. Spurningin vaknar er, hvaða áhrif hefur það á íslenska ferskvatns stofna ef laxar sleppa úr kerjum hér við land?
Á föstudaginn bárust fréttir af því að sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar hefðu fundið merki um erfðamengun í laxfiskum á Vestfjörðum. Rannsóknin byggði á erfðagreiningu á 15 breytilegum stöðum í erfðamengi laxins, og voru sýni af meira en 700 seiðum frá Vestfjörðum (aflað 2016) borin saman við löxum í kringum landið og eldisfisk.
Gögnin sýndu að eldislaxar höfðu parast við villta laxa og eignast afkvæmi á nokkrum stöðum. Slíkir blendingar fundust aðallega í tveimur ám (Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði). Þrátt fyrir að engir strokufiskar voru tilkynntir 2015 er mjög sennilegt að einhverjir kynþroska laxar hafa sloppið og komist upp í þessar ár.
Því er ljóst að erfðamengun laxa er raunveruleg ógn hérlendis.
Eins og oft gerist í umræðu um mengun, þá færist umræðan til eftir að sýnt hefur verið fram á að einhver iðnaður eða framleiðsla hafi mengun í för með sér. Fyrst er yfirleitt neitað að mengun sé til staðar, en síðan er því haldið fram að hún sé óveruleg, eða að hún hafi bara smávægileg áhrif á ómerkilega náttúru, eða á endanum að ásættanlegt sé að fórna hreinleika náttúrunar fyrir hagnað og störf.
Ein mikilvæg niðurstaða í skýrslunni er sú að munur er á laxastofnun innan Íslands. Það er rétt að Vestfirðir eru ekki þekktir fyrir að vera mikil laxveiði svæði, en náttúran ekki stöðugt fyrirbæri. Við ættum líklega að fagna því að villtar tegundir auka útbreiðslu sína, ekki að agnúast yfir því að þær flækist fyrir okkar áformum.
Það eru margar leiðir til að draga úr áættunni á erfðablöndun og mengun. Sú einfaldasta er að nota lokuð kerfi fyrir fiskeldi, eins og frændur vorir Norðmenn stefna nú ótrauðir að. Nema vitanlega norðmennirnir sem fjárfesta á Íslandi, þeir vilja fá að nota opin ker til eldis.
Mynd úr skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.
Heimildir
Skýrslan Erfðablöndun eldislaxa af norskum uppruna við íslenska laxastofna (.pdf)
RÚV. 25. ágúst 2017. Erfðablöndun laxa í ám á Vestfjörðum
Vísir.is 25. ágúst 2017. Skýr merki um erfðablöndun eldislax af norskum uppruna við íslenska laxastofna
Karlsson o.fl. 2016 ICES Journal of marine science doi.org/10.1093/icesjms/fsw121,
Glover o.fl. 2017 Fish and Fisheries doi: 10.1111/faf.12214,
Bolstad o.fl. 2017 Nature Ecology & Evolution doi:10.1038/s41559-017-0124
Arnar Pálsson 16. janúar 2017 Mun norskt genaregn eyðileggja íslenska laxinn?
Arnar Pálsson 8. júní 2017 Áhrif erfðamengunar á villta laxastofna
22.8.2017 | 17:15
Kynslóðin sem borgaði laun alþingismanna með menntun sinni
Menntun er nauðsynleg fyrir samfélagið og eflandi fyrir einstaklinga. Með því að læra nýja hluti bætir maður sjálfan sig, öðlast nýja færni, sjálfstraust og heimssýn. Menntun auðgar bæði þjóðir og fólk, jafnt andlega og fjárhagslega.
Menntun er ekki ókeypis eða sjálfsögð. Íslenskt samfélag var reist á þeirri hugsun að menntun ætti að vera almenn og ókeypis. Menntun væri fjárfesting til framtíðar. En ekki vilja allir stjórnmálamenn fjárfesta í menntun, og sýna það með gjörðum sínum ef ekki orðum.
Núverandi ríkisstjórn sveltir háskóla og menntakerfi landsins. Á aðalfundi Háskóla Íslands sem haldinn var í dag kom í ljós að skólann vantar einn og hálfan milljarð til að geta sinnt eðlilegum rekstri. Í ár er háskólinn rekinn með næstum 500 milljóna króna tapi. Ástæðurnar fyrir hallanum eru margvíslegar.
1. Ein er sú að ríkið samdi um laun háskólakennara, en jók ekki að sama skapi fjárframlög háskólanna sem þeir vinna hjá. Ríkið samdi við háskólakennara og prófessora um rúmlega 20% launahækkanir árið 2015. En í fjárlögum fyrir 2016 hækkaði framlag til t.d. Háskóla Íslands ekki í samræmi við kjarasamninginn. Því situr skólinn upp með halla, hann verður að borga starfsmönnunum hærri laun en skortir fjármagn til þess.
Afleiðingin er sú að námskeið eru lögð niður, önnur kennd með 30% minna framlagi kennara, og verklegar æfingar og ferðir eru skornar niður, yfirvinna og nýráðningar bannaðar og lausráðnum starfsmönnum sagt upp. Hvaða áhrif ætli það hafi á gæði menntunar?
2. Alþingi Íslendinga gaf HÍ afmælisgjöf af tilefni 100 ára afmæli skólans árið 2011. Um var að ræða 150 milljóna króna upphafsgreiðslu og svo áþekka aukningu á hverju ári, sem átti að nýtast í nýjungar í starfi skólans.* En aldarafmælissjóðurinn hefur ekki haldið áfram að stækka. Nú situr HÍ uppi með undirfjármagnaðar einingar og námsbrautir. Skyldi það hafa jákvæð áhrif á gæði menntunar?
3. Háskólar hérlendis tóku þátt í niðurskurði á ríkisútgjöldum eftir hrun, á sama tíma og þeir tók við fleiri nemendum. Stuðlar það að betri eða verri menntun?
4. Mikilvægasta staðreyndin er sú að HÍ og Háskólar á Íslandi almennt eru undirfjármagnaðir miðað við Háskóla á norðurlöndum og í norður Evrópu. HÍ hefur stært sig af því að vera rekinn af mikilli ráðdeild, en hægt er að herða sultarólina um of.
Íslendingar eru harðir af sér og barma sér eiginlega bara rétt fyrir (eða eftir) andlátið. En afleiðingar langvarandi fjársveltis háskóla hérlendis eru margþættar og svo alvarlegar að ekki verður orða bundist. Sveltið birtist í hrörnandi húsnæði, tækjabúnaði og kerfum, en einnig í verri kennsla, lakara námsframboði, tærandi vinnuumhverfi og lélegri vísindum.Svelti menntakerfis veldur því að kynslóðin sem nú innritast í háskóla fær verri kennslu en fyrri kynslóðir.
Eftir kosningarnar í október voru laun alþingismanna hækkuð um tæp 45%, með úrskurði kjararáðs. Launahækkanir gæðinga kjararáðs er annar en sá sem almennings eða annara ríkisstarfsmanna.
Fjárframlag til Alþingis var auðvitað hækkað til að standa straum af auknum launakostnaði alþingismanna. Háskólar (eða aðrar mennta og heilbrigðistofnanir) njóta ekki sömu greiðvikni fjármálaráðherra og ríkisvaldsins. Háskóla þurfa að sýna ábyrgt bókhald, en gæðingar kjararáðs þurfa ekki að óttast kjaraskerðingu.
Í anda húsdýragarðs George Orwell eru gæðingar kjararáðs jafnari en aðrir, og næsta kynslóð fær að borga laun alþingismanna með menntun sinni.
Ítarefni:
Útlit var fyrir að nokkuð myndi rofa til í fjármögnun Háskóla Íslands þegar Aldarafmælissjóður HÍ var stofnaður í þverpólitískri sátt allra stjórnmálaflokka á Alþingi á 100 ára afmæli Háskólans árið 2011. Var það yfirlýst markmið með stofnun sjóðsins að framlög til Háskóla Íslands myndu aukast í áföngum uns náð væri meðalfjárveitingum til háskóla í ríkjum OECD árið 2016 og meðalfjárveitingum til háskóla á hinum Norðurlöndunum árið 2020. Var þetta markmið ítrekað í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og einnig í stefnu Vísinda- og tækniráðs sem lýtur formennsku forsætisráðherra og er skipað 6 öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar.
Þessi fyrirheit hafa ekki verið efnd og í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 er ekki minnst á þau.
18.8.2017 | 14:26
Ómótstæðilegt, tælandi, eyðileggjandi...
Ég er fíkill.
Þú notar sama dóp og ég.
Dópið mitt er mjög algengt nútildags, en var eiginlega ekki til fyrir tveimur áratugum.
Dópið hefur nokkur nöfn og ólíkar birtingarmyndir, en við þekkjum það sem snjallsíma, tölvupóst, netið, tölvuleiki og samskiptamiðla.
Nei hættu nú alveg gæti einhver sagt, netnotkun er eðlilegur hluti af lífi nútímamannsins, fíklar nota lyf eða eiturlyf en ekki tölvupóst!
Samfélagið hefur sagt okkur að fíkn sé bara fyrir einhver úrhrök sem ánetjast eiturlyfjum eða lyfjum. Þau séu skemmd eða gölluð, en við hin séu heilbrigð. Að við getum ekki orðið fíklar. En fíkn ræðst ekki bara af svörun einstaklinga við dópinu, heldur einnig af framboði og eiginleikum þess.
Fíkn er fíkn, sama hvort hún sé í eiturlyf eða snjallsíma. Sannarlega er eiturlyfjafíkn meira skaðleg fyrir líkama sál, en fjöldinn sem þjáist af netfíkn er mun meiri. Og það sem verra er, við bjóðum börnum okkar upp dópið algerlega bláeyg, óvitandi um hvernig það getur raskað þroskun persónuleika þess, félagsfærni, líkamlegs atgervis og þar með framtíðarhorfum. Við erum að ala upp kynslóð af símadraugum, fólk sem vafrar um mannheima starandi á bláan skjá í hönd sér.
Kvikmynd Wim Wenders - Until the end of the world, sá þetta algerlega fyrir. Þar uppgötvar einhver vísindamaður leið til að skrá drauma fólks, og gera þá sýnilega í litlum handtölvum. Fólk varð algerlega heillað af því að horfa á sína eigin drauma. Þau vöfruðu um eyðimörkina með skjá í hendinni og hirtu ekkert um annað fólk (eða sjálfan sig). Og þegar þau voru búin að horfa á drauma næturnar flýttu þau sér að sofa meira til að geta tekið upp næsta draum.
Ég er fíkill
í tölvupóst tómt inbox....vonlaust verkefni.
Í samskiptaforrit, twitter og blog (sbr þennan pistil).
Svörunin sem maður fær, losun á dópamíni í kollinum er ansi notaleg. Alter lýsir þessu við gleðina sem börn fá við að ýta á takka í lyftu, þú ýtir á takka og ljós birtist bak við töluna. Hann segir frá því að hafa stigið inn í lyftu, og 5 ára barn hafi ljómað eins og sólin. Drengurinn hafi ýtt á takkana fyrir allar hæðirnar. Hann losaði dópamín í hvert skipti sem hann ýtti á takka, og varð mjög glaður. En hann var ekki betur settur. Sama brella er notuð í skemmtigörðum heimsins, ljós, dingl, skemmtilegt lag. Og vitanlega í öllum leikjunum og smáforritunum sem soga tíma okkar og orku til sín.
Vinsamlegast lesið rólega en deilið ekki ;)
Pistillinn er innblásinn af bók Adams Alter - Irresistible.
http://adamalterauthor.com/irresistible/
Arnar Pálsson 16. júní 2015 Orð á bók og skjá
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2017 | 15:21
15. september - fundur um lífslok
Þann 15. september n.k. verður haldin ráðstefna í Háskóla Íslands um líknardráp og ákvarðanir við lífslok. Ráðstefnan er skipulögð af norrænu lífsiðfræðinefndinni í samstarfi við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og verður haldin í fundarsal Veraldar - húss stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Á raðstefnunni verður fjallað um reynslu nokkurra þjóða af því að heimila líknardráp og rætt um stöðu málsins á Norðurlöndunum.
Ráðstefnan er flutt á ensku og er öllum opin en nauðsynlegt er að skrá sig á vef norrænu nefndarinnar. Ekkert skráningargjald.
Nánari upplýsingar og dagskrá má finna á slóðinni: https://www.nordforsk.org/en/events/nordic-committee-on-bioethics-conference-facing-death-end-of-life-decisions
16.8.2017 | 14:46
Hvað á að gera við erfðaupplýsingar?
Umfjöllun CBS um Downs heilkennið og mismun í tíðni fóstureyðinga slíkra fóstra milli landa hefur vakið hörð viðbrögð. Sérstaklega hjá þeim sem eru á móti fóstureyðingum af trúarlegum eða siðferðislegum ástæðum.
En í bakgrunni er mikilvæg spurning, hvernig nýtum við upplýsingar um erfðir eiginleika og sjúkdóma?
Downs heilkennið er dæmi um alvarlegan erfðagalla, þar sem einstaklingar fá auka eintak af litningi 21. Fjöllitnun er þegar eintök litninga verða fleiri en grunnlitningatala lífveru; við erum með 2 eintök af öllum litningum (nema kynlitningum ef við erum karlkyns) og Downs einstaklingar eru þrílitna um litning 21. Litningur 21 er næst minnsti litningur í erfðamengi okkar. Þrílitnun á öllum öðrum litingum er mjög alvarleg, þannig að fósturdauði er reglan og þau fáu börn sem fæðast hafa litlar lífslíkur og eru mjög veik. Þrílitnun fylgja nefnilega margvíslegir kvillar og fóstugallar, sem stytta líf einstaklinga sem ná að fæðast og auka líkur á öðrum sjúkdómum. Downs er vægasta þrílitnunin en samt alvarleg.
Sambærilegt róf í alvarleika má sjá í öðrum erfðagöllum, nema hvað vægar stökkbreytingar á arfhreinu formi hafa mun vægari áhrif en vægar þrílitnanir. En alvarlegar stökkbreytingar geta verið banvænar ef arfhreinar, alveg eins og þrílitnanir á litningum. Nú er skimað fyrir vissum alvarlegum erfðagöllum í nýfæddum börnum hérlendis og jafnvel fóstrum erlendis. Markmiðið er að hjálpa læknum að meðhöndla alvarlega meðfædda efnaskiptasjúkdóma, og jafnvel að forðast það að börn fæðist með alvarlega galla eins og cystic fibrosis.
Kunningjar mínir í Ameríku fóru einmitt í erfðapróf áður en þau fóru að búa til börn, og komust að því að þau voru bæði arfblendin um alvarlegar stökkbreytingar í cystic fibrosis geninu. Það þýddi að það væru fjórðungs líkur á að barn þeirra væri arfhreint um cystic fibrosis galla.
Eins og áður sagði eru stökkbreytingar misalvarlegar, og sumar hafa engin áhrif á lífslíkur. Okkur finnst fráleitt að einhver kjósi að eyða fóstri vegna erfðaþáttar sem engin áhrif hafi á lífslíkur barnsins, en e.t.v. vill einhver í framtíðinni tryggja að barn þeirra verði bláeygt eða með dökkar krullur. Viðkomandi gætu látið frjóvga egg á diski, framkvæmt genapróf á fósturvísum og valið vísi með rétta samsetningu gena til að setja í leg móður.
Bölvunin liggur í fjöldi samsetninga. Það er auðvelt að velja fósturvísa út frá ákveðnum breytileika í einu geni, búast má við æskilegu arfgerðinni (arfhreinn um ákveðna samsætu) í 1 fóstri af 4.
En um leið og genin verða tvö þá er samsetningin 1 af 16, ef genin eru þrjú, þá er samsetningin 1 af 64. Það þýðir að skoða frjóvga þurfi u.þ.b. 16 eða 64 egg til að fá rétta samsetningu af genum*. Þeir sem þekkja til tæknifrjóvgana vita að eggin eru takmarkandi, og ekki sársaukalaust að afla þeirra.
Því tel ég ólíklegt að hægt verði í framtíðinni að klæðskerasníða börn t.d. með blá augu, dökkt hár, sem krullast, og án galla í cystic fibrosis, p53 eða brca genunum. Með skimun á fósturvísum eingöngu, þ.e.a.s. Ef erfðatækni væri notuð, til að breyta genum þá kann myndin að breytast.
Einhverjum kann að finnast það fáránlegt að velja barn út frá útliti, en veruleikinn er sá að í einu fjölmennasta ríki heims er fóstrum eytt á grundvelli kynferðis. Stjórnvöld í Kína settu á síðustu öld hömlur á fjölda barna sem hvert par mátti eignast. Þar sem synir voru álitnir ákjósanlegri en dætur, leiddi það til þess að kvenfóstrum var eytt frekar en karlfóstrum. Afleiðingin var sú að hlutfall nýfæddra drengja varð hærra en ella, og kynjahlutfall í landinu er nú 116 karlar á hverjar 100 konur.
Veruleikinn er sá að fóstureyðingar eru löglegar hérlendis og í flestum öðrum löndum. Mæður geta valið að fara í fóstureyðingu af ólíkrum ástæðum, félagslegum, persónulegum og læknisfræðilegum. Erfðaupplýsingar verða almennari og aðgengilegri, en geta fólks til að túlka þær er enn takmörkuð. Því er mikilvægt að erfðaráðgjöf sé vönduð, aðgengileg og ábyrg. Einnig er mikilvægt að erfðafræðingar ræði hvernig sé best að nýta erfðaupplýsingar, sérstaklega einstaklinga og ófæddra fóstra. Einnig er mikilvægt að muna að genin eru ekki allt, flestir eiginleikar mannsins eru undir sterkari áhrifum frá umhverfi en genum. Í genabyltingunni megum vð ekki gleyma mikilvægi atlætis og heilnæms umhverfis. Ástríkir foreldrar eru þar einn mikilvægasti þátturinn.
*Gert er ráð fyrir að báðir foreldrar séu arfblendnir um víkjandi gen sem tengjat þessum eiginleikum, ef genin eru ríkjandi eða annað foreldri arfhreint þá eru hlutföllin ekki jafn ýkt.
![]() |
Palin líkir Íslendingum við nasista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.7.2017 | 09:31
Tarzan, álfarnir og týnda geimnýlendan
Sem táningingur las maður allskonar ævintýri, Tom Swift og Tarzan meðal annars. Það var frábært að lesa um Tarzan þegar hann fann risaeðlurnar í týndu veröldinni inni í jörðinni eða leiðangra Toms til fjarlægra stjarna. Á undangengnum mánuðum sumar hef ég gengið í bókabarndóm og náð að lesa nokkrar ágætar vísindaskáldsögur og eina fantasíu. Mig langar til að deila þeim með ykkur, og kannski stuttum ef ekki skýrt úfærðum hugsunum um þær.
Fyrir ári komst ég á bragðið með að lesa vísindaskáldsögur eftir Jack McDevitt*.
. Sögusviðin eru í framtíðinni, í nálægri og fjarlægri. Sögurnar gerast eftir að mannkynið hefur náð tökum á flakki milli sólkerfa og stjarna, og hefur komið upp bækistöðvum úti í geimnum. Tvær bókanna, The engines of god og Solaris, gerast eftir nokkur hundruð ár, og er lykilpersónan Pricilla Hutchins flugmaður í geimflotanum. Sögurnar hvelfast um ráðgátur og ógnir, leit að lífi eða heppilegum plánetum fyrir landnám. Í sögunum er ofnýting mannkyns á jörðinni viðvarandi stef sem af hljótast margvísleg vandamál og drifkraftar. Leitin að lífi er vitanlega líka leit að vitibornum geimverum. Mér þykir sagan um Minnismerkjafólkið (the monument makers) í The engines of god, forvitnilegust því þar er Pricilla og hópur fornleifafræðinga á slóð vitiborinna vera á öðrum hnöttum. Geimverurnar höfðu byggt verk á tunglum eða í sólkerfum þar sem líf fannst. Sagan hefst á tungli Satúrnusar þar sem risastór stytta af tvífættri veru fannst, en annars staðar höfðu risavaxin verk verið sköpuð. Jafnvel fljúgandi ferkanntaðir grjóthnullungar á sporbaug um framandi jarðir. Sagan fer vítt og breitt, og tekur allskonar sveigur og beygjur, en er bæði spennandi og forvitnileg. Ámóta góð ráðgáta er The seeker, sem gerist nokkur þúsund árum síðar. Þar komast fornleifahöndlarar á snoðir um týnda geimflaug, the seeker, sem var ein af ráðgátum mannkynssögunar. The seeker var faraskjóti nokkur þúsund manna hóps sem ætlaði að setjast að á framandi plánetu. Nema hvað enginn á jörðinni vissi hvar plánetan var, og enginn heyrði nokkuð frá landnemunum aftur. Fyrr en bikar úr geimflauginni Seeker dúkkaði upp hjá fornmunasala. Ráðgátan er meiriháttar vel fléttuð og framvindan sérstaklega góð. Einn sérlega forvitnilegur þráður í sögunni er heimsókn til hinna mállausu (the mutes), vitiborinna geimvera sem svipar að einhverju leyti til skordýra. Hinir mállausu tala ekki, en ræða saman með hugsanalestri. Þeir komast auðveldlega inn í huga mannfólks, jafnvel þótt að við séum óskyldar líffræðilega.
Hvernig yrði þér við, ef þú mættir tveggja metra háu skordýri með langa munnparta og fálmara og glansandi augu í jakkafötum í Leifstöð? Líklega færi um þig einhver hrollur eða jafnvel ógeðstilfinning. Sem væri mjög vandræðalegt því skordýrið gæti lesið hugsanir þínar og vitað að þér býður við því. Sögur McDermit eru í aðra röndina spennandi ævintýri og ráðgátur, en taka einnig á áleitnum spurningum um ofnýtingu jarðar, samskipti fólks og eðli lífvera og vitsmuna.
Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen er mjög athyglisvert ævintýri eða fantasía. Sögusviðið er Ísland nútímans, og þar tvinnast saman hulduheimar og mannheimar. Sagan er í raun morðgáta, og aðalpersónan er miðill sem vinnur með lögreglunni að rannsókn morðgátu við Víghól í Kópavogi. Og svo morð á öðrum víghól, og öðrum. Sagan vinnur úr þjóðsagnaarfi og nýaldarkukli á ansi sniðugan hátt. Aðalpersónurnar eru miðlar, vættir og galdramenn, og fléttan hin ágætasta. Bókin hélt mér mjög vel og langt inn í nokkrar nætur. Frásögnin um Víghóla er styttri en hún ætti skilið að vera, því bókin er ansi góð, en fiskarnir kalla.
*Leiðrétting.
Fyrst skrifaði Jack McDermitt, en þökk sé Kristni þá lagfærðist það.
Vísindi og fræði | Breytt 4.8.2017 kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.7.2017 | 14:07
Hvurslag, hvurslags - aðdáunarverðir smáglæpir
Hann hékk fram af bjargi í stormi og rýndi niður í iðurótið. Fyrst hafði hann bölsóttast yfir fólk sem hendir rusli í fjöruna, en síðan læddist að honum önnur hugsun. Gamli kallinn í sögunni rekald er jafnt kunnuglegur og auðskilinn, sem dulur og framandi.
Hversu stórar hugmyndir rúmast í hverri sögu? Sérstaklega ef hún telst smásaga? Hversu flókin getur atburðarásin eða persónusköpunin verið í 5000 orðum? Eins og svo margt í bókum, veltur þetta allt á skáldinu.
Nýlega naut ég þeirrar blessunar að lesa smásagnasafn eftir Björn Halldórsson, sem kallast smáglæpir. Sögurnar eru fjölbreyttar að viðfangsefnum og persónum, ritaðar frá vinkli barna, fullorðinna og eldra fólks. Í fyrstu sögunni segir stúlka, nýflutt í framandi hverfi, frá því þegar hún kynnist dreng sem vill endilega fleygja sjónvarpi. Úr mikilli hæð. Þetta er ekki kviða um rokk og ról, heldur frekar saga um fyrstu kynni og hvernig vinátta getur myndast um leyndarmál. Sögurnar eru líka misjafnar hvað varðar viðfangsefni, en mögulega er hið ósagða sameiginlegur þráður þeirra allra. Sem er reyndar saga samskipta okkar í hnotskurn. Mér líkaði sérstaklega vel við söguna marglyttu, sem einnig er rituð frá sjónarhóli barns. Þar er lýst samskiptum tveggja fjölskylda á sólarströnd, á mjög kröftugan og meitlaðan hátt. Björn hefur greinilega gott vald á persónusköpun, getur spunnið sögur og kryddað þær vel. Skáldið hfur ágætt vald á málinu og lesningin er bæði þægileg og örvandi. Inn á milli leiftra setningar af ljóðrænu, sem gætu jafnvel staðið óstuddar. Smáglæpir eru fjölbreytt og spennandi lesning, og það verður gaman að sjá hvað Björn skrifar næst.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2017 | 17:05
Nýjasta risaeðlutækni og fiðrildavísindi
Risaeðlur eru ótrúlega heillandi fyrirbæri, jafnvel þótt þær hafi dáið út fyrir milljónum ára og maður geti bara séð beinagrindur af þeim á söfnum. Samanber grindina af Sue í náttúruminjasafninu í Chicago hér að neðan.
Rannsóknir á risaeðlum byggjast á því að finna velvarðveitta steingervinga og rannsaka byggingu og eiginleika dýranna sem þeir komu úr. Líka er hægt að nota búa til líkön, t.d. úr timbri eða með tölvutækni til að kanna eiginleika dýranna og hreyfigetu. Það var t.d. gert í nýlegri rannsókn á hreyfigetu T. rex sem frétt BBC segir frá og kynnt var á mbl.is.
Önnur heillandi dæmi um notkun líkana af líkamsbyggingu risaeðla má sjá í þættinum Haldið í háloftin sem horfa má á Rúv þessar vikurnar.
Í þætti mánudagsins voru stórbrotnar tölvugerðar myndir af flugeðlunum og fyrstu fuglunum. Þar var útskýrt hvernig bygging dýranna og ekki síst eiginleikar vængja og fjaðra þróuðust.
Í þættinum fyrir viku var fjallað um flug skordýra, frá drekaflugum og bjöllum til tvívængja. Myndirnar af fljúgandi húsflugum voru alveg stórbrotnar. Ég er líffræðingur með meirapróf í erfðafræði ávaxtaflugunnar, en hafði ekki hugmynd um hvernig hún beitir jafnvægiskólfinum (e. haltere) eða snýr alltaf höfðinu rétt í flugi.
Eitt athyglisvert við þættina er að nú styðst BBC teymið, sem David Attenborough talar fyrir í þáttunum, við mikið af nýjustu rannsóknum og talað er við vísindamennina sjálfa. Rætt var við sérfræðing sem ásamt fjölda samstarfsmanna rannsakar far Þistilfiðrilda um Evrópu, m.a. til Íslands. Far fiðrildisins er það víðfemasta sem þekkist, enda breiðist það frá Afríku til Evrópu á nokkrum kynslóðum, og til baka aftur með vindum.
Ítarefni.
Þistilfiðrildavaktin.
http://butterfly-conservation.org/612/migrant-watch.html
![]() |
Gat í mesta lagið skokkað rösklega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó